21.03.1925
Neðri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í D-deild Alþingistíðinda. (3235)

98. mál, Krossanesmálið

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. 1. þm. Árn. (MT) hneykslaðist á því, að jeg væri við þetta mál riðinn, og hann ljet jafnvel í veðri vaka, að jeg hefði farið norður í því einu skyni að skifta mjer af þessu máli. En jeg upplýsti þó í gær, að jeg hefði haft mörg önnur erindi, þó þetta mál hefði ekki komið upp. Þetta tal hv. þm. er því beint út í loftið.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði einnig, að rannsókn bæjarfógetans á Akureyri hefði verið ónákvæm, og mundi hann lítið far hafa gert sjer um að rannsaka þetta mál. Hann sagði ennfremur, að þetta væri ekki óvenjulegt um lögreglustjóra, að þeir framkvæmdu slælega skyldustörf sín. Þetta getur háttv. þm. alls ekkert sagt um; hann veit ekkert um þetta, og hann getur aðeins svarað fyrir sjálfan sig. Þó að jeg tilheyri ekki þessari stjett sem stendur, hefi jeg þó áður talist til hennar, og tekur mig því sárt, er henni eru gerðar slíkar óverðskuldaðar getsakir.

Þá hneykslaðist hv. þm. á því, að jeg skyldi hafa lækkað mig svo mjög að verða samferða bæjarfógetanum á Akureyri út í Krossanes, og taldi hann það bæði mjög óviðeigandi og alveg óforsvaranlegt, þar sem jeg væri ráðherra. Þetta verður helst að skilja sem bending um hugarfar og innræti hv. þm. og sýnir Ijóst, hvernig hann muni líta á sig, þegar hann er orðinn ráðherra. En jeg segi það fyrir mig, að jeg get umgengist alla menn jafnt fyrir það, þó jeg sje í þessari stöðu, jafnvel háttvirtan 1. þm. Árn. (MT). Hann fann að því, að jeg skifti mjer af þessu máli, en hann má þó vita, að löggildingarmál heyra undir mig, og hvort jeg skifti mjer af sakamálum án þess að ráðgast um þau við dómsmálaráðherra, varðar ekki háttv. þm. Jeg hefi fult eins mikið vit á þeim málum og hv. 1. þm. Árn. (MT). Og á þessu máli ekki síður. Þessu getur háttv. þm. alls ekki neitað. En sje það viðurkent, að jeg hafi þekkingu á þessum málum, er það ekki vítavert, þó að jeg skifti mjer af þeim. Hann var í fyrra með „glósur“ um það, að jeg hefði ekki vit á dómsmálum og sagði, að vinnast mundi fyrir hæstarjetti mál, sem þá var þar og varðaði ríkisstjórnina. Hann taldi víst, að það mál mundi vinnast, en um það hafði jeg látið í ljós mikinn efa. Hvað varð? það var jeg, sem hafði giskað á það rjetta, en hv. 1. þm. Árn. (MT) á hið ranga. Jeg hygg, að jeg hafi því sýnt, að jeg hefi fult eins mikið vit á dómsmálum og hv. 1. þm. Árn. (MT), og má því vel tala um þau, ekki síður en hann, þó að jeg sje ekki dómsmálaráðherra.

Hann var eitthvað að tala um það, að framkvæmdarstjóri Krossanesverksmiðjunnar hefði neitað að greiða mönnum bætur eftir að jeg fór þangað norður. Jeg skora á hv. þm. að sanna þessi ummæli sín, en gera sig ekki beran að rakalausum dylgjum. Hann taldi mig bresta varnir í þessu máli. Jeg legg það undir dóm þingdeildarinnar, en ekki hv. þm., hvort varnir mínar hafa verið góðar eða ljelegar. Hann var að breiða sig út yfir það, að erfitt væri að fá fullar sannanir í þessu máli, og kem jeg þá aftur að sakamálunum. Jeg hefi ávalt talið það vitað, að meira þyrfti til að fá menn dæmda í sakamálum en einkamálum. Hann hjelt og, að jeg hefði verið að leika þarna dómsmálaráðherra. þetta sýnir það eitt, að hv. Þm. misskilur eða þekkir ekki verkaskiftinguna í stjórnarráðinu. Háttv. þm. fanst það vera goðgá af mjer, að jeg fór eftir ráðum forstöðumanns löggildingarstofunnar eða manna hans. Þessir menn voru þeir, sem best höfðu vit á þessum málum, voru „fagmenn“ — og tel jeg betra að fara eftir áliti þeirra en hv. 1. þm. Árn. (MT). Jeg tel mjer það enga minkun að leita álits „fagmanns“, enda hefir það ætíð verið siður góðra rannsóknardómara að leita álits sjer fróðari manna um þau mál, er þeir þurfa að fást við. En háttv. 1. þm. Árn. (MT) álítur sjálfan sig ef til vill hafinn upp yfir slíkt og þvílíkt, og sýnir það enn, hvernig hann mundi að fara, ef hann væri ráðherra. Hann var að tala um, að jeg hefði einhver skjöl frá bæjarfógetanum á Akureyri og mundi hafa týnt þeim. Þetta er alls ekki satt. Jeg hefi engin skjöl haft með höndum, sem týnst hafa eða verið stungið undir stól, eins og hv. þm. gefur í skyn.

Háttv. þm. taldi ekki rjett, að þingið skifti sjer af málinu án rannsóknar. Má vel vera. En því er þá hv. þm. að skifta sjer af þessu máli og kveða upp strangan dóm í því, án þess að hafa rannsakað það sjálfur, er hann segir, að ekki sje hægt að dæma í því nema eftir rannsókn?

Hvað viðvíkur því, að við getum ekki komið lögum yfir útlendinga, þá vil jeg spyrja hv. þm.: Eiga að gilda önnur lög gagnvart erlendum en innlendum mönnum ? Jeg neita því fyrir mitt leyti.

Það hafa verið ónýtt að undangenginni rannsókn um 68% mælitækja í landinu, mælitæki, sem hafa haft skekkju ca. 10–14%, og hefir þó enginn kært þau viðskifti, er með þeim tækjum voru gerð, og hvergi hafin rannsókn þess vegna.

Háttv. þm. hafði það rjett eftir mjer, að stjórnin vildi ekki láta misbrúka skjöl í neinum málum. Þetta er rjett haft eftir en svo kallar hann þetta rússneskt stjórnarfar. Hann kallar það rússneskt rjettarfar að mega ekki misbrúka málsgögn. En jeg segi hv. 1. þm. Árn. (MT), að honum er velkomið að koma upp í stjórnarráð og sjá öll þau. skjöl og gögn, sem þar eru til viðvíkjandi þessu máli eða öðrum, sem hann vill fræðast um. Hann þarf ekkert að vera að dylgja um þetta mál, og jeg veit, að dómsmálaráðherra (JM) mun gera hv. þm. sömu kosti.

Hvað viðvíkur hv. 3. þm. Reykv. (JakM), þá verð jeg að fara mjög mjúkum höndum um hann, þar eð hann er „steindauður“ í þessu máli. Það er dálítið einkennileg aðferð, sem þessi hv. þm. viðhefir. Ef einhver kemur með upplýsingar um mál, sem honum falla ekki í geð, segir hann þær málinu óviðkomandi. Þannig var það t. d., er hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) upplýsti um mismunandi stærð síldarmála. Þá sagði hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að það kæmi þessu máli ekkert við. Eða þegar hv. þm. sjálfur segir, að eigandi Krossanesverksmiðjunnar ætlaði ólöglega að afhenda skip, en það upplýsist, að skipið er þegar komið undir norskan fána, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) upplýsti hann um, þá sagði hv. þm., að það kæmi málinu alls ekkert við. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. endi með því að segja að lokum, að jeg komi þessu máli alls ekkert við, og verður þá vart lengra farið. Hann getur spurt forstöðumann löggildingarstofunnar um það, hvort jeg hefi ekki leitað ráða hans um það, hvort kæra ætti út af hinum ólöglegu síldarmálum, fyrst hann trúir mjer ekki.

Hann kveðst ekki mundu skríða undir þinghelgina, ef framkvæmdarstjórinn vildi höfða mál gegn sjer, og mun jeg láta mig það engu skifta. En hann hjelt því fram, að stjórnin vildi ekki láta fara fram rannsókn til þess að hreinsa þennan mann. Jeg veit ekki, hvort hv. 3. þm. Reykv. (JakM) álítur það viðeigandi eða sæmandi að hefja sakamálsrannsókn gegn manni fyrir það eitt, að hann er borinn óhróðri. Jeg held, að rjettara sje að láta manninn sjálfan um það, hvort hann vill bera sökina af sjer. En sakamálsrannsókn er ávalt alvarlegt atriði og setur venjulega þann blett á menn, sem fyrir henni verða, þó saklausir sjeu, sem erfitt er að þvo af aftur. Það er því hlutur, sem ekki er vert að leika sjer að og á ekki að eiga sjer stað nema að vel athuguðu máli. En menn, sem litla þekkingu hafa á slíku, eiga ekki að krefjast sakamálsrannsóknar. Hvað mundi hv. 3. þm. Reykv. (JakM) segja, ef einhver kallaði hann þjóf og stjórnin hlypi strax eftir því og höfðaði sakamál á móti honum. Mundi ekki hv. þm. (JakM) telja sjer misboðið með sakamálinu, því að vitaskuld væri hann saklaus, og mundi hann ekki heldur vilja höfða meiðyrðamál gegn manninum, sem með óhróðurinn fór?

Hv. sami þm. kvaðst í þessu máli eingöngu fara eftir mínum upplýsingum í þessu máli. Gott og vel, en þá skjátlast honum í því að draga rjettar ályktanir af gefnum forsendum, og mun það frekar vera af græsku en grunnhygni.