14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í D-deild Alþingistíðinda. (3292)

137. mál, vantraust á núverandi landsstjórn

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það mun þykja tilhlýðilegt, að jeg kvitti fyrir athugasemdirnar frá meðbróður mínum, hv. formanni Framsóknarflokksins (þorlJ). Hann hefir fallist á, að milli flm. vantraustsins (JBald) og flokks síns sje enginn ágreiningur um afstöðu til þeirra mála, sem eru orsök þess. Hann sagði, að Landsverslunin væri vígi. Jeg hefi líkt henni við hreiður. En jeg felst á, að samlíkingin um vígi sje eins góð. Hún er vígi fyrir þá, sem þar eru. Mjer þykir annars undarlegt, að þetta mál skuli gert að tilefni til vantrausts; því till. um steinolíuverslunina er ekki borin fram af stjórninni, heldur af þm. Það hefði því átt að lýsa vantrausti á meiri hl. þingsins. En þetta sýnir, að formælendur till. eru til neyddir, vegna skorts á tilefni gagnvart stjórninni, að grípa til þess að finna að ákvörðun meiri hl. þingsins.