13.05.1925
Neðri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í D-deild Alþingistíðinda. (3272)

137. mál, vantraust á núverandi landsstjórn

Flm. (Jón Baldvinsson):

Hjer virðist sú venja komin á, að vantraust á landsstjórnina sje borið fram sem sjerstakt mál, er verði að sæta sömu meðferð og þingsköp mæla fyrir um ályktanir Alþingis eða deildanna, sem ein umræða er höfð um.

Þyki einhverjum rjett að fá vitneskju um það, hvort stjórnin njóti trausts eða ekki, verður hann því að fara þessa leið. En af því að þetta form er svo þungt í vöfum og venjulega langur tími, sem líður frá því að till. um vantraust kemur fram og þar til hún er tekin til meðferðar, þá þykir mörgum þetta miklu hátíðlegra og stórkostlegra en það í raun og veru er.

Í löndum, þar sem þingstarfsemi er lengra á veg komin en hjá okkur, er þetta miklu einfaldara. Þar er vantraust eða vantrauststillaga venjulega í sambandi við úrslit einhvers máls, framkomu stjórnarinnar í því máli eða út af einhverjum gerðum hennar í því sambandi, og er þá venjulegast umsvifalaust skorið úr því, hvort stjórnin hafi traust eða ekki.

Nú hefi jeg við flutning vantrauststillögunnar á þskj. 520 fylgt þeirri reglu, sem hjer hefir verið tekin upp. Jeg ber þessa tillögu engan veginn fram vegna þess, að jeg þurfi að sýna lit gagnvart stjórninni. Afstaða mín og míns flokks til stjórnarinnar er sjálfsagt kunn öllum hv. þdm. Jeg hefi aldrei borið snefil af trausti til stjórnarinnar til þess að fara með völdin í landinu, og jeg mundi líklega ekki hafa borið þessa till. fram, ef jeg hefði haft ótvíræða vissu um það, að stjórnin hefði stuðning meiri hluta þingsins eða sjerstaklega ótvíræðan meiri hluta þessarar hv. deildar.

Nú er það vitanlegt, að í flokki þeim, sem myndaðist eftir síðustu kosningar, Íhaldsflokknum, voru alls 20 þingmenn, og það er að minsta kosti ekki opinbert, að neitt hafi fjölgað þar síðan. Þessir 20 þingfulltrúar gengu þar í flokk saman. Þó að þetta sje stærsti flokkur þingsins, þá er hann þó ekki nægilega sterkur til þess að mynda stjórn upp á sitt einsdæmi. En það fór nú samt svo, að þessi flokkur tók við stjórnartaumunum eftir talsverð umbrot. Og það hefir aldrei, mjer vitanlega, heyrst með vissu, hverjir það eru, sem, auk Íhaldsflokksins, studdu núverandi stjórn til valda. En hitt mun aftur vitanlegt, að nokkur hluti Sjálfstæðisflokksins lofaði stjórninni hlutleysi sínu. En hvernig þessu hutleysi var háttað, eða hversu langt það náði, er mjer ókunnugt um.

Það eru óskráð lög undir þingræðisfyrirkomulagi, að sú stjórn, sem með völd fer, nema um eitthvert millibilsástand sje að ræða, hafi beinan eða óbeinan stuðning meiri hluta fulltrúa á hinni þjóðkjörnu löggjafarsamkomu.

Stjórnarskrá Íslands mælir svo fyrir, að fjárlagafrv. skuli jafnan fyrst lögð fyrir Nd. Alþingis, enda venja að bera öll meiri háttar mál fyrst fram þar. Sú deild þingsins á því að ráða mestu um löggjöfina. Og sú stjórn, sem ekki hefir meiri hluta þessarar deildar, getur því ekki kallast þingræðisstjórn. Og með till. þeirri, sem jeg ber nú fram, verður það prófað, hvort svo er eða ekki. Reynist það svo, að stjórnin hafi örugt fylgi meiri hluta þessarar deildar, þá getur hún setið áfram, en hafi hún ekki meiri hluta hjer, þá verður hún annaðhvort að skjóta máli sínu til þjóðarinnar og láta fara fram nýjar kosningar, eða fara frá völdum ella og önnur stjórn að taka við, sem uppfyllir þær kröfur, sem verður að gera til hverrar stjórnar í landi, sem hefir þingræðisstjórnskipulag.

Nú þykist jeg hafa fulla ástæðu til þess að draga það í efa, að stjórnin hafi nægilegt fylgi í þessari hv. deild.

Í hinu svonefnda Krossanesmáli, sem mikið var rætt hjer í þinginu í vetur, þá gerði stjórnin það að fráfararsök, ef samþykt yrði till. um að rannsaka það mál. Við atkvgr. fjell till. um rannsóknina með jöfnum atkv., og slapp stjórnin þannig með naumindum frá því að þurfa að fara frá. En þess ber að gæta, að úrslit málsins urðu þessi af því, að tveir ráðherrarnir greiddu atkvæði móti rannsóknartill. Stjórnin sat þannig í sjálfstrausti, en ekki í trausti meiri hluta deildarinnar.

Það hefir aldrei þótt fullkomlega trygt, að menn dæmdu í sjálfs sín sök. Og það er áreiðanlega brot á anda þingræðisreglunnar, að ráðherrarnir úrskurði sjálfir með atkvæði sínu, hvort þeir skuli sitja áfram í embætti. En hefðu ráðherrarnir ekki greitt atkvæði í máli því, er jeg gat um áðan, þá varð stjórnin að fara frá völdum.

En þó að stjórnin á þennan hátt slyppi frá vantrausti út af þessu máli, þá er alls ekki víst, að hún njóti svo almenns trausts deildarinnar, að henni sje trúað til þess að fara með völdin.

En það er alls ekki eingöngu af því, að jeg vildi prófa, hvort stjórnin væri „parlamentarisk“ eða ekki, að vantrauststill. er komin fram. Jeg hefi einnig aðrar ástæður til þess að bera fram vantraustsyfirlýsingu, og skal jeg nú fara um þær nokkrum orðum. Er það þá einkum stefna stjórnarinnar í löggjöfinni, eins og hún hefir komið fram í stjfrv. á þessu þingi, og ennfremur öll framkvæmd hennar á síðasta ári. Vænti jeg þess, að þau dæmi, sem jeg tel, þyki nægileg til þess að rökstyðja vantraust og greiða því atkv.

Hvað snertir framkvæmdarstjórnina vil jeg aðeins minna á eitt mál, sem jeg tel nægja, því það er í mínum augum svo stórt atriði, að í hverju öðru landi hefði stjórnin verið rekin frá völdum eftir slíkar framkvæmdir eða framkvæmdarleysi. Það er Krossanesmálið. Stjórnin hefir ekki eingöngu með framkomu sinni í því máli látið viðgangast, að stórfeldari fjársvik og verslunarsvik væru þar í frammi höfð en nokkru sinni áður hafa þekst hjer á landi, heldur hefir hún lagt blessun sína yfir þetta athæfi, og aðgerðir hennar líta svo út, sem hún hafi talið alt löglegt. En þó tekur út yfir alt, er stjórnin neitar Alþingi um að láta rannsaka þetta mál og gerir það auk heldur að fráfararsök, ef þingið samþykti rannsóknina. Hjer var þó um upphæð að ræða, sem skifti hundruðum þúsunda kr., og það er sannað, að aðgerðir hæstv. atvrh. (MG) og yfirlýsingar hans í samtali við blaðamenn eftir Krossanesförina drógu úr viðskiftamönnum að fara í mál við verksmiðjuna, þegar löggildingarstofan hafði sannað á hana, að hún hefði notað svikin mál. En annars skal jeg ekki fara mikið út í þetta mál, sökum þess, að það hefir verið rætt allmikið hjer í deildinni í vetur.

Þá eru mönnum einnig í fersku minni aðgerðir stjórnarinnar í löggæslu í landinu yfirleitt, og get jeg ekki stilt mig um, í sambandi við aðgerðaleysi og þrekleysi stjórnarinnar í Krossanesmálinu, að minnast á hið svonefnda guðlastsmál, sem tekið hefir verið til rannsóknar fyrir skemstu að tilhlutun hæstv. forsrh. (JM) Einmitt í sambandi við Krossanesmálið er gott að bera saman þrekleysi hæstv. stjórnar þar og röggsemi hennar gagnvart ungum mentamanni hjer, er hún hefir fyrirskipað sakamálsrannsókn gegn. Annars vegar er ungur mentamaður, sem stjórnin þorir að sýna röggsemi við, en hinsvegar er stórauðugt erlent fjelag, sem hefir haft af landsmönnum svo hundruðum þúsunda skiftir með sviknum mælikerum. Sakamál er höfðað gegn unga mentamanninum, en útlenda auðfjelagið sleppur, og ráðherrarnir verja framkomu þess í líf og blóð. Þessi tvö dæmi nægja að sinni til að sýna framkvæmdarstjórnina, og sný jeg mjer þá að löggjafarstarfsemi hæstv. stjórnar, og skal nú taka fyrir nokkur mál, er hún og fylgifiskar hennar hafa borið fram og hún beitt sjer fyrir.

Fyrsta málið er þá ríkislögreglan. Mál þetta má nú kalla dautt, en þó vil jeg fara nokkrum orðum um það og hvernig hæstv. forsrh. fórust orð um það. Jeg get að sjálfsögðu ímyndað mjer, hvernig honum hefir orðið við, er íhaldsdátarnir komu með frv. þetta til hans í fyrra. Hann hefir bæði gert að blikna og blána, því að þetta er ólíkt hans skaplyndi að bera þetta fram. En jeg sje, hvernig í þessu liggur. Hæstv. forsrh. er blátt áfram að berjast fyrir pólitísku lífi sínu, eða ímyndar sjer, að svo sje. Mjer er sem jeg sjái, hvernig hann hefir reynt að snúa sig frá þessu máli. Hvernig íhaldsforkólfarnir hafa elt hann krók úr krók, og hvernig hann hefir loks verið króaður í einhverju horninu og loksins látið undan, þegar honum var hótað pólitísku lífláti. Peningana eða lífið! segja ræningjarnir. Hæstv. forsrh. hefir kosið lífið, eins og flestum verður. En þetta hefir verið svona gömlum manni, og með það skaplyndi, sem hann hefir, hin mesta þrekraun, að standa í þessu máli, svo óvinsælt og ilt sem það er. En honum var sýnilega ljett í skapi, þegar þetta mál var hjer síðast til umr. Jeg verð að segja, að mjer þótti framkoma hans þá hálfkynleg, þegar hann var að bregða mjer um það, að jeg talaði vægilega á móti ríkislögreglufrv. En nú skil jeg þetta miklu betur. Hæstv. forsrh. sá fram á það, að málið kæmi ekki á dagskrá aftur á þessu þingi. Það varð ekki með nokkurri sanngirni heimtað, að málið yrði tekið á dagskrá aftur á þessu þingi. Þess vegna var forsrh. svona glensfullur, þegar hann sá, að málið mundi daga uppi. En þetta má engan veginn skilja sem neina afsökun fyrir hæstv. forsrh. Sökin er hin sama, að bera málið fram, þótt hann kunni að hafa gert það nauðugur.

þá er tekjuskattsfrv. hæstv. stjórnar. Í raun og veru er það pólitísk dauðasynd að bera slíkt frv. fram. En þetta frv. sýnir einna átakanlegast fjármálastefnu hæstv. stjórnar og fjármálaspeki. Það, sem merkilegast var við frv., var það, að því fylgdi engin áætlun um það, hvað tap ríkissjóðs mundi verða mikið. Og frá hæstv. stjórn kom ekki orð í þá átt. Undir umræðunum hefir hæstv. fjrh. (JÞ) sneitt vandlega fram hjá öllum slíkum upplýsingum. Þetta er og ósköp vel skiljanlegt, þar sem hann gat ekki gefið neinar upplýsingar í þessu efni. Og þess vegna var ekki von, að aðrir gætu það. En hvers vegna leitaði hæstv. fjrh. sjer ekki upplýsinga um málið? Jú, hann hefir vitað, áð á hverri þeirri stundu, er hann kæmi með skýringar, mundi bresta flótti í stjórnarliðið. Þegar hv. fjhn. Ed. fjekk málið til meðferðar, útvegaði hún upplýsingar um það, hve miklu næmi sú upphæð, sem ríkissjóður mundi tapa við þessa eftirgjöf til hlutafjelaganna, og er það, eins og sjest á þskj. 524, að þessi missir er 628 þús. kr. Hæstv. fjrh. (JÞ) passaði sig í þessu efni að nefna engar tölur, en það skal sagt flokksmönnum hæstv. stjórnar til lofs, að þegar þeir sáu, að hverju fór, þá reyndu þeir að bæta úr því. Hv. Ed. hefir gert það, sem Nd. átti að gera: Hún hefir slegið á putana á hæstv. fjrh., þegar henni sýndist ríkissjóður verða fyrir svo miklum skaða af þessu frv. hans, að mörgum hundr. þús. kr. mundi nema.

Þetta mál er nú að vísu komið í betra horf en hæstv. stjórn ætlaðist til. Hún ætlaði að fá það óbreytt fram, en þingviljinn var, sem betur fór, á móti. En þótt þessir angar sjeu af sniðnir, eru þó ekki svo lítil hlunnindi eftir handa stórgróðafjelögunum, sem vissu um fyrirætlanir hæstv. stjórnar og gátu hagað reikningisfærslu sinni eftir því og lagt svo og svo mikið af gróða sínum í varasjóð eða til afskriftar. Annars skal jeg ekki fara frekar út í það atriði; það verður tækifæri til þess, þegar málið kemur til einnar umr. í þessari hv. deild. En svo mikið get jeg sagt, að þetta mál hefir opnað augu margra um það, að Íhaldsstjórninni er trúandi til alls. Í þessu sambandi skal jeg benda á það, að tekju- og eignarskattsskráin var lögð fram 6. maí í fyrra, en að þessu sinni er hún ekki enn lögð fram. Jeg skal ekkert um það segja, að þetta sje hæstv. fjrh. að kenna, en samkvæmt lögum á skráin nú að liggja frammi.

Þá skal jeg víkja að þeim þingmálum, er ekki heyra hæstv. stjórn beinlínis til, en borin eru fram af hennar fylgifiskum, svo sem afnám tóbakseinkasölu og steinolíu og niðurlagning Landsverslunar. Það vita allir, að Landsverslun hefir jafnan verið þyrnir í augum kaupmanna, og það er ekkert leyndarmál, að kaupmenn heimtuðu það fyrir stuðning sinn við Íhaldsflokkinn við síðustu kosningar, að Landsverslunin yrði lögð niður. Á þinginu 1924 þorðu þeir þó ekki að ráðast í þetta, því að þá voru þeir ekki búnir að kreista alla líftóru úr hæstv. atvrh. (MG).

Nú hafa þeir komið því fram, að einkasala á tóbaki á að leggjast niður, og að ríkissjóður hendi frá sjer vitandi vits 1/4 miljón króna tekjum. En nú er talað um svo stórar upphæðir í sambandi við tekjuskattsfrv., að mönnum blöskrar ekki, þótt þeir heyri svo smáar upphæðir nefndar.

Steinolíumálið er annars eðlis. Þar átti ríkissjóður ekki að hafa neinar beinar tekjur, en sú verslun átti eingöngu að vera til hagræðis hinum mörgu smáútgerðarmönnum hjer á landi, er áður voru bundnir á klafa D. D. P. A. Í umr. um steinolíumálið kom hæstv. fjrh. (JÞ) sínum mönnum til hjálpar og gaf yfirlýsingu í þessu máli, sem hann varð þó að taka aftur seinna. Þegar búið var að hrekja allar ástæður afnámsmanna steinolíueinkasölunnar, þá kom hæstv. fjrh. þeim til hjálpar, lagði út af samningi Landsverslunar við British Petroleum og þótti hann óhagstæður. Jeg hefi ekki þennan samning í höndum, en jeg veit frá mönnum, er jeg trúi betur en hæstv. fjrh., að samningurinn er okkur hagstæður og engar líkur til þess, að við fáum annan betri eða hagkvæmari innkaup á olíu en samningurinn veitir okkur. Í þessu sambandi kom hæstv. fjrh. með ýmsa útreikninga um það, að innkaupsverð Landsverslunar væri okkur óhagstætt. Mintist hann í því sambandi á það, að verðið væri miðað við verð á Mexíkóflóa, en honum gleymdist þó, þeim góða manni, að geta þess um leið, að við Mexíkóflóa eru einhverjar stærstu olíulindir heimsins, og það eru þær, sem ráða mestu um heimsmarkað á steinolíu. En athuga verður, að olían kemur ekki kostnaðarlaust sunnan úr Mexikóflóa og hingað til Íslands. Annars mætti segja með sama rjetti, að hjer væri okrað á sementi, því það kostaði ekki nema 7 eða 8 kr. tn. í Álaborg, en 16 eða 17 kr. hjer. En þá væri ekkert tillit tekið til alls kostnaðar. Viðvíkjandi útreikningum hæstv. fjrh. þarf ekki annað en benda á útreikninga Jóns þorlákssonar landsverkfræðings hjer á árunum. Þeir, sem því voru kunnugir, hafa ekki mikla ástæðu til þess að trúa því, sem hæstv. fjrh. (JÞ) segir.

Síðastliðið ár var hjer mesta árgæska, og því er velgengni manna meiri en áður. Ef gæðin hefðu nú Skifst jafnt milli allra, þá er sennilegt, að hjer hefði verið sæmilegt ástand. En það sýnir glögt afstöðu hæstv. stjórnar til almenningsheilla, að hún vill gefa eftir skatt af stórgróða, en skattleggja svo fátæklinga með allskonar sköttum. Með þessu hefir stjórnin sýnt og sannað þann sorglega sannleika, að sá auður, sem íslenskir sjómenn og verkamenn hafa aflað úr skauti náttúrunnar, er notaður hreint og beint til þess að þröngva kosti þeirra sjálfra. Og þetta er verk íhaldsstjórnarinnar. Hún vill sumpart gefa og sumpart fá heimild til að gefa fjársterkustu hlutafjelögunum og ríkustu mönnunum í landinu mikinn hluta af rjettmætum og lögmæltum skatti þeirra til ríkissjóðs, en af þessu leiðir aftur, að tekjur ríkissjóðs skerðast, og það skarð þarf að fylla. Það er gert á þann hátt að leggja háa tolla á nauðsynjar almennings. Þess vegna þarf að halda við gengisviðaukanum; þess vegna þarf að halda við verðtollinum; þess vegna vildi hæstv. stjóra tvöfalda sóknargjöldin og þar fram eftir götunum.

Hverjir eiga þá að taka við, ef þessi stjórn fer frá? 2. þm. Reykv. getur ekki myndað stjóra. Alveg rjett! Jeg er einn í flokki í þinginu. Og ekki býst jeg heldur við, að ný stjórn verði mynduð, sem jeg geti stutt. En væri þá nokkur ávinningur fyrir mig að fella stjórnina, ef menn með sömu eða svipaðar skoðanir mynduðu hina nýju stjórn, t. d. einhverjir þm. úr Íhaldsflokknum? þótt svo yrði, að hin nýja stjórn yrði skipuð mönnum úr Íhaldsflokknum, einhverjum öðrum en núverandi ráðherrum, þá áliti jeg samt ávinning að skifta um stjórn. Og jeg skal færa nokkrar sönnur á þetta.

Fyrri part þingsins í fyrra kom íhaldsstjórnin að völdum. Hún var strax ill. En þó er hún svo miklu verri í ár, að það er eins og úlfur hjá lambi móts við það í fyrra. Og hún er miklu verri nú í þinglokin heldur en hún var í byrjun þessa þings. Hún versnar með hverjum deginum sem líður. Hún er verri í dag heldur en hún var í gær, og hún verður verri á morgun heldur en hún er í dag, ef hún fær að sitja þangað til á morgun. Sannanirnar fyrir þessu er að finna í löggjafarundirbúningi stjórnarinnar, í störfum og framkomu stjórnarinnar og flokksmanna hennar á þinginu nú í vetur. Hvert óskapnaðarfrumvarpið hefir rekið annað, svo sem ríkislögreglan, tekjuskattsfrumvarpið, verðtollurinn, sóknargjaldafrv. o. s. frv. Hverja þjóðskaðlegri tillöguna á fætur annari hafa flokksmenn stjórnarinnar flutt hjer á þinginu, svo sem tillöguna um afnám Landsverslunarinnar. Alt eru þetta hagsmunamál örfárra efnamanna í landinu. Öll eru þessi mál rjettarskerðing fyrir alþýðu manna eða þungar álögur á almenning. Alt eru þetta nægilegar ástæður fyrir mig til þess að láta það álit mitt í ljós, að þessi stjórn eigi tafarlaust að fara frá völdum. Það verður ekki verra, hvaða stjórn sem við tekur. Þingið er þó altaf nokkur hemill á stjórnimar, að minsta kosti meðan það situr. Og hver vill sleppa framkvæmdarstjórninni í landinu við þessa herra fram að næsta þingi, svo þeir geti gert hvert Krossaneshneykslið á fætur öðru? Jeg vil að minsta kosti ekki gera það.