01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í D-deild Alþingistíðinda. (3312)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Hákon Kristófersson:

Hv. 2. þm. Skagf. (JS) hefir að vísu sagt margt af því, sem jeg vildi sagt hafa. En af því að hin rökstudda dagskrá hans er til umræðu, þá vildi jeg leyfa mjer að spyrja hann, hvort hann ætlast til þess, að hún taki til allra þeirra frv., sem fram hafa komið í þessu máli. (JS: Að sjálfsögðu). Ef svo er, mun jeg hugsa mig um áður en jeg greiði henni atkv. mitt.

Jeg hefi áður haldið því fram, að þessi mál mætti laga án þess að milliþinganefnd sje skipuð. Fyrst og fremst treysti jeg hæstv. stjórn mætavel til þessa, og í öðru lagi verður að taka tillit til þess, hve misjafnlega milliþinganefndir hafa gefist. Skyldu margar till. hinnar svokölluðu sparnaðarnefndar ná fram að ganga? Þó mun sennilega ærinn kostnað hafa af henni leitt.

Annars kvaddi jeg mjer einkum hljóðs að þessu sinni vegna þess, að jeg á frv. eitt, á þskj. 113, er þetta mál varðar og allshn. hefir haft til meðferðar. Jeg er sannast að segja mjög óánægður með meðferð nefndarinnar á því og kann henni engar þakkir fyrir. Jeg held, að það sje jafnan vafasöm aðferð af öllum nefndum að vísa frv. frá sjer að órannsökuðu máli, án þess að láta í ljós skoðun sína á þeim, og láta síðan deildina gera hið sama. Auðvitað er ekkert við því að segja, þótt frv. sjeu feld. En sú aðferð, er hv. allshn. hefir beitt hjer, er ekki viðeigandi.

Jeg get ekki heldur betur sjeð en að rjett hefði verið af allshn. að athuga frv. mitt og af deildinni að samþykkja það, jafnvel þótt milliþinganefnd yrði skipuð. Jeg sje ekki, að samþykt frv. hefði á neinn hátt þurft að tefja fyrir skipun slíkrar nefndar. Frv. fer aðeins fram á að draga úr ósamræmi, sem hefir átt sjer stað milli sveitar- og bæjarfjelaga, eins og t. d. milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Jeg er satt að segja hissa á framkomu nefndarinnar í þessu efni. Jeg álít, að nefndin sje svo skipuð, að henni hefði ekki verið ofurefli að athuga og komast að niðurstöðu um þetta atriði. Jeg get því ekki litið öðruvísi á en að hv. allshn. hafi brostið vilja til að afgreiða málið og hafi viljað velta af sjer vandanum.

Hvað sem öðru líður, á allshn. fullkomna óþökk skilið frá mjer fyrir meðferð sína á frv. mínu, og skora jeg því hjer með á nefndina að koma með þetta frv. fram og leggja með því eða á móti. Að öðrum kosti tel jeg nefndina sýna ókurteisi, sem nefndum þingsins er ekki samboðin.

Hv. frsm. (BSt) talaði um, að ekki væri hægt að taka eitt frv. út úr, heldur yrðu þau öll að fara í sömu gröf. (BSt: þetta er ekki rjett, því eitt var tekið út úr, frv. hv. þm. Ak. (BL)). Hinsvegar sagði hann, að till. þyrftu að koma fram um málið í heild, líklega til þess að milliþinganefnd gæti bygt á þeim till. Sagði hann þetta fyrir hönd sína eða nefndarinnar? (BSt: Jeg svara því síðar). En mjer finst það meira en lítil ónærgætni af nefndinni að ætlast til þess, að nokkuð það komi fram undir umræðunum, sem milliþinganefnd geti bygt á, í máli, sem hv. allshn. treystir sjer alls ekki til að ráða við.

Hv. 2. þm. Skagf. (JS) benti á kostnaðarhliðina og gerði ráð fyrir því, að þessi nefnd mundi kosta ríkið ca. 20 þús. kr. Jeg er þess fullvís, að hv. þm. hefir lagt þetta niður fyrir sjer og bygt á rökum þessa lauslegu áætlun sína. Jeg ætla nú ekki að fara að hrekja þetta, en satt að segja hefði jeg haldið, að þessu mætti stilla svo í hóf, að nefndin þyrfti ekki að kosta svona mikið. En jeg játa það, að eftir reynslu undanfarinna ára má búast við, að nefndin kosti þetta og kannske meira.

Jeg býst við því, að hvernig sem málið verður afgreitt frá þingsins hálfu, þá verði á því einhverjir agnúar. Mjer kemur það alls ekki á óvart, að þótt þessi væntanlega milliþinganefnd verði skipuð, þá hepnist henni ekki að ganga svo frá málinu, að ekki verði það rifið niður meira eða minna, sem hún leggur til, jafnt og þótt stjórnin undirbyggi málið. Jeg væri því reiðubúinn til þess að greiða dagskrá hv. 2. þm. Skagf. (JS) atkvæði, ef henni fylgdi ekki sá hængur, að með henni er loku skotið fyrir það, að mitt frv., sem jeg tel sjálfsagt að verði að lögum, nái að koma fyrir þingið. Það er þá úr sögunni. En jeg er nú hræddur um það, þar sem öll allshn. stendur saman að þessari till., að frv. sje úr sögunni hvort sem er. Jeg ætla ekki að fara út í það, sem hv. frsm. (BSt) talaði um samkomlag milli flokka þingsins um skipun nefndarinnar. Jeg er viss um, að hv. frsm. hefir gert sínar till. allar af góðum hug.

En jeg býst við því, er jeg hefi nú athugað alla málavexti, og einkum þar sem jeg hefi nú heyrt yfirlýsingu hv. allshn. um, að hún ætli ekki að láta frv. mitt koma fyrir þingið, að þá verði jeg að greiða dagskránni atkv. mitt En það mundi breytast, ef form. allshn. vildi lofa því fyrir nefndarinnar hönd, að frv. skuli koma fram, sem jeg reyndar að þessu hefi treyst á, og ekki að ástæðulausu.