14.03.1925
Efri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í D-deild Alþingistíðinda. (3303)

85. mál, orðabókarstarfsemi Jóhannesar L.L. Jóhannssonar og Þórbergs Þórðarsonar

Forsætisráðherra (JM):

Jeg hefi lítið að athuga við ræðu hv. 5. landsk. (JJ), annað en það, að jeg hygg, að hann hafi gert of lítið úr hæfileikum sjera Jóhannesar L. L. Jóhannssonar, því jeg hefi heyrt marga, sem vit hafa á þessum málum, telja sjera Jóhannes mjög vel að sjer í íslenskri tungu og því starfi sínu vaxinn. En það er satt, að altaf hefir verið hálfgert los á þessu starfi, aldrei verulega fyrirhugað, hvernig það skyldi unnið. Samt hefir sjera Jóhannes ásamt syni sínum, Jakob Smára, er um stund starfaði að orðasafni, gert tillögur um, hvernig því skyldi hagað. Hafa þær fengið fremur góðar undirtektir.

Ef það væri ætlunin að hafa sömu tilhögun við útgáfu þessarar orðabókar og ensku orðabókarinnar, sem kend er við Oxford, mundi kostnaðurinn ekki verða hundruð þús. kr., heldur skifta miljónum. En þótt aldrei eigi að gera meira en semja vísindalega sögulega íslenska orðabók í miklu minni stíl, þá er það rjett, að hún hlýtur að kosta hundruð þúsunda.

Sjera Jóhannes gaf í fyrra skýrslu til fjvn. um starf sitt. Taldi hann aðalverk sitt hafa verið fólgið í að orðtaka 32 rit. Seðlar yfir orð, sem hann hefir „orðtekið“, eru geymdir í kössum í landsbókasafninu og skifta tugum þúsunda.

Jeg get því búist við, að þótt hv. mentamálanefnd færi að athuga þetta, þá ætti hún örðugt með að dæma um verkið til hlítar.

Jeg efast ekki um, að hv. 5. landsk. (JJ) sje kunnugt um tillögur og drög sjera Jóhannesar til vísindalegrar íslenskrar orðabókar, af sýnishorninu, sem út hefir komið. En það er satt, að ekki er næg festa í þessu skipulagi enn þá, og verður sennilega ekki fyr en búið er að skipa nefnd manna með fullum launum til þess að vinna að verkinu, með samstarfi við ýmsa aðra, eins og sjera Jóhannes leggur til.

Þó breyta ætti til með fyrirkomulag á undirbúningi þessum, gæti ekki komið til mála að hrekja sjera Jóhannes frá starfinu, nema þá því að eins, að hann yrði látinn fá svo góð laun, að ekki væri hægt að segja, að hann hefði verið gabbaður. Svo stendur á, að hann var tekinn úr embætti til þess að vinna að þessu. Er því ekki hægt að tala um, að hjer sje um gustukamann að ræða, þar sem maðurinn er tekinn úr sæmilegu embætti til starfsins.

En ef þess þætti þörf að setja frekara eftirlit með þessu starfi en verið hefir, væri innan handar að fela það kennurunum í íslenskum fræðum í heimspekisdeild háskólans.

Um hinn manninn, sem tillaga þessi fjallar um, er alt öðru máli að gegna. Starf hans að orðasöfnun er ekki aðalstarf, heldur aukastarf, eða svo hefi jeg haldið að til væri ætlast. Hans starf hygg jeg sje bundið við nútíðarmál, og því skyldara starfsemi þeirri, sem bundin er við orðabók Sigfúsar Blöndals, en þeirri starfsemi er haldið áfram, þótt orðabókin sje út komin, og kostar orðabókin þá starfsemi framvegis.

Einmitt af þeim ástæðum feldi stjórnin niður af fjárlagafrv. fyrir 1926 styrk þann, er Þórbergur Þórðarson hefir haft til þessarar orðasöfnunar.

Skýrsla um starf sjera Jóhannesar liggur skrifleg fyrir og er svipuð skýrslu þeirri, er hann gaf í fyrra, að öðru leyti en því, að nú eru nefnd nokkur ný rit, sem hann hefir fengist við að orðtaka. Telur hann daglega vinnu sína vera um 6 stundir. Og öllum þeim, er þekkja, hversu slík störf eru erfið, mun þykja þetta fulllangur vinnutími.

Annars eru ekki allir íslenskufræðingar vorir þeirrar skoðunar, að bráða nauðsyn beri til að verja nú afarmiklu fje til vísindalegrar sögulegrar íslenskrar orðabókar. Meðal þeirra er prófessor Finnur Jónsson.

En hvað sem því líður, getur ekki komið til mála annað en láta sjera Jóhannes halda áfram við starf það, sem hann er ráðinn til, svo sem til hefir verið stofnað, ef þörf þykir undir eftirliti kennaranna í íslenskum fræðum við háskólann.