20.03.1925
Neðri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (3226)

98. mál, Krossanesmálið

Sigurjón Jónsson:

Jeg get nú ekki stilt mig lengur um að gefa nokkrar upplýsingar í máli því, sem hjer liggur fyrir. Hjer er mikið talað um röng síldarmæliker, og í því sambandi er haldið fram, að öll síldarmæliker, sem taka meira en 150 lítra, sjeu röng. Er hjer um allmikinn misskilning að ræða, og þar sem jeg er vel kunnugur þessari verslun, hefi um mörg ár selt síld og einnig keypt hana, þótt það sje í minni stíl, þá álít jeg rjett að skýra hv. þdm. frá, hvernig þessi síldarverslun er rekin.

Það er þá fyrst, að yfirleitt er síld seld þannig, að verðið er miðað við mál af síld, og það þótt síldin sje ekki afhent kaupanda í málum. Er þá stundum fram tekið, hve margir lítrar síldar sjeu í hverju máli, en oftast er svo ekki gert, heldur miðað við, að 3 kúfsaltaðar síldartunnur geri 2 síldarmál.

Sje aftur á móti hvorki fram tekið við sölu, hve margir lítrar sjeu í síldarmáli, eða hvernig mál beri að reikna út úr kúfsöltuðum síldartunnum, þá hefir síldarmál enn sem komið er ekki unnið sjer þá hefð í máli voru, að þar með sje fastákveðið, við hve marga lítra síldar sje átt. Talsvert mismunandi margir lítrar geta líka verið í síldarmáli, þótt miðað sje við 11/2 kúfsaltaða tunnu, eins og jeg mun síðar víkja að.

Sje síldin látin úti í málum, en ekki miðað við kúfsaltaða tunnu, þá eru þau útlát mismunandi. Víða nota verksmiðjur, sem síldina kaupa til bræðslu, stór ker, sem taka eiga hvert um sig eitt mál síldar. önnur aðferð er sú og alltíð, að notaðir eru stampar, en hver stampur er hálf síldartunna. Eru þá 3 stampar reiknaðir sem eitt mál. Kaupandi fær þá, svo framarlega að stamparnir sjeu látnir vel fullir, minst 162 lítra síldar. Er þá miðað við, að tunnur þær, sem stamparnir eru gerðir úr, sjeu 108 lítrar að stærð. Munu norskar tunnur að jafnaði vera af þeirri stærð, en ýmsar aðrar tunnur eru stærri.

Mjer er kunnugt um, að síðastliðið sumar gerði ein síldarbræðsluverksmiðja á Siglufirði samning við 13 skip um síldarkaup. Allir þeir samningar voru samhljóða. Var þar samið um ákveðið verð fyrir hvert síldarmál, en jafnframt var tekið fram, að hvert síldarmál skuli reiknast 11/2 tunna. Það er samt ekki ákveðið, hve stórar þær tunnur skuli vera. Stærð síldartunna er nú 108–120 lítrar. þessi umsömdu síldarmál hafa því átt að vera 162–180 lítrar. Þá hefi bæði jeg og aðrir selt síld í vögnum. Þar er nú ekki um nein smáræðis ker að ræða. Þessir vagnar tóku um og yfir 450 lítra, og var hver vagn reiknaður sem 3 síldarmál. Hvort þessir vagnar hafa nú tekið 450 lítra eða 470 lítra, það skal jeg ekkert fullyrða um, þótt jeg nú hjer í hv. deild segi frá þessum gríðarstóru síldarmálum, þá vil jeg samt alvarlega mælast til, að ekki verði út af því skipuð rannsóknarnefnd til þess að koma mjer eða kaupanda mínum í einhverja klípu út af þessari verslun.

Þá má geta þess, að síld, sem verksmiðjur kaupa, er mæld með sama máli, hvort sem hún er glæný eða orðin slæpt, en talsverður munur er á því, hve mikið fer af síld í sama kerið af nýrri og stinnri síld eða ef til vill sólarhrings gamalli. Án þess að þora að fullyrða um það býst jeg við, að þar sje oft um 10% mismun að ræða. Þetta meðal annars bendir til þess, að rjettara væri að vega síldina en mæla, þar sem hægt er að koma því við.

Af þessu, sem að framan er sagt, býst jeg við, að það ætti að vera ljóst, að ekki er rjett að vera að slá því hjer fram, að öll síldarmál, sem stærri eru en 150 lítrar, sjeu röng. Veit jeg, að það hlýtur að koma af því, að þeir menn, sem hafa hjer mest um rætt, eru ókunnugir allri síldarverslun. En um hitt hefi jeg átt tal við þingmenn hjer í hv. deild, að rjett væri með lögum eða tilskipun að ákveða stærð síldarmála, til þess að taka af allan efa og skapa fasta venju í þessu efni. Áleit jeg þó rjettara, að þessi umræða færi hjer fyrst fram.

Þá skal jeg minnast á mismunandi stærð á tunnum.

Norskar tunnur eru þær vanalegustu hjer, en samt er hjer líka talsvert af bæði skotskum og sænskum tunnum, og allar þessar tegundir eru misjafnlega stórar. Norskar tunnur eru minstar, skotskar talsvert stærri og nú nýlega eru farnar að flytjast sænskar tunnur, sem eru stærri en þær skotsku. En um allar þessar tunnutegundir er látið gilda það sama: 3 kúfsaltaðar tunnur gera 2 mál síldar. Samkvæmt þessu er stærð síldarmálanna líka hjer á reiki og erfitt að staðhæfa, að 150 lítra málið sje það eina sem gildir.

Þá er síld líka oft söltuð með kryddsalti, en það salt er miklum mun sterkara og fíngerðara en alment síldarsalt. Af því leiðir, að minna fer af því í hverja tunnu, og sjerstaklega tekur það miklu minna rúm í tunnunni en alment salt. Þegar með þessu salti er saltað, fer því meira af síld í tunnuna. En samt er hið sama látið gilda: 3 kúfsaltaðar tunnur gera 2 síldarmál.

Hjer við mætti enn bæta, að síld er oft afhausuð, þegar hún er söltuð í krydd. Þá er reglan eða öllu fremur óreglan sú, að 150 kúfsaltaðar tunnur eru reiknaðar sem 114–120 mál, og er þá enn slept að taka tillit til, hve stórar tunnur er saltað í.

Enn má benda á síldarverslun í svokölluðum máltunnum. Er síld þannig keypt á hverju sumri til íshúsanna á Vesturlandi. Er máltunnan 8 skeffu tunna að gömlu máli eða 144 pottar. En þar er máltunnan ávalt talin einni skeffu minni en síldarmál. 1 meðvitund manna er málið þar 9 skeffur eða 1l/2 tunna, hver tunna 6 skeffur. Eftir því væri málið 162 pottar, en það samsvarar hjer um bil 157 lítrum.

Það, sem jeg hefi hjer sagt, ber alt að sama brunni, að það er langt frá því, að enn sje ákveðið hjá okkur, hve margir lítrar sjeu í einu máli af síld, og þess vegna nær það, sem áður sagt, engri átt að kalla öll þau mál röng, sem taka meira en 150 lítra. (JakM: En ef samið er um 150 lítra?). Sje samið um 150 lítra mál, þá er rangt að hafa þau stærri. En hitt er áreiðanlegt, að þótt verð sje miðað við það mál, þá er í framkvæmdinni mjög mismunandi, hve margir lítrar verða í selda málinu. Sje aftur við sölu samningsbundið, hve margir lítrar skuli reiknast í einu máli af síld, en svo reynist, að kaupandi taki meira en þá umsömdu lítratölu sem eitt mál, þá er ekki eingöngu hægt, heldur sjálfsagt fyrir seljanda að fara í skaðabótamál við kaupanda.

En það, sem jeg með þessum orðum vildi sýna, er að síldarsala eða afhending á seldri síld er yfirleitt alls ekki nákvæm. það er oftast einskonar „slumpasala“, en með því vil jeg ekki segja, að kaupandinn fái altaf meira en ætlast er til samkvæmt samningi; hitt mun líka geta átt sjer stað, að hann fái minna af síldinni en talið er. Annars skal jeg aftur taka það fram, að það er fylsta þörf, að fastar venjur skapist um þessa verslun og ákveðið verði, hve margir lítrar skui vera í einu máli síldar.

Hvað snertir að öðru leyti mál það, sem hjer liggur fyrir, svo kallað Krossanesmál, þá hefi jeg aldrei álitið það annað en hjegómamál. Hygg jeg, að hv. þdm. skilji það af orðum mínum, að varhugavert sje að byggja mikið á fullyrðingum sumra háttv. þingmanna um röngu málin í Krossanesi, enda hafa þeir látið hæst um þessi mál, sem sáralitla þekkingu hafa á þeim, og hefir hjer sannast á þeim þetta fornkveðna, að þeir tala mest um Ólaf konung, sem hvorki hafa heyrt hann nje sjeð. (JakM: Eins og þegar hv. þm. Ísaf. talar um Krossanes). Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) veit vel, að þessum málum er jeg miklum mun kunnugri en hann. Jeg segi þetta ekki til þess að kasta neinni rýrð á hv. þm. nje til þess að hæla mjer, en atvikin hafa hagað því svo, að jeg hefi kynst þessum atvinnurekstri og þeirri verslun, er hjer um ræðir, miklu meir en hann.