12.05.1925
Sameinað þing: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (3214)

132. mál, réttarstaða Grænlands gagnvart Íslandi

Flm. (Benedikt Sveinsson):

Öllum er kunnugt um deilur þær hinar miklu, er verið hafa um nokkur ár milli Norðmanna og Dana um rjettarstöðu Grænlands.

Deilur þessar hófust alvarlega eftir för konungs vors til Grænlands sumarið 1921, þá er hann lýsti yfirráðum Dana yfir öllu landinu.

Skömmu áður höfðu fulltrúar Dana viðurkent jafnrjetti Íslendinga til veiða við Grænland, og síðan hafa Danir gert bráðabirgðar samning við Norðmenn um rjettindi til aðseturs og veiða á Austur-Grænlandi.

Þótt margt og mikið hafi verið rætt um rjettarstöðu Grænlands nú um hríð á Norðurlöndum, og af ærnu kappi, þá hafa Íslendingar setið hjá þeim málum hingað til — ekkert lagt til málanna opinberlega, nema það sem einstakir áhugamenn hafa látið málið til sín taka í blöðum, svo sem fyrst og fremst Einar skáld Benediktsson, er allra manna best hefir lagt til þessara mála.

Ekki er þögn þessi fyrir þá sök, að það sje oss óskylt mál, heldur liggja til þess aðrar ástæður.

Stöðu sjálfra vor hefir verið svo háttað, að vjer höfum fyrst þurft að leita rjettar sjálfra vor og fullra yfirráða í landi voru. Nú, er vjer höfum loks fengið viðurkent fullveldi vort, höfum vjer náð nokkru færi á að leita annars þess rjettar vors, er oss var áður með öllu fyrirmunað og í salti hefir legið.

Jafnframt þeim atburðum, deilum og umræðum, er orðið hafa um Grænland í millum frændþjóða vorra á Norðurlöndum, hefir að vísu vaknað áhugi Íslendinga á Grænlandsmálum, miklu meiri en áður hefir verið. Þess er og von, að Íslendingar þykist fullkomlega vera svo nákomnir þessum málum, að þeir megi eigi til langframa sitjandi hlut í eiga. Grænland liggur næst Íslandi allra Norðurálfulanda. Má eigi gleyma því, að Grænland fanst og bygðist frá Íslandi af íslenskum þegnum eingöngu. Íslensk nýlenda stóð þar um 500 ár. — Þótt hafið væri torsótt milli Grænlands og Íslands í þann tíma, var þó viðskiftasamband milli landanna um langan aldur — alt þar til er konungar bönnuðu siglingar á milli, og jafnvel lengur — svo að Íslendingar sættu stundum afarkostum, ef þeir fóru til Grænlands.

Þingið í Görðum í Einarsfirði (Igaliks) samsvaraði að sumu leyti vorþingum hjer á landi, og á Grænlandi gengu íslensk lög. Þessu til sönnunar eru ýmsir staðir í Grágás, þar sem ákvæði eru um þá menn, sem eru „hér í landi eða í órum lögum“. Sbr. Vígslóða (Staðarhólsbók): „Ef maðr verðr sekr á Grænlandi ok er hverr þeira manna sekr hér, er þar er sekr. En svá skal hér sækja um björg ens sekja manns, er út þar varð sekr fullri sekð, sem hann yrði hér sekr á várþingi, þar til er sagt er til sekðar hans á alþingi“ — o. s. frv.

Grænland hefir verið talin nýlenda Íslands að fornu og er alment nefnt svo í ritum, útlendum sem innlendum, fram á síðustu tíma.

Nýlendusamband getur verið mjög margvíslegt, og þótt það sje harla lauslegt, getur það þó verið traust og haldgott og samkvæmt skilningi þeirrar þjóðar, sem nú er ríkust í heimi og mest hefir við nýlendumál fengist, en það eru Englendingar. Jeg vil í þessu sambandi minnast á greinir dr. Jóns Stefánssonar, er fyrir skemstu hafa birst hjer í blöðum. En út í það fer jeg nú eigi frekara.

Bókmentir Íslendinga bera þess ljóst vitni, hversu þeir töldu landið nákomið sjer. Ari Þorgilsson hinn fróði ritar heilan kapítula um fund og bygging Grænlands í hið örstutta ágrip Íslandssögu, Íslendingabók, sem alls er 10 kapítular. Eins telja Landnámabækur Íslands ágrip landnáma í Grænlandi. Íslendingar færðu og í letur sögu Eiríks rauða og aðra merka atburði vestur þar, rituðu forsagnir um siglingaleið þangað, kirknaskrá, bœjatölu o. s. frv. í þessu felst að vísu engin sönnun um stjórnskipulegt samband landanna, en sýnir, hve Íslendingar töldu landið sjer nákomið. Annálar segja, að Grænlendingar hafi gengið á hönd Hákoni gamla Noregskonungi 1261. Hafa sumir talið það vitni um fullveldi Grænlands, en þetta sannar ekkert um stjórnarlegt sjálfstæði eða fullveldi þess. Goðorðin íslensku komu sama konungi í hendur á ýmsum árum þessa tímabils, en á þeim árum, er „gamli sáttmáli“ var ger, hafðist hjer við Ólafur Grænlendingabiskup (1262–4), og kom hann hingað utan af Grænlandi.

Því verður varla með rökum hrundið, að Grænland hafi verið nýlenda frá Íslandi á þessu tímabili. En hvenær glataðist þá hinn forni rjettur Íslands til þessarar nýlendu? það er einmitt eitt höfuðefni þeirrar rannsóknar, sem tillagan ætlast til að verði ger, að svara þeirri spurning.

Nýlendan týndist og eyddist fyrir samningarof konunga, siglingabann þeirra til annara manna og fullkomið siglingaleysi af sjálfra þeirra hálfu.

Mundu þessar „ráðstafanir“ konunganna hafa svift Ísland fornum rjetti sínum til Grænlands?

Þá þarf að athuga breytingar þær, sem urðu á ríkjaskipun Norðurlanda 1814, og afskifti og athafnir Dana síðan á Grænlandi, hvort lokun landsins komi heim við alþjóðarjett o. s. frv.

Þá er að athuga það, hvort hjer sje einungis um rökleg rjettindi að ræða af hálfu Íslendinga, er eigi skifti neinu um hagsmuni vora í framkvæmd.

Skoðanir manna eru að vísu allmjög skiftar um kosti Grænlands á sjó og landi og hagsmuni þá, er Íslendingar muni hafa þangað að sækja.

Enginn vafi er þó á því, að veiðiskapur má vera mikill við Grænland. Nýjasta dæmi er reynsluför Norðmanna til Vestur-Grænlands í fyrra. Danir, sem voru þar í sama mund, undruðust fiskigengd þá, er þar var. Nú er í ráði, að 40 skip fari þangað frá Noregi og Færeyjum í sumar, og nokkur áhugi er einnig vaknaður hjer á landi til framkvæmda í sömu átt.

Á fundi Fiskifjelags Íslands í Reykjavík var í vetur skorað á Alþingi að veita 50000 kr. til tveggja skipa frá Íslandi, er reyna skyldu veiðar við Grænland í sumar, en það mál hefir ekki komist lengra.

Á hinn bóginn hefir það margoft verið tekið fram í ræðu og riti — meðal annars í Alþýðublaðinu — að einkar hagkvæmt mætti verða að stunda veiðar við Grænland á íslenskum botnvörpungum um hásumartímann, þegar hjer er tregast um afla.

Mjög leikur á tveim tungum um aðra landskosti á Grænlandi. Þó vita menn, að þar eru málmar í jörðu og námugröftur nokkur rekinn. Kol eru þar á sumum stöðum. Landbúnaður var þar almikill meðan Íslendingar sátu landið. Útigangur er mikill og góður. Hefir þróast ágætlega fje það, er þangað var flutt frá Íslandi fyrir nokkrum árum og lifað hefir á útigangi.

Blaðið „Dimmalætting“ bollaleggur um það fyrir skemstu, að Færeyingar byggi landið, flytji þangað sauðfje úr eyjunum.

Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri, sem komið hefir til Grænlands og ferðast þar um — að vísu um hávetur — hefir hvatt danska bændasyni til þess að hverfa til Grænlands, að stunda þar landbúnað, að því er „Nationaltidende“ skýrðu frá í vetur. Virðist þá, sem Íslendingar hefðu þar og eftir nokkru að slægjast, því að hingað til eru þeir eina þjóðin, sem hefir sýnt, að hún gæti rekið búskap á Grænlandi, og sakir staðhátta líklegastir til þess að kunna einna best tök á búskap þar.

Um gögn og gæði landsins skal nú annars ótalað.

En hver er rjettur vor til þessara hlunninda? Eru ekki „öll sund lokuð“ — harðlega lokuð og læst þeirri þjóð, sem fyrst fann og bygði landið, hæfust mundi að hagnýta sjer það og liggur því næst?

Ríkisþing Dana setti lög í vetur um bann gegn fiskveiðum í landhelgi Grænlands og ströng sektarákvæði. Nær bann þetta til allra nema Skrælingja og þeirra, sem eru í þjónustu einokunarinnar.

Þing Norðmanna hefir og sett lög í vetur — eða hefir með höndum — um athafnir Norðmanna á Austur-Grænlandi.

Það er því með öllu tími til kominn, að Alþingi Íslendinga taki alt Grænlandsmálið til rækilegrar athugunar.

Alþingi setti þriggja manna nefnd á einkafundi í þinglok í fyrra til þess að kynna sjer og rannsaka þessi mál. Nefndinni hefir orðið nokkuð örðugt um aðdrætti nauðsynlegra rita og upplýsinga, því þeirra er lítt kostur hjer í landinu. Hefir starfið orðið miklu torsóttara fyrir þá sök, að nefndin var ekki opinberlega skipuð. Hefir hún því ekki lokið starfi sínu. Nefndarmenn hafa nú orðið ásáttir um að flytja tillögu þá um skipun nýrrar nefndar, samkvæmt þingsköpum, sem hjer kemur fram, á þskj. 498. Ætlumst vjer til þess, að nefnd þessi verði kosin nú þegar hjer á fundi, og munum vjer afhenda þeirri nefnd það, sem einkanefndin hefir saman dregið af gögnum og hefir til málanna að leggja. Tilætlun vor er, að nefndin starfi ríkissjóði kostnaðarlaust.

Jeg hefi þegar drepið á verksvið nefndarinnar. Það er í stuttu máli, eins og tillagan greinir, að rannsaka alla rjettarstöðu Grænlands að fornu og nýju, að því er Ísland varðar — eða bæði „fornstöðu“ og „nýstöðu“ landsins í sambandi við ríkjandi rjettarhugmyndir nútímans.

Jeg vil að lokum taka það skýrt fram fyrir hönd einkanefndarinnar, að vjer teljum mál þetta alþjóðarmál Íslendinga, en alls ekki flokksmál, jafnvel þótt skoðanir kunni að vera — eða verða — nokkuð mismunandi um einhver einstök atriði þess, og hver sem niðurstaða rannsóknarinnar verður að lokum.

Tel jeg þjóðinni það holt og gagnvænlegt að hafa stór og göfugleg mál fyrir stafni, þau er tengt geti saman krafta hennar og eflt sjálfstæðismeðvitund hennar. Nóg er til, sem tvístrar og sundurdreifir.