13.05.1925
Neðri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í D-deild Alþingistíðinda. (3274)

137. mál, vantraust á núverandi landsstjórn

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. flm. (JBald) hefir þá leyst frá poka sínum og látið í ljós, hvað hann helst hefði við stjórnina að athuga. Hefir hann tínt upp úr pokanum gersemar sínar og falar nú atkvæði fyrir. En þessar gersemar eru svo fáar og verðlausar, að undrum sætir. Og hæstv. forsrh. (JM) hefir nú sýnt fram á þetta og neytt hv. flm. til þess að stinga þessum glysvarningi sínum í pokann aftur sem verðlausum og ókaupandi. Eiginlega er því ekki annað eftir en binda fyrir pokagreyið og festa hann á bak eigandans.

Jeg hygg og, að hæstv. forsrh. hafi bent á ranghermi hv. flm. um Krossanesmálið, það, að stjórnin hafi gert rannsókn á því að fráfararatriði. Þetta er alls ekki rjett. Þáltill. fór fram á rannsókn á stjórnina, og það var gert að fráfararatriði, ef hún yrði samþykt. En ef rannsaka átti málið yfirleitt, þá væri fróðlegt að vita, hvernig hv. flm. hugsar sjer að sú rannsókn hefði getað orðið framkvæmd, meðan þing stóð yfir. Maður sá, sem hjer er fyrir sökum hafður, dvelur erlendis, og hefði því ekki orðið yfirheyrður. Það hefði víst orðið að beita rússnesku rjettarfari, enda er það víst hv. flm. þóknanlegast.

Þegar borin var fram dagskrá um rannsókn á málinu, greiddi hv. flm. atkv. á móti, en jeg með. Hvor okkar drap þá eiginlega rannsókn á Krossanesmálinu ? En hitt játa jeg, að jeg greiddi atkvæði móti rannsókn á stjórnina, eins og fólst í þáltill.

Bæjarfógetinn á Akureyri hafði rannsakað mál þetta, er jeg kom norður, og fjelst jeg á niðurstöðu hans, er jeg hafði kynt mjer málavöxtu.

Hæstv. forsrh. sýndi fram á, hvílík fásinna það væri, að ráðherrar neyttu ekki atkvæðisrjettar síns. Engin heimild er til að banna þeim að neyta hans. Jeg vil aðeins benda hv. flm. á, hvernig færi fyrir stjórninni í Danmörku, ef ráðherrarnir mættu ekki greiða atkv. Svo er þessu farið um heim allan.

Hv. flm. sagði, að álit mitt á máli þessu hefði dregið úr því, að menn höfðuðu mál gegn forstjóranum. Ef svo er, sýnir það, að eitthvert mark er tekið á áliti mínu, og er það meira en hann getur sagt.

Annars drap hann ekki á mál, sem mjer koma beint við, nema sjúkratryggingarnar, án þess þó að nefna, hvað að þeim væri, enda þótt jeg viti, hvað hann fór. Hann getur ekki litið svo langt að sjá, að sá skattur er lagður á hinum fátækustu til styrktar.

Þá talaði hann um afnám steinolíueinkasölunnar, sem hann sagði að hefði mörg hundrað þús. kr. tap í för með sjer. Hann ætti að muna, að Landsverslunin heldur áfram fyrst um sinn, og ef kjörin þar eru svo miklu betri en annarsstaðar, verður auðvitað útkoman sú, að allir versla þar og hvergi annarsstaðar. Og hvar er þá skaðinn? Hv. flm. spurði, hvort steinolíusamningurinn væri óhagstæður. Hann verður birtur bráðum, og mun þá hið sanna sjást.

Mjer kom það á óvart, að hv. flm. skyldi bregða mjer um það, að jeg hefði beitt gerræði viðvíkjandi húsaleigureglugerðinni í Rvík. Jeg neitaði henni staðfestingar af því að jeg taldi hana ólöglega eins og hún var úr garði gerð, þar sem bæjarstjórn var veitt heimild til að banna innflutning til bæjarins, en þingið hafði einmitt látið í ljós, að það vald vildi það ekki gefa bæjarstjórninni, og brtt. í þessa átt samþykti hv. flm. (JBald). En nú fer hann í þessu beint ofan í sjálfan sig. Vilji hann tala um gerræði í sambandi við þetta mál, þá er það rjettnefni um hans eigin framkomu, en ekki mína.