21.03.1925
Neðri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í D-deild Alþingistíðinda. (3229)

98. mál, Krossanesmálið

Forsætisráðherra (JM):

Jeg hefi afarlitlu að svara þeim ræðum, sem haldnar hafa verið hjer síðan jeg tók til máls.

Jeg varð ekki var við það, að jeg þyrfti að svara hv. 2. þm. Reykv. (JBald) viðvíkjandi ræðu hans, öðru en því, er hann sagði, að jeg hefði í ræðu minni verið að afsaka hæstv. atvrh. (MG). Mjer er allsendis ómögulegt að skilja það, hvernig hv. þm. (JBald) hefir farið að því að taka svo rangt eftir. Jeg sagði, að enginn af þremur aðiljum þessa máls hefði kvartað um það fyrir mjer, og að hver maður sæi, að ekki gat komið til mála, að hæstv. atvrh. (MG) gerði meiri gangskör í málinu, er hann taldi, að hjer væri ekki um neitt hegningarvert athæfi að ræða. Jeg sagði ekkert orð í minni ræðu, sem með nokkru móti gat komið til mála að leggja í þann skilning, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) lýsti. Þá hefði hann eins vel getað sagt, að jeg hefði ásakað viðskiftamenn verksmiðjunnar fyrir það að hafa ekki kært. Jeg lagði sjerstaka áherslu á það, að þeir hefðu ekki kært, en líklegt er, að þeir hefðu orðið til þess fyrstir allra, ef þeir hefðu álitið, að þeir hefðu verið fjeflettir. Jeg vil ímynda mjer, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hafi rangfært orð mín óviljandi.

Þá held jeg, að jeg þurfi ekki að svara næsta númeri af þm. Reykv. (JakM) mörgu. Hann gaf aðeins í skyn, að sökin í þessu efni hvíldi aðallega á mjer. Jeg vissi fyrirfram, að þessi hv. þm. mundi snúast þannig við, og þarf engu að svara slíku.

En hv. flm. þessarar till. (TrÞ) vil jeg svara því einu, sem nú skal greina. Jeg skal ekkert segja um það, hvort ráðuneytið hefði getað tekið við þessari till., ef ekki hefði annað fram komið frá formælendum hennar en framsöguræða flm. Jeg skal heldur ekkert um það segja, hvort árásir hv. 2. og 3. þm. Reykv. (JBald og JakM) hefðu þurft að breyta afstöðu stjórnarinnar til till. En hótun hv. flm. (TrÞ) í lok síðustu ræðu hans sker úr. Þótt hann færi í fyrstu friðsamlega í þessar sakir og framsöguræða hans væri sæmileg, þá kvað við annan tón í næstu ræðu hans. Þá var ekki hægt að skilja orð hans öðruvísi en svo, að hann hótaði því, ef þessi till. yrði ekki samþ., að koma þá fram með beina vantraustsyfirlýsingu á stjórnina síðar á þinginu. Jeg býst við því, að eftir þetta þurfi enginn að vera í vafa um tilgang till. Þessi hótun varpar yfir hana svo björtu ljósi, að engum dylst, hvert stefnt er með henni, og að ráðuneytið hljóti að skoða samþykt hennar sem fullkomna vantraustsyfirlýsingu, með venjulegri afleiðingu. Það er ómögulegt, eftir slíka hótun, fyrir stjórnina að taka á móti þessari þáltill.