21.03.1925
Neðri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í D-deild Alþingistíðinda. (3236)

98. mál, Krossanesmálið

Sveinn Ólafsson:

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir að mestu leyti tekið frá mjer tilefnið til þess að taka til máls. En hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) gaf mjer nokkurt tilefni, og auk þess er eitt atvik, sem nánar þarf að geta. Hv. þm. Ísaf. gaf skýrslu um breytileg síldarmál og venjur með að mæla síld án löggildaðra mælikera. Skýrslan var sjálfsagt að mestu rjett, en ályktanir hans út af skýrslunni vafasamari. Samkomulag kaupanda og seljanda um ágiskaða mælingu er að sjálfsögðu heimilt. Saknæmið kemur fyrst fram, þegar seljandi hefir samið um ákveðna mælingu og er svo látinn óafvitandi afhenda eftir stærra máli en um var samið og þannig gabbaður. Síld til útflutnings hefir að vísu oft verið mæld á söltunarstað með því að telja 3 kúfsaltaðar tunnur jafngilda 2 málstunnum, og skakkar þar ekki miklu, þótt nokkuð sje breytileg stærð á norskum, sænskum og skotskum tunnum, því að gert er þá ráð fyrir, að 1/5 til 1/4 rúmmáls sje salt, en norsk síldartunna tekur venjulega 115 lítra, og verða þess vegna 3 kúfsaltaðar síldartunnur, að saltinu fráteknu, sem næst 280–290 lítrar síldar og síldarmálið því 140–150 lítrar, en það er einmitt það forna korntunnumál. Það er einmitt þetta gamla norska síldarmál, sem miðað hefir verið við af seljendum í Krossanesi og samið um. Við síldarmál eða norskt síldarmál hefir, að því er jeg veit best, aldrei verið annað skilið en ílát, sem rúmaði 146–150 potta, og um mörg ár hefi jeg áður fyr veitt og selt síld eftir þessu máli.

Vitaskuld er það, að löggilda má stærra mál eða þá minna. Með því að löggilda hjer 170 lítra mál verður ekki skafinn út órjettur sá, að taka af síldarseljendum í Krossanesi þeim óafvitandi 170 lítra, sem taldir voru og metnir á við 150 lítra. Um rjettlætingu með því að löggilda stærri málin er hjegómlegt að tala. Jeg skal ekki fjölyrða um það frekar, en víkja í þess stað nokkrum orðum að skýrslu þess manns, sem einna fyrstur komst að mælingarskekkjunni og einarðlegast hefir gengið fram í því að fletta ofan af þessu hneykslismáli. Viðleitni hans hefir að því stefnt að rjetta hluta allra, sem fyrir skakkar föllum urðu af rangri mælingu síldarinnar, og að aftra því, að misklíð yrði milli Íslendinga og Norðmanna út af háttalagi norska framkvæmdarstjórans í Krossanesi.

Þessi áhugasami maður um að rjetta hag síldveiðamanna, sem sköðuðust á röngu máli í Krossanesi, er austfirskur útvegsmaður, Stangeland að nafni, og búsettur á Fáskrúðsfirði, en af norskum ættum. Er það sami maður og hv. frsm. (TrÞ) gat um í gær, að ritað hefði í norsk blöð um Krossaneshneykslið.

Stangeland dvaldi hjer í bænum nýlega, og hefir hann skýrt mjer glögglega frá viðskiftum sínum við Holdö í Krossanesi næstl. sumar. Segir hann samninga hafa verið þá, að hann seldi Holdö alla síld, sem hann veiddi á vertíðinni, fyrir ákveðið gjald hvert 150 lítra síldarmál, og stóðu þeir samningar þar til Stangeland uppgötvaði skekkju mælikeranna, sem þá upplýstist að voru 170 lítra ílát, en ekki 150 lítra. Heimtaði hann þá bætur af Holdö, sem snerist illa við og hafði í heitingum við Stangeland, enda voru um þessar mundir löggilduð 170 lítra mælikerin af ráðherra, og þóttist þá Holdö hafa lögleg ker notað. Stangeland segist hafa selt verksmiðjunni 1060 mál síldar áður hann sleit samningi og deilan við Holdö hófst, og telur hann því, að skekkjan í mælingu hafi numið 1060X20 lítrum eða röskum 14 síldarmálum, sem eftir 14 kr. verði, er almennast mun hafa verið, nemur liðlega 1960 kr., en þann skaða telur Stangeland sig hafa beðið við mælinguna. Segist Stangeland hafa búist við, eftir komu ráðherra í Krossanes, að rjetting yrði hjá öllum á mælingunni, en svo varð ekki.

Síðar fjekk hann þó orð frá Holdö um viðtal, og ljet hann þá Stangeland á sjer skilja, að þeir gætu samið um einhverja uppbót vegna mælinganna. Segist Stangeland hafa svarað því, að hann gerði sig því að eins ánægðan, að hinir einnig fengju uppbót, sem jafnframt honum urðu fyrir halla. (HK: þetta er eflaust allra besti maður?). Lauk þar viðskiftum þeirra Holdös með heitingum frá beggja hendi. (JAJ: Fór hann í skaðabótamál?). Nei, hann hefir ekki enn farið í skaðabótamál, vegna þess, að hann hefir haldið, að hlutur sinn og annara, sem tjón hafa beðið vegna þessara röngu mælikera, yrði rjettur að tilhlutun hins opinbera. Hann hjelt, að opinber rannsókn yrði fyrirskipuð, og á þeim grundvelli gætu allir málsaðiljar fengið skaða sinn bœttan.

Þegar jeg spurði hann, hvers vegna hann hefði ekki kært forstjóra verksmiðjunnar, þá svaraði hann því, að vegna þess, að hann væri Norðmaður að ætt, hefði hann ekki kunnað við að hlaupa á undan þeim innlendum mönnum, sem einnig hefðu beðið tjón í viðskiftum sínum við verksmiðjuna, vegna mælikeranna. Þess vegna hefir hann beðið, og hann sagðist ætla að bíða áfram og sjá afdrif málsins hjá þinginu, en jafnframt ljet hann í ljós þá trú sína og von, að hlutur sinn og annara yrði rjettur eftir að opinber rannsókn hefði fram farið í málinu.

Eins og kunnugt er, hefir Stangeland nú gefið í norskum blöðum skýrslu um ástandið í Krossanesi. Þessi skýrsla hefir orðið til þess, að þar í landi hafa risið hinar mögnuðustu blaðadeilur um þetta mál. Og vegna þessarar skýrslu Stangelands hefir forstjóri Krossanesverksmiðjunnar, eins og upplýst hefir verið, sent utanríkisráðuneytinu norska skýrslu um málið, skýrslu, sem engan veginn er samhljóða því, sem áður var hermt eftir Stangeland, og einnig er nokkuð á annan veg en vitað er þegar með vissu, að er hið rjetta, og að sumu bersýnilega röng.

En jafnskjótt sem skýrsla forstjórans birtist í norskum blöðum, þá snerist átt í lofti, og virtist mörgum, sem Stangeland hefði farið með ósæmilegan róg um forstjórann og viðskifti hans hjer á landi.

Og það er einmitt þetta, sem Stangeland svíður sárast, að hann í landi feðra sinna — sjálfan sig telur hann ekki Norðmann, heldur Íslending — skuli vera álitinn svo ófyrirleitinn hatursmaður Holdös, að hann leggi gamla landa sína í einelti, til þess að spilla atvinnu þeirra og áliti í framandi landi. Hann telur sig í þessu hafðan fyrir rangri sök.

Auðvitað gaf hann í fyrstu norsku blöðunum skýrslu sína í þeim tilgangi einum, að hið sanna í málinu upplýstist einnig þar. Hann áleit, að ef hlutur þeirra, sem tjón hafa beðið sökum stóru mælikeranna í Krossanesi, yrði ekki rjettur, þá gœti það leitt til hins mesta ágreinings milli Íslendinga og Norðmanna og spilt samvinnu þessara frændþjóða í framtíðinni. Þess vegna vildi hann skýra óhlutdrægt og rjett frá öllum málavöxum og láta sannleikann koma sem skýrast í ljós, svo að Norðmenn litu ekki á uppþotið hjer eins og ómaklega árás á Holdö.

Það var einkum þessi skýrsla Stangelands, sem jeg vildi drepa nánar á, því mjer finst, að hennar hafi ekki verið nógsamlega getið í umr. alt fram að þessu.

Að öðru leyti get jeg að mestu leitt hest minn frá því að tala frekar um málið.

Jeg get látið mjer nægja að lýsa yfir því, að jeg tel rannsókn þá, sem í till. er farið fram á, svo sjálfsagða, að það stappar óhæfu næst, ef till. verður ekki samþ. og rannsóknin framkvæmd.

Mín skoðun er sú, að öllum málsaðiljum, og ekki hvað síst hæstv. lands stjórn, megi vera fyrir bestu, að mál þetta verði rannsakað til hlítar.

Jeg sje ekki, hvernig hæstv. stjórn getur þvegið hendur sínar á nokkum annan hátt en að málið verði rannsakað, ekki aðeins í þingnefnd, eins og till. fer fram á, heldur og fyrir dómstólunum, ef ástæða þykir til þess, að rannsókn þingsins lokinni.

Það er engan veginn rjett, sem hæstv. atvrh. (MG) gaf í skyn, að máli þessu hafi verið hreyft aðeins vegna þess, að andstöðuflokkar hæstv. stjórnar hafi komið því að á síðustu þingmálafundum í móðgunarskyni við hana. Slíkt nær vitanlega engri átt. Þetta mál var orðið öllum almenningi kunnugt og hafði verið rætt um alt land löngu áður en þingmálafundir voru haldnir í vetur, og almenningsálitið þá ákveðið, og það eru fleiri en stjórnarandstæðingar, sem hafa hreyft þessu máli og talið skýlausa skyldu að rannsaka það til fullnustu.