21.03.1925
Neðri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (3244)

98. mál, Krossanesmálið

Forsætisráðherra (JM):

Það eru aðeins fáar athugasemdir. Út af ræðu hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) skal jeg láta þess getið, að jeg skil ekki vel, hvers vegna hann bjóst við skýrslu um málið án þess að tilefni gæfist. Jeg þekki ekki þá venju, sem hefði átt að orsaka það, að gefin væri skýrsla um þetta mál, fremur en önnur, að tilefnislausu.

Hv. þm. sagði, að ekki hefði vakað fyrir Framsóknarflokknum, að þetta ætti að vera vantraust á stjórnina. En hann var svo samviskusamur að bæta því við, að ef rannsókn leiddi í ljós eitthvað aðfinsluvert, þá gæti upp úr því komið fram vantraust. Í því skyni hefir víst áreiðanlega þessi till. verið flutt, að hægt yrði að gera þessa skýrslu svo úr garði, að vantraust yrði á henni bygt. Jeg verð að segja, að þetta var töluvert hyggileg aðferð, og hefði máske tekist að láta það líta út sem meinlausa rannsókn, hefðu ekki komið fram þessar vantraustshótanir, ef tillagan yrði feld. Jeg skal ekki um það segja, hvort till. hefir upphaflega átt að vera grímuklætt vantraust, en upp úr henni átti það að koma. En hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að ef till. yrði feld, mætti minnast á málið á eldhúsdaginn, og væri auk þess rjett, að úr yrði skorið um það, hve mikils trausts stjórnin nyti í þinginu.

Hv. þm. talaði um utanríkismál og hjelt því fram, að þetta Krossanesmál gæti valdið vandræðum milli Íslands og Noregs. Jeg fæ ekki skilið, hvernig nokkrum manni getur dottið í hug að kalla þetta utanríkismál, þó rannsókn væri hafin gegn manni, sem hjer dvelur. Hvernig skýrsla hefir verið gefin í Noregi, kemur ekki málinu við. Mjer er ekki ljóst, hvernig annað eins og þetta gæti kallast Utanríkismál.

Jeg sagði aldrei, að hv. flm. till. (TrÞ) hefði sagt það beinlínis, að í henni feldist vantraustsyfirlýsing. En hann lagði þó áherslu á þá hótun, að flokkurinn skyldi hafa verra af, ef till. yrði ekki samþykt.

Jeg get ekki hugsað mjer, hvers vegna hv. þm. fer að tala um það, að hæstv. atvrh. (MG) vilji fela skjöl fyrir þinginu. Hæstv atvrh. sagði hv. 1. þm. Árn. (MT), að honum væri velkomið að koma upp í stjórnarráð og sjá öll skjöl, sem snerta þetta mál. Það stendur og vitanlega opið fleirum, t. d. foringjum flokkanna, ef þeir vilja. En það er komið fram, að það er ekki rannsókn málsins, sem áhersla er lögð á heldur einhverskonar rannsókn á stjórnina sjálfa. Þetta, sem hv. Þm. sagði, að rjett væri, að úr yrði skorið um fylgi stjórnarinnar, þá er það ekki nema leyfilegt. Það er altaf leyfilegt að koma fram með tillögu, sem sýnir, hverjir vilja fylgja stjórninni og hverjir ekki.