14.03.1925
Efri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í D-deild Alþingistíðinda. (3305)

85. mál, orðabókarstarfsemi Jóhannesar L.L. Jóhannssonar og Þórbergs Þórðarsonar

Forsætisráðherra (JM):

Jeg sje ekki ástæðu til þess að halda nú langa ræðu. Það er rjett hjá hv. flm. (JJ), að okkur skilur ekki fjarska mikið á um aðalatriði þessa máls, hvað til þess þurfi að gera vísindalega orðabók. Aðeins skilur okkur á í því, að jeg tel, að talsvert gagn muni vera að vinnu sjera Jóhannesar L. L. Jóhannssonar, og byggi jeg það á því, að hann er alment talinn fær til verksins, en hv. flm. (JJ) telur gagnið lítið. Það er að vísu svo, að sjera Jóhannes hefir ekkert háskólapróf í íslenskri málfræði, en hann hefir alla æfi lagt stund á þau fræði, og jeg trúi því, sem fróðir menn kunnugir segja mjer, að samt sje hann mjög vel að sjer í íslensku. Og menn vita það, að maður getur búið til góða orðabók, þó hann sje ekki málfræðingur. Þannig hefir ein fræg íslensk orðabók verið gerð af norskum presti.

Annars tek jeg það fram, og vil ekki þurfa að gera það aftur, að jeg tel ekki aðstöðu sjera Jóhannesar og Þórbergs sambærilega. Sjera Jóhannes hefir verið ráðinn til fulls starfs, en Þórbergur aðeins fengið styrk nokkum til aukastarfs. Þeir eru því alls ekki sambærilegir, þegar ræða er um skyldu ríkisins gagnvart þeim. Það er alt annað að vera ráðinn til fulls starfs eða njóta nokkurs styrks.