14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í D-deild Alþingistíðinda. (3284)

137. mál, vantraust á núverandi landsstjórn

Forsætisráðherra (JM):

Hv. þm. Str. (TrÞ) mintist á þrjú mál, sem hann taldi bera vott um pólitíska spillingu, og af því að þessi mál snerta mig öll, bæði fyr og nú, verð jeg að svara honum stuttlega. Hann talaði fyrst um borgun til hv. þm. Dala. (BJ) fyrir fylgi við stjórnina. Það ætti að vera frv. um íslenska dósentinn. Á síðasta þingi barðist jeg fyrir því, að sá maður, sem embættið er ætlað í fyrstu, væri ekki rangindum beittur. Og eins og hv. þm. (TrÞ) er kunnugt, bar jeg samskonar frv. fram fyrir nokkrum árum. Mjer er alveg óskiljanlegt, hvernig hv. þm. fer að kalla þetta borgun til hv. þm. Dala. Við hv. þm. Dala. höfum ekki fylgst altaf svo að, að þannig megi líta á. Þetta er því aðeins tyllisök, þegar alt annað þrýtur, til þess að sakfella stjórnina.

Hitt málið er það, að kvennaskólinn í Reykjavík væri gerður að ríkisskóla. Um það get jeg vísað til undanfarandi þinga. Jeg hefi margsagt hjer, að jeg teldi það hvorki rjett nje holt, að ríkið kostaði stofnun algerlega, án þess að hafa yfirráð hennar. Það kom til orða 1923 um kvennaskólann, og þá lýsti jeg þessari skoðun minni. Nú á afstaða mín að orsakast af pólitískri spillingu.

Þá er sendiherrann. Jeg taldi og tel enn þá óheppilegt að leggja embættið niður. Jeg sagði, að það hefði mátt afsaka það í fyrra, sakir þess sparnaðar, sem þá var svo ofarlega á baugi. En nú, þegar hv. þm. segja, að minstu muni um 1/2 milj. aukinn tekjuhalla, þá er sú afsökun ekki lengur til. Þetta voru því óheppilegustu málin, sem hv. þm. (TrÞ) gat nefnt. Jeg get vísað um þau öll til eldri ummæla minna.

Þá fór hv. þm. (TrÞ) að lofa hæstv. fjrh. og notaði þau orð, að hann vildi snúa sjer til hans sem eina ráðandi manns stjórnarinnar. En um hvað sneri þm. sjer til hans? Um það eitt, sem beint heyrði undir fjrh., fjármálin. Hann sagði, og jeg er honum samdóma um það, að hæstv. fjrh. væri fær um að vera einn ráðh. En jeg er þakklátur hv. þm. Str. fyrir, að hann hefir gefið formanni Íhaldsflokksins þennan ágœta vitnisburð. Jeg tek undir það, og þessi vitnisburður er því þakkarverðari, sem hann kemur frá þessum hv. þm., harðasta andstæðingi Íhaldsflokksins. Hv. þm. hlýtur þó að sjá, að það hefir ákaflega mikla þýðingu fyrir flokkinn að fá þessa viðurkenningu, um leið og vantraustsyfirlýsing kemur fram, þessa viðurkenningu, sem er svo mikil, að vart hefir önnur hreinskilnari heyrst frá andstæðingi. Vjer íhaldsmenn kunnum að meta yfirburði flokksforingjans. Það er langt síðan menn fengu auga á hœstv. fjrh. og töldu æskilegt, að hann tæki þátt í stjórnmálum, löngu áður en hæstv. ráðh. fór sjálfur að hugsa um það. Sakir vitsmuna og atgervis teljum vjer hann vera facile primus inter pares. Þegar hann gerðist foringi Íhaldsflokksins, var hann óreyndur sem foringi. Nú hefir hann sýnt yfirburði einnig þar. Og það erum ekki við einir, sem viðurkennum þetta, heldur og andstæðingar, sem nú hefir sýnt sig. Og þessi viðurkenning andstæðinganna gleður mig ennfremur af því, að hún er mjer fyrirboði um aðra bardagaaðferð en áður. Mjer hefir fundist þess gæta lítið, að andstæðingar skýrðu rjett frá mönnum og málefnum. En mjer virðist þessi viðurkenning eins og ljós í myrkrinu, gefa vonir um drengilegri viðureign. Því mjer dettur ekki í hug, að andstæðingar okkar sjeu svo grunnhygnir, að þeir haldi, að þeir með þessu geti sáð sundurlyndisfræjum í ráðuneytinu. Jeg læt mjer ekki detta í hug, að þá skorti svo tilfinnanlega alla mannþekkingu. En það er skortur á mannþekkingu að halda, að hæstv. fjrh. blandi sjer í störf hinna ráðherranna. Hann er manna ólíklegastur til þess. Fyrir mitt leyti get jeg sagt það, að mitt mark hefir verið í því efni að koma því á, að hver ráðherra væri sem sjálfstæðastur og óháðastur um ráð þeirra mála, er undir hann eru lögð. Enda svaraði aðallega sjálfur til gagnvart þinginu. M. ö. o. þingið ætti aðallega aðgang að hverjum ráðherra út af fyrir sig um embætti hvers þeirra.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) ætla jeg ekki að svara miklu. Hafði jafnvel hugsað mjer að ganga alveg fram hjá ræðu hans. Hv. þm. hafði um mig þau lofsamlegu ummæli, að jeg vœri vel fallinn til þess að vera forsrh. fyrir alla þjóðina, en ekki eins fyrir sjerstakan flokk. Jeg verð að segja, að jeg hefi litið svo á starf mitt, að það væri fyrir alla þjóðina. Yfirleitt á jeg dálítið bágt með að skilja mig öðruvísi í stjórnmálunum en sem heimastjórnarmann, en sá flokkur hafði jafnan opið auga fyrir þörfum allra landsmanna, allra stjetta. Af því að jeg get ekki gert greinarmun á mönnum eftir flokkum, hefi jeg oft fengið að heyra, að jeg hallaðist að Alþýðuflokknum eða Framsóknarflokknum. En þetta tel jeg mjer einmitt til hróss. Að öðru leyti held jeg, að jeg vilji ekki svara þessum hv. þm. (MT). Jeg get sagt honum í einlægni, að jeg hefi aldrei bygt neitt á hans hlutleysi, svo að hann þurfti ekki að segja mjer neitt um þetta.

Um vantraust á bæjarfógetanum hjer þarf jeg ekki mikið að segja. En mjer þótti satt að segja heldur óviðkunnanlegt að heyra mann með lögfræðisprófi tala eins og þessi hv. þm. (MT) gerði, því að allir, sem til þekkja, vita, að þetta var sú eina rjetta leið, sem farin var.

Jeg held, að hv. flm. (JBald) hafi ekki sagt neitt, sem jeg þarf að svara. Þetta, sem hann las upp og hjelt að væri ákaflega skemtilegt, veit hann sjálfur, að er gersamlega þýðingarlaust og lítið spaugilegt.