21.03.1925
Neðri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í D-deild Alþingistíðinda. (3231)

98. mál, Krossanesmálið

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) dró inn í ræðu sína eitt atriði, sem mínum verkahring heyrir til og jeg verð að fara nokkrum orðum um.

Þetta atvik, sem jeg á við, er veiðar skipsins „Rolfs“ hjer við land. Jeg er ekki við því búinn að gefa skýrslu um framferði skips þessa í tíð fyrverandi stjórnar, en get þá byrjað á því að upplýsa, að snemma síðastliðið sumar kom skip þetta frá Noregi til Akureyrar. Hafði það íslenskan fána, en norska skipshöfn. Strax er þetta frjettist, átti jeg tal við bæjarfógetann á Akureyri og bað hann að upplýsa, hvernig ástatt væri með skip þetta og hvort fiskveiðar þess væru löglegar. Það kom þá upp úr kafinu, að skip þetta hafði stundað fiskveiðar í mjög mörg ár hjer við land undir íslenskum fána, samkvæmt fiskveiðaskírteini, sem eigandinn hafði fengið á Akureyri löngu fyrir 1918, en hann hafði þá haft borgarabrjef þar. Í skjóli þessa skírteinis hafði skipið svo fiskað. Nú var eigandi skipsins strax látinn vita, að þetta væri ekki samkvæmt landslögum, og komst til orða að selja skipið öðrum. Það hafði ekki verið skrásett í Noregi áður, en málinu lauk þó svo, að skipið fjekst skrásett þar. Hefir það síðan stundað veiðar undir norskum fána. — Jeg vænti nú, að gefnum þessum upplýsingum, að hv. þm. sjái ekki ástæðu til að kasta steinum að núverandi stjórn fyrir afskifti hennar af þessu máli. Jeg vænti þess þá líka, að eigandi skipsins verði ekki heldur látinn sæta þungum ávítum fyrir þetta, því útgerðin byrjaði um líkt leyti sem löggjöfin um þetta efni var nálega fallin í gleymsku, enda margt þessu líkt látið viðgangast. Útlendingar, sem einu sinni höfðu með fiskveiðaskírteini öðlast rjettinn til fiskveiða hjer, hjeldu auðvitað, að þeir væru áfram að starfa samkvæmt landslögum, enda fiskveiðaskírteinið ekki gefið öðrum en þeim, sem mega sigla undir íslenskum fána. Engu síður er þá ástæða að ætla, að eigandi „Rolfs“ hafi verið „bona fide“.

Þá verð jeg enn að segja það, að mjer finst leiðinlegt að heyra því haldið hjer fram af hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að þessi útlendingur, sem á þó að minsta kosti engan þátt í stjórninni hjer, hafi haft í frammi glæpsamlegt atferli. Hann ætti að varast að láta slík orð fara sjer um munn, fyr en dómur hefir gengið í málinu, jafnvel þó þinghelgin skýli honum hjer fyrir viðurlögum. Og mjer finst það leiðinlegt fyrir stjórnarandstæðingana, ef þeir geta ekki gert árásir á stjórnina án þess að mölva um leið með ummælum sínum æru fjarstadds manns og troða undir fótum sjer: Og svo vel þekki jeg hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að jeg hefði haldið, að það væri fjarri hans skapferli að vaða með glæpaaðdróttanir að mönnum. — Þar við bætist og, að enn er alveg ósannað mál, að Holdö hafi notað röng síldarmál. Engin íslensk lög hafa ákvæði um það, hve stór síldarmál skuli vera. Hinsvegar er svo ákveðið í lögum um útflutningsgjald af síld, að tunna síldar skuli vera 108–120 lítrar. Nú er það borið fram af mönnum, sem til þekkja, að venjulegt sje að telja 1 síldarmál 11/2 tunnu síldar. Eftir því tekur hvert síldarmál 162–180 lítra eða að meðaltali 171 lítra. Mál af þeirri stærð var til í Krossanesi og notað þar, og bar ekki að brúka aðra stærð, ef samið var um 11/2 tunnu mál. En ef samið var um mælingu síldar úr skipslest í 150 lítra málum, þá þurfti að nota 150 lítra mál, en þau voru líka til í Krossanesi. Annars er það viðurkent og upplýst, að stærð síldarmála er á reiki, og þá ekki undarlegra, þó þau væru mismunandi í Krossanesi.

Þá segir hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að almenningsálitið krefjist rannsóknar. En jeg álít, að það, sem fram hefir komið í því efni, bendi heldur í þá átt, að ekki sje talin ástæða til slíks. Það er kunnugt, að fyrir áramót sendi Framsóknarflokkurinn út um landið tillögur til þingmálafundarsamþykta, og var ein um þetta mál. En óvíða fjekst meiri hluti til að sinna því. Þá er það og upplýst, að á Akureyri vildi Framsóknarflokkurinn ekki taka þetta mál á dagskrá á þingmálafundi, sem þar var haldinn skömmu áður en þing kom saman. Þetta er og mjög eðlilegt. Almenningur er ekki vanur því að gera það að landsmáli, hvort einhver ákveðinn maður hafi framið glæpsamlegt atferli eða ekki, en felur viðkomandi yfirvöldum það í hendur að gera það í málinu, sem gera þarf, og rannsaka þær kærur, sem kunna að koma. Og ef þær koma ekki frá þeim mönnum, sem skaða hefðu átt að bíða af ráðstöfunum hlutaðeiganda, þá er almenningur ekki vanur að leggja trúnað á, að sökin sje stór. — Og jeg held, að hann geri alveg rjett í því að vísa öllum slíkum málum frá sjer.