15.05.1925
Sameinað þing: 7. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (3257)

134. mál, póstmál í Vestur-Skaftafellssýslu

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg held, að það sje synd að tefja lengi tímann út af þessari till., þar sem þingmenn eru í óða önn að búast burtu, enda eru nú fáir í sætum sínum. Mjer finst ekki undarlegt, þó að hv. þing finni ekki ástæðu til þess að dvelja lengi við þetta mál, sem alls ekki heyrir undir Alþingi. Þetta er ekki löggjafarmál, og legg jeg því á móti, að þessi till. verði samþ. Þarf jeg ekki að fara út í þetta frekar. Mjer skilst, að hjer sje um að ræða deilumál milli tveggja manna, sem Alþingi getur ekki skift sjer af, því að það er ekki á verksviði þess. Ef brjefhirðingannaðurinn á Kirkjubæjarklaustri er óánægður, ber honum að kæra fyrir samgöngumálaráðuneytinu, en ekki fyrir hv. 5. landsk. (JJ). Annars verð jeg að segja, að mjer þykir kynlegt, hvernig hjer er sveigt að aðalpóstmeistaranum og sýslumanninum í Vík. Hv. 5. landsk. hefir engan rjett til þess að sveigja hjer að fjarstöddum mönnum. (JJ: Aðeins eins og heimildir liggja til). Já, eins og heimildir liggja til. Hv. þm. (JJ) bygði hjer á vottorði manns, sem hefir orðið tvísaga. Það kalla jeg litlar sannanir, og munu flestir telja slík skjöl lítt merk. Að Alþingi fari að ákveða, hvernig þessir aukapóstar ganga, nær auðvitað ekki nokkurri átt. Það hefir aldrei skift sjer af slíkum málum, enda er það ekki á þess verksviði. Að aðalpóstmeistarinn hafi blandað sjer inn í flokkadeilur í þessu máli, er ósæmileg aðdróttun. Jeg hefi talað við hann, og hann segist hafa haft nægar ástæður til þess að breyta um. En jeg skal ekki skýra frá þessu nánar, af því að hlutaðeigandi maður er ekki við. Hv. þm. (JJ) getur farið til póstmeistarans og heyrt ástæðumar. Jeg geri það nauðugur að draga þær inn í þessar umræður hjer, nema þá að hv. þm. (JJ) hafi svo sterkt umboð frá hlutaðeigandi brjefhirðingarmanni, að hann vilji svara fyrir hann hjer og geti það nægilega.