15.05.1925
Sameinað þing: 7. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í D-deild Alþingistíðinda. (3255)

134. mál, póstmál í Vestur-Skaftafellssýslu

Flm. (Jónas Jónsson):

Það, sem farið er fram á í þáltill. Þessari, er það, að hæstv. atvrh. (MG) lýsi yfir því, hvort hann vilji láta breyta í sama horf og áður var póstgöngum í vissum hluta Vestur-Skaftafellssýslu. Jeg býst ekki við, að aðrir en jeg og ef til vill hv. þm. V.-Sk. (JK) taki hjer til máls, og get því verið stuttorður.

Þannig er mál með vexti, að undanfarið hefir verið brjefhirðing á Kirkjubæjarklaustri, og tveir aukapóstar hafa gengið þaðan. Frá nýári í vetur var þetta lagt niður. Póstafgreiðslumaður í Vík er Halldór Jónsson eða Ólafur sonur hans, en Lárus Helgason brjefhirðingarmaður á Kirkjubæjarklaustri. Í haust er skrifuð kæra að austan út af því, að brjefhirðingin hafi endursent blöð án þess að um hafi verið beðið. Kærandi tilnefndi þrjá menn, er fyrir þessu hefðu orðið, sínu máli til styrktar. Kæru þessa fjekk háttv. þm. V.-Sk. (JK) í hendur. Síðan kemur hann kæruskjalinu á framfæri til póstsjórnarinnar ásamt brjefi frá honum sjálfum, sem, eins og öll skjöl, er lúta að þessu máli, er prentað í 8. tölublaði Tímans þ. á. Síðan hefir lítið heyrst í málinu annað en það, að póstmeistarinn sendi bæði brjef hv. þm. V.-Sk. (JK) og brjef Ólafs Halldórssonar til umsagnar brjefhirðingarmanninum á Kirkjubæjarklaustri. Niðurstaðan verður sú, að póstmeistarinn tekur kæruna til greina og flytur aukapóstana frá Klaustri.

Nú virðist mjer og mörgum öðrum af þeim skjölum, sem fyrir liggja í málinu, að dómur póstsstjórnarinnar fái ekki staðist. Vil jeg nú leiða rök að því.

Lárus Helgason hefir í áminstri grein birt öll gögn í málinu. Þeir þrír menn, sem aðallega eru tilnefndir að hafa kært yfir vanskilum, heita: Stefán Þorláksson í Arnardrangi, Bjarni Ásgr. Eyjólfsson á Steinsmýri og Páll Jónsson í Dalbæ. Þessa menn nefnir kærandi í brjefi sínu og segir svo í niðurlagi (með leyfi hæstv. forseta):

„Að þessu athuguðu virðist slíkt ekki geta gengið lengur, að hafa brjefhirðingu á þessum stað, og þar sem aukapóstar ganga nú ekki lengur þaðan á nk. ári, virðist öllu heppilegra að leggja brjefhirðingu þessa niður — vegna vanskilanna — og hafa viðkomustöð póstsins í Hólmi, enda betur sett á leið póstsins og alveg fullnægjandi“.

Af þessu er auðsætt, að kæranda er kunnugt um, að það á að leggja niður aukapóstana, og leggur hann nú ein dregið til, að brjefhirðingin verði lögð niður líka.

Hv. þm. V.-Sk. (JK) segir og í brjefi sínu til póstsstjórnarinnar (með leyfi hæstv. forseta, að „megn vanskil hafi verið á blaðasendingum þeim, er sendar hafa verið gegnum brjefhirðinguna á Kirkjubæjarklaustri á Síðu.

Með hverri póstferð koma blöðin „Ísafold“ og „Vörður“ endursend, og það þrátt fyrir, að sumir af móttakendum hafa beðið um blaðið. Jeg tel miklar líkur fyrir því, að blöðin sjeu endursend frá brjefhirðingunni sjálfri, og tel nauðsynlegt, að rannsakað verði þessar endursendingar og annað, sem virðist athugavert við þessa brjefhirðingu“.

Svo lítur út fyrir, að með þessari kæru hafi aðeins fylgt eitt vottorð, frá Stefáni Þorlákssyni, og með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa hans stutta brjef upp, því það sýnir glögt, hversu magur málstaður kæranda er. Brjefið hljóðar svo:

„Jeg undirritaður lýsi hjer með yfir því, að jeg hefi ekki endursent blaðið „Ísafold“ með þessari póstferð (í júlí) nje gert ráðstöfun til, að það yrði endursent, enda hefi jeg ætlað mjer að kaupa það; ennfremur vottast, að blaðið „Vörður“ og „Ísaf.“ hafa ekki komið reglulega til mín, og ekki fengið þau blöð tvær síðustu póstferðir.

P. t. Vík 8. júlí 1924.

Stefán þorláksson“.

Það verður ekki sjeð af kærunum, að nein vottorð liggi fyrir frá hinum tveimur, sem kærandi nefnir, en það getur verið, að þau hafi fengist síðar. En gegn kærunni hefir brjefhirðingarmaðurinn, Lárus Helgason, sent póstsstjórninni skilagrein frá nálega öllum bændum í umdæminu, sem hann segir að sjeu um 40. Hafa 36–37 þeirra lýst beinu og óbeinu trausti á brjefhirðingunni og sagt, að þar væri alt í góðri reglu. Sýnir þetta, að síst er því svo varið, að breyting sú, er um er að ræða, hafi samúð alls þorrans.

Vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa stutt meðmælabrjef, sem nál. 30 bændur í umdæminu hafa skrifað undir. Það hljóðar svo:

„Að gefnu tilefni lýsum vjer undirritaðir því hjer með yfir, að vjer höfum aldrei orðið þess varir, að nokkur vanskil hafi átt sjer stað á nokkru því, sem vjer höfum fengið sent með póstinum gegnum brjefhirðinguna á Kirkjubæjarklaustri, þvert á móti höfum vjer ávalt þreifað á því, að þar er hin besta regla á öllu, er að brjefhirðingunni lýtur og póstsendingum þaðan.

Í þessu sambandi skal þess getið, að vjer höfum beðið brjefhirðinguna að senda ekki heim til vor önnur blöð en þau, er vjer höfum gerst kaupendur að, og höfum vjer um leið skýrt henni frá, hver þau eru. Þau blöð, sem endursend hafa verið með vorum nöfnum frá greindri brjefhirðingu, hafa því verið endursend eftir beiðni vorri.

Leiðvalla og Kirkjubæjarhreppum

í nóvember 1924“.

Jeg skal ekki þreyta hv. þm. á að lesa upp nöfn bændanna, það eru nál. 30 manns, og síðan eru nokkrir, sem taka nálega í sama strenginn.

Þá kem jeg að þeim þrem mönnum, sem kærandi segir að einkum hafi kvartað yfir vanskilum á blöðunum. Virðast öll gögn lýsa því ljóslega, að þeir hafi sumpart komið fram með þessar umkvartanir óafvitandi og sumpart tilknúðir, og hafi síst ætlast til, að neitt yrði með ummælum þeirra spilt fyrir brjefhirðingunni á Kirkjubæjarklaustri.

Jeg vil lesa niðurlagsorðin úr brjefum þeirra allra, með leyfi hæstv. forseta.

Fyrst er Stefán Þorláksson. Hann segir svo:

„Jeg vil í þessu sambandi, og að gefnu tilefni, lýsa því hjer með yfir, að jeg hefi ekki annað en alt það besta að segja um þá menn, sem með brjefhirðinguna á Kirkjubæjarklaustri og aukapóstana þaðan fara, og vil því ekki hafa orðið til þess að drótta að þeim neinu því, er til óhlutvendni mætti telja. Lárus og syni hans hefi jeg aldrei reynt að neinu slíku“.

Þá er Páll Jónsson. Honum farast þannig orð:

„Þó jeg að lítt athuguðu máli í fljótheitum hafi undirskrifað hjá sýslumanni eitthvað, sem honum sýndist vert að nota sem ákæruefni á brjefhirðinguna á Kirkjubæjarklaustri, þá var það aldrei mín ætlun, enda hefði það verið órjett og ómaklegt af mjer að gera slíkt“.

Loks skrifar Bjarni Ásgr. Eyjólfsson þannig:

„Að þessu athuguðu hefi jeg enga ástæðu til að kvarta undan neinum vanskilum frá nefndri brjefhirðingu, og að því er jeg best veit, veit jeg ekki til annars en hún sje áreiðanleg í alla staði gagnvart hennar skyldum. Finn jeg mig því knúðan til að mótmæla, að nafn mitt sje að ástæðulausu notað til árásar á fyrnefnda brjefhirðingu að neinu leyti“.

Þetta eru í stuttu máli þau gögn, sem virðast fyrir liggja í málinu, sem sje kæ.an stafar frá póstafgreiðslumanninum í Vík og er borin fram af hv. þm. V.-Sk. (JK). Að honum ólöstuðum er það vitanlegt, að hann er pólitískur mótstöðumaður brjefhirðingarmannsins á Klaustri, Lárusar Helgasonar, og það vill líka svo til, að hann er nátengdur aðalpóstmeistara og á því ljett með að koma kærunni á framfæri. Aðalpóstmeistari sendir kæruna til kærða. Hann svarar með vottorðum nálega allra bænda í umhverfinu um, að brjefhirðingin sje í góðu lagi, og jafnframt sendir hann vottorð frá þeim mönnum, sem talið var að orðið hefðu fyrir misrjetti og áfellisdómurinn var bygður á, um að þeir hafi aldrei ætlast til, að umkvartanir sínar yrðu póstafgreiðslumanninum til óþægðar. Einn talar meira að segja á þá leið, að helst virðist, sem hann hafi verið fenginn til þess af yfirvaldinu í Vík að skrifa undir skjal án þess að vita um efnið. Hvað sem menn nú segja um slíka vitnisburði, mun þó flestum koma saman um, að þeir geri ekki meira en að eyðileggja hver annan. Og lítið verður á því byggjandi, þótt menn máske undir óeðlilegum kringumstæðum láti í ljós kvartanir, sem þeir síðar taka aftur, og lýsa þá ánægju sinni yfir því, er þeir áður virðast hafa látið leiðast til að áfella.

Jeg hefi nú sýnt, að allan grundvöll vantar undir kæruna. Þar við bætist, að nálega allir búendur í umdæmi brjefhirðingarinnar lýsa óskoraðri ánægju sinni yfir áminstri brjefhirðingu og segja, að ekkert sje að henni að finna. Jeg held því að svo vöxnu máli, sem helst líti út fyrir, að pólitík hafi mestu ráðið um þessi afskifti af brjefhirðing unni á Klaustri. Virðist póstsstjórnin hafa verið helst til fljót til ályktana og í fljótræði bygt meira á persónulegum milliburði en rjettmætum kærum. Ætla jeg líka, að hún nú, er hún sjer, að um ástæðulausa tortrygni hefir verið að ræða, taki aftur ranglátar ráðstafanir sínar.

Sjálfur brjefhirðingarmaðurinn hefir í brjefi til póstsstjórnarinnar bent á það, að oft komi fyrir, að póstafgreiðslan í Vík, sem skiftir póstunum, afgreiði vitlaust, þannig t. d., að blaðasendingar, sem fara eiga á brjefhirðingar vestarlega í sýslunni, lendi austur á Prestsbakka. Hefir engum dottið í hug að kæra yfir slíku, enda kemur það svo að segja alstaðar fyrir. Má að vísu skoða þetta sem vanrækslusyndir, en beisklega verða þær ekki áfeldar. Virðist líka, að þar sem einmitt Ólafur Halldórsson er við póstafgreiðsluna í Vík, þar sem þessar gleymskusyndir henda oft, þá sitji það síst á honum að kæra brjefhirðinguna á Klaustri.

Jeg er alveg sannfærður um, að þessi breyting á ferð aukapóstanna og umtalið um að leggja brjefhirðinguna á Klaustri niður er af engu öðru sprottin en af þessum mishepnuðu kærum og þeim anda, sem bak við þær felst. Þar sem það nú má heita sannað, að kæran sje röng, þá sýnist það vera skylda Alþingis að koma í veg fyrir, að hjer sje beitt hlutdrægni. Jeg er ekki í vafa um, að ef þessi þáltill. verður samþ., þá breyti póstsstjórnin til um ráðagerðir sínar, en verði þáltill. feld, verð jeg að líta svo á, sem Alþingi álíti, að það sje leyfilegt að draga flokkapólitíkina inn í svona mál.

Það er hægt að segja, að þetta sje lítið mál, hvernig ferðum aukapóstanna er hagað þarna. Jeg skal viðurkenna, að það er lítið fjárhagsmál. En það er annað. Það er mikið rjettlætismál, sem hjer ræðir um, og ef órjetturinn á að líðast, er rjett, að það sje þjóðinni ljóst, hvaða aðiljar vilja, að svo sje. Ef málinu er haldið til streitu, hlýtur sýslumaðurinn í Vík að dragast inn í það, því hann virðist hafa hagað sjer öðruvísi en búast má við af dómara hjeraðsins, með því að leitast við að fá mann til að skrifa undir yfirlýsingu, sem maðurinn vissi ekki hver var og síðan varð óánægður með.

Jeg held nú, að jeg hafi gert grein fyrir aðalatriðum málsins. Jeg skoða þetta lítið fjárhagsmál, eins og jeg sagði fyr, en það er rjettlætismál, og á þeim grundvelli á það að afgreiðast.