14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í D-deild Alþingistíðinda. (3288)

137. mál, vantraust á núverandi landsstjórn

Bjarni Jónsson:

Jeg vona, að hæstv. forseti (BSv) telji mig ódauðlegan í þessum umræðum, eins og hæstvirta stjórn, því að svo ber við, að sumir hv. þm. telja mig jafnt í stjórninni og ráðherrana og hefja því óspart ádeilur á mig. Og þar sem margir herja, vona jeg, að hæstv. forseti skilji, að jeg þarf mörgum að svara.

Jeg vil þá fyrst víkja nokkrum orðum að hv. flm. tillögunnar (JBald). Jeg spurði hann í gær, hverja stefnu þessi nýja stjórn mundi taka í ýmsum málum, sem jeg lagði fyrir hann. En nú þykist hann ekki vita það, og hafði eftir mjer, að jeg mundi styðja þessa stjórn, meðan enginn byði betur. Þetta sagði jeg alls ekki. Jeg sagði, að mjer þætti „betri ein kráka í hendi en tvær í skógi“. Mjer þætti nefnilega betra að styðja þá stjórn, sem þegar hefði gengið inn á margt af stefnumálum flokks míns, heldur en aðra, sem engu vildi lofa.

Þá þótti mjer undarlega við bregða, þegar þessi hv. þm. fór að bregða mjer um, að jeg hjeldi uppboð á hugsjónum mínum. En jeg vil spyrja hv. þm.: Hvaða uppboð er það á hugsjónum, þó að maður fylgi þeim fram af fremsta megni?

Annars þýðir ekki um þetta að deila við þennan hv. þm. Hann skilur ekkert, hvað hugsjón er. En það vil jeg segja honum, að brigsl hans vinna ekkert á hugsjónum manna. Heimskan er heimska, og það jafnt þó að hún sje orðin svo rík, að ekki þýði að segja orð af viti. Annars hefir mjer oft sárnað, að Hannes Hafstein skyldi ekki fá heiðurslaun fyrir kvæðið, sem hann kvað til heimskunnar:

„Lútandi sit jeg hjer,

lofkvæði flyt jeg þjer,

alheimsdrotnandi,

aldrei þrotnandi,

þjettgjörva, þrekbygða,

þrautgóða, eldtrygða,

margreynda, háttvirta heimska ..“. Ættu menn að læra þetta kvæði, því að „sú háttvirta“ yrði þeim þá e. t. v. auðþektari.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að hv. þm. Str. (TrÞ). Hann vildi halda því fram, að einhver sjerstakur ráðherra bæri ábyrgð á fjárlögunum. En því get jeg ekki trúað, þar sem þm. ráða þó altaf atkvæðum sinum sjálfir, og þar af leiðandi hlýtur þingið í heild sinni að bera ábyrgð á, hvort heldur það eru fjárlög eða önnur lög. Það getur því ekki verið um að ræða, að einn ráðherra, frekar en aðrir þingmenn, beri ábyrgð á slíku.

Þá þótti þessum hv. þm. Það firn mikil, að jeg taldi það heimsku eina, ef fara ætti að rjúfa þing, af þeim ástœðum einum, að ekki væri víst, hvort stjórn hefði þingmeirihluta. Jeg stend fyllilega við þetta. Þingrof er þrautavopn, til þess að koma fram einhverri stefnu eða einhverju mjög þýðingarmiklu málefni. Annars eru þau ekki til neins. En hv. þm. var svo vænn að segja, að andstaða mín gegn þingrofi stafaði ekki af öðru en því, að jeg væn hræddur við nýjar kosningar. En jeg veit, að hann skilur, að öll slík hætta er fram hjá mjer liðin, þar sem hv. 5. landsk. (JJ) var svo góður að gera sjer ferð vestur hjerna um árið til þess að styðja mig, og hann sjálfur (TrÞ) núna síðast. Jeg veit því ekki, hvað getur komið fyrir næst, nema ef það skyldi verða, að þeir kæmu báðir saman, og það teldi jeg langtum skemtilegra, því að þess vissari er kosning mín, því meira sem þeir vinna á móti mjer. Jeg er því hvergi hræddur við næstu kosningar, enda þótt hv. þm. Str. verði á móti mjer, sem jeg tel enn þá mjög vafasamt.

Þá var þessi hv. þm. að tala um stefnumun aðalflokka þingsins. Jeg sje nú ekki, að á þessu þingi verði annað greint á milli þeirra en það, að Íhaldsflokkurinn hefir töluvert snúist til stefnu Sjálfstæðisflokksins. Og úr því að hv. þm. Str. finnur stjórninni það til foráttu, þýðir lítið fyrir hann að vera að mælast til skófna hjá mjer. (TrÞ: Jeg er ekki að því). Jú, þingmaðurinn var víst að því. Ef hann er þegar búinn að gleyma því, man hann ekki lengi, hvað hann segir.

Þá var hv. þm. að reyna að gera sig fyndinn þegar hann var að tala um stefnu Sjálfstæðisflokksins. Út af þeim ummælum skal jeg segja honum það, að stefna Sjálfstæðisflokksins hefir aldrei gengið í fötum nokkurs manns, Ekki einu sinni í fötum sessunauts míns, hv. 1. þm. Árn. (MT). Hún hefir altaf verið sú sama. En hv. þm. Str. virðist ekki kunna að gera greinarmun á stefnum og mönnum, og eftir skoðun sinni ætti hann að vera harðvítugur fylgismaður núverandi stjórnar.

Þá var þessi hv. þm. að tala um uppboð, og mjer skildist helst, að hann ætlaði að segja eitthvað ljótt um það. En það gerði hann ekki, sem ekki var heldur von, því að það er ekkert ljótt við það, þótt einn lítill þingflokkur spyrji hina stærri flokka um stefnur þeirra, til þess að vita, með hverjum hann geti helst unnið. Þetta er það eðlilega uppboð, sem altaf á sjer stað undir þessum kringumstæðum. Og hví skyldi maður ekki vera með þeim, sem vilja vinna að manns eigin stefnumálum, og víst er það, að enginn maður hefir rjett til þess að sitja á þingi, sem ekki á sín stefnumál og vill vinna að þeim. Hv. þm. þóttist vilja vægja mjer og segja ekki um mig svo ljótt sem jeg ætti skilið. En það þykir mjer leitt. Hann hefði átt að liða það vel í sundur, hversu svívirðilegt það væri að leita stefnu sinni fylgis á Alþingi og hjá stjórn með því móti, sem jeg hefi gert. Því að þá hefðu menn getað borið saman viðleitni Tímamanna og Alþýðubleðlinga og aðferðir þeirra til þess að fá sínum málstað fylgi.

Það er ekki rjett, að stefna Sjálfstæðisflokksins hafi ekki altaf verið ein og hin sama. Hún hefir verið og er: Ísland sjálfstæð og fullvalda þjóð, framkvæmd 7. gr. sambandslaganna óskeikul, og vitanlega að gæta hagsmuna þjóðarinnar í viðskiftum gagnvart öðrum ríkjum, frjáls verslun í frjálsri samkepni, vel grundvölluð æðri mentun og mikil og góð alþýðumentun, bygð á rjettum grundvelli.

Þetta hefði hv. þm. (TrÞ) átt að vera vorkunnarlaust að vita.