20.03.1925
Neðri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (3222)

98. mál, Krossanesmálið

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg gat þess í flutningsræðu minni, að jeg ætlaði ekki að minnast á aðgerðir hæstv. stjórnar í máli þessu, til þess að dæma þær, og að jeg myndi ekki heldur gera það síðar við þessar umræður eða meðan málið stæði á þessum grundvelli. Stend jeg við þessi orð og mun standa, þó óneitanlega hafi verið gefið fylsta tilefni til að tala nánar um einstök atriði málsins. En eins og málið liggur hjer fyrir, ætla jeg algerlega að standast þá freistingu að fara út í einstök atriði þess. Oft eru menn ásakaðir fyrir að fara í umr. út fyrir málið. Slíkt skal mig ekki henda. Hjer liggur aðeins fyrir: Á að skipa nefnd til þess að rannsaka þetta mál, eða á ekki að gera það? Við það mun jeg halda mjer.

Hæstv. atvrh. (MG) flutti ræðu, sem jeg ætla að hafi staðið yfir eina klst. og 5. mínútur. Af þessari ræðu gekk klukkustundin til þess að tala um aðgerðir hans í málinu, en á að giska fóru 5 mínútur í það að ræða sjálfa þáltill. um nefndarskipunina. Sem sagt, tvær mínútur í upphafi ræðu hans og 3 í niðurlagi hennar eyddust í að tala um till. þessa, hvort skipa skyldi nefnd til þess að rannsaka málið eða ekki. Orð hans þessar fimm mínútur eru það eina, sem jeg ætla að athuga. Hitt alt, sem hann sagði, er í rauninni málinu óviðkomandi, eins og það liggur fyrir.

Hæstv. atvrh. (MG) var hissa á því, hvernig jeg flutti málið. Hann sagði, að jeg hefði talað og skrifað öðruvísi um það áður og dæmt það hart. Jeg neita því ekki. Jeg hefi gert það, og tek ekkert af því aftur. En síðan er það nýja komið til, að málið er orðið stórt utanríkismál. Og eins og það er satt, að jeg er ekki dómari nje dómsmálaráðherra nje hæstirjettur, þá er hitt víst, að jeg hefi aldrei ætlað, að jeg væri óskeikull páfi, þegar jeg hefi dæmt um einstök atriði þessa máls og aðgerðir stjórnarinnar í því, og síst eins og málinu er nú komið. Jeg tel mig síður nú einfæran til að kveða upp endanlegan dóm, og einmitt af því og til þess að dómurinn geti orðið svo rjettur, sem völ er á, fer jeg þá sanngirnisleið að leggja til, að málið verði nú athugað rólega og æsingalaust í nefnd. Að vísu kveður sú nefnd ekki upp dóm, en hún getur lagt til, hvað gera skuli í því efni.

Málið er nú orðið stórmál í Noregi, og þannig hefir um það hlaðist þar í landi, að ekki kann það lítið að reynast að lyktum. Þess vegna vildi jeg ekki heldur hefja nú árás á hæstv. stjórn nje víta aðgerðir hennar í málinu, heldur fela málið nefnd til rólegrar yfirvegunar.

Þetta snertir það, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði um málið þessar tvær mínútur í upphafi ræðu sinnar. Síðan flutti hann langa skýrslu um athafnir sínar og spurði mig að lokum, hvort jeg væri nú ekki ánægður. Jeg get svarað honum því, að mjer þótti skýrslan einkar skemtileg, og einkum fanst mjer gaman að sögunni af því, að hann gat bendlað mig við hana, með því að minnast á mjólkurmálin mín. Og það verð jeg að segja: Komi hæstv. atvrh. (MG) til að rannsaka mjólkurmálin heim til mín, þá skal hann vissulega fá hjá mjer kaffi, eins og í Krossanesi. En hæstv. atvrh. (MG) spurði mig að lokum, eins og jeg drap á, hvort jeg væri ekki ánægður eftir skýrslugjöfina og mundi því vilja falla frá till. Að vísu er þetta ekki orðrjett, en það var meiningin. Hæstv. ráðh. (MG) vildi líka heyra, hvað jeg hefði um þetta að segja eftir að hann væri búinn að útskýra málið. Jeg vil segja það, að engan dóm skal jeg upp kveða um það, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði um rekstur þessa máls, en hitt verð jeg að segja, að mjer finst eftir ræðu hans vera enn þá meiri ástæða til þess, að málið verði athugað gætilega og rólega í nefnd. Það voru ýms atriði, sem hæstv. atvrh. (MG) nefndi, sem mjer komu á óvart, og jeg er viss um að þurfa rannsóknar við. Skal jeg ekkert þeirra atriða nefna nú, eins og jeg ætla mjer yfirleitt ekki að gagnrýna aðgerðir stjórnarinnar. Jeg bendi aðeins á þetta, að í ræðu hæstv. atvrh. (MG) komu fram ýms atriði, sem óhjákvæmilega hljóta að hvetja til rannsóknar á málinu.

Þá er það ekki, eins og hæstv. atvrh. (MG) sagði, „einhver“ maður úti í löndum, sem hefir gert málið að stórmáli í Noregi. Nei, það er sjálfur forstjóri verksmiðjunnar, hinn norski stórþingsmaður, sem hefir sent skýrslu um málið, og það til norsku utanríkisstjórnarinnar. Einmitt þess vegna er enn sjálfsagðara að fara ekki að rökræða málið að svo stöddu nje áfellast aðgerðir hæstv. stjórnar, heldur halda sjer fast við það eitt, sem hjer liggur nú fyrir: Á að rannsaka málið í nefnd eða ekki? Jeg vil benda hæstv. atvrh. (MG) á það, að jeg flyt till., og því er líka sanngjarnt, að jeg ráði því, hvort jeg vil leggja dóm á málið nú eða ekki. Jeg vildi og vil aðeins vita, hvort hæstv. stjórn vill taka í þessa útrjettu hönd okkar andstæðinga hennar, sem vjer bjóðum henni, að málið verði rólega athugað í nefnd. Vill hv. stjórnarflokkur taka þessu boði, að málið sje athugað á þennan hátt? Viljið þið það, eða viljið þið það ekki? Annað ræði jeg ekki nú.

En hitt get jeg sagt, að ekki mun á mjer standa undir öðrum kringumstæðum að ræða málið. Til er stofnun, sem nefnist eldhúsdagur, og ekki er ómögulegt heldur, að einhverjum gæti dottið í hug að vilja kynna sjer, hvort hæstv. stjórn hefði traust meiri eða minni hluta þingsins. Að minsta kosti mundi slíkt liggja nærri, ef hæstv. stjórn vill ekki taka þessu boði nú. Ekki skal jeg undan skorast að ræða málið þá, ef vonlaust er orðið, að það fái þá eðlilegustu og bestu meðferð, sem að því getur stutt, að það verði fullrannsakað. En jeg vil ekki enn vera vonlaus um, að þessi leið, er jeg hjer ræði um, verði farin.

Svo mikið stórmál sem þetta er, og svo mjög sem það veit út á við, er það sannarlega alt of lauslega tekið á að láta sjer nægja að hlýða hjer í eina klst. á munnlega skýrslu hæstv. atvrh. (MG). Jeg vil því óska enn og alvarlega beina því til hv. þdm., að farin verði leið sú, er jeg sting upp á.

Það var víst hæstv. forsrh. (JM), sem vjek að því, hverjir myndu verða í nefndinni. Jeg get huggað hann með því að segja honum, að hinn harði, grimmi og illvígi þm. Str. (TrÞ) ætlar sjer ekki að sitja í henni af Framsóknarflokksins hálfu, svo að ekki er hann að óttast.

Annars var það aðeins ein mótbára, sem hæstv. atvrh. (MG) færði gegn nefndarskipuninni, sú, að annar aðilinn væri ekki viðstaddur, og hann sagði eitthvað á þá leið, að það væri hart að dæma þann mann í tukthús, sem ekki hefði verið yfirheyrður og ekki væri við. (Atvrh. MG: Ekki rjett). Jeg ritaði það upp eftir ráðh. (Atvrh. MG: það er þá ekki rjett ritað). Hæstv. atvrh. sagði, að hann hefði víst gleymt einhverju í ræðu sinni. Getur ekki eins verið, að hann hafi ef til vill líka sagt eitthvað, sem hann ætlaði ekki að segja? En þessi mótbára gegn nefndarskipuninni vegur harla lítið. Hæstv. atvrh. (MG) sagði við mig, að jeg væri ekki dómsmálaráðh. Nefndin er það ekki heldur, nje getur orðið það. Hún á engan dóm upp að kveða, heldur á hún að greiða úr málinu, kynna sjer plöggin og athuga það frá öllum hliðum og leggja síðan álit sitt fyrir Alþingi, og kveður það þá á um, hvað gera skuli eða hvort ekkert þurfi að gera. Með engu móti getur þetta kallast harkalega að farið gagnvart forstjóra Krossanesverksmiðjunnar.

Merkilegt er það, ef hæstv. atvrh. (MG) hygst geta heimtað það af andstæðingum sínum, að þeir láti sjer nægja, að hann standi upp og flytji munnlega skýrslu um málið. En eins og jeg hefi margsagt, jeg stenst þá freistingu að fara nú að deila á stjórnina á þessum grundvalli, spyr aðeins um þetta eina: Á Alþingi að fá að skipa nefnd í málið eða ekki? þykir mjer hart, ef hæstv. stjórn neitar að verða við slíku.

Loks var hæstv. atvrh. (MG) að drótta því að mjer, að jeg myndi hafa ráðist á stjórnina alveg eins, hvernig sem hún hefði farið að í málinu, að jeg hefði orðið eins grimmur, ef hún hefði valið hina leiðina. Förum við hæstv. atvrh. (MG) ólíkt að í máli þessu. Jeg ásaka hann ekki um neitt, en hann veitist að mjer svo sem hann getur. Má hann það. Komið getur eitthvað frá mjer á eldhúsdegi, og komið getur önnur þál. síðar, er honum fellur ekki betur en þessi, ef honum fellur engan veginn friðsamleg úrlausn málsins.