01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (3313)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Klemens Jónsson:

Það lítur enn út fyrir langar og miklar umr., líkt og stundum fyr, um þetta mál, en jeg ætla mjer ekki að lengja þær að raunalausu. Jeg vil þá byrja á því að benda á, að fátækra- og sveitarstjórnarlögin frá 1905 voru í upphafi svo vel undirbúin, sem frekast voru föng á. Jeg efast um, að nokkur meiri háttar lög hafi, að öllu athuguðu, verið jafnvel undirbúin, enda var milliþinganefndin, sem undirbjó þau lög, skipuð mjög hæfum mönnum. Hún sat æðilengi á rökstólum, enda komu frá henni frv. svo vel rökstudd, að þau hafa reynst ágætlega alt fram á þennan dag. Mjer var fullkunnugt um starf þessarar nefndar vegna embættisstöðu minnar þá. Frv. frá henni voru send stjórninni til athugunar, og fann hún ekki mikið að athuga við þau. Jeg var líka nákunnugur framkvæmd þeirra í 12 ár, því síðasti úrskurður í þessum málum heyrir undir stjórnarráðið. En þótt þessi lög væru í upphafi svona vel undirbúin, þá leið þó ekki á löngu áður en farið var að krukka í þau, einkum ákvæðin um útsvarsskyldu. Það hefir varla liðið það þing, að ekki hafi verið reynt að breyta þeim að einhverju leyti, og því miður oft hepnast. Þannig hafa komið inn breytingar, sem hvorki eru í samræmi við lögin sjálf, og því síður önnur samskonar lög, t. d. bæjarstjórnarlögin. Glundroðinn hefir því altaf farið vaxandi, og er nú svo komið, að ekki verður hjá því komist að reyna að bæta úr þessu. Þá er að athuga þær leiðir, sem hægt er að fara til þess, hvort heldur eigi að skipa milliþinganefnd, eða að öðrum kosti hvort stjórnin treysti sjer til þess að undirbúa málið sjálf undir næsta eða næstu þing.

Jeg skal sjerstaklega geta þess, að löggjöf kaupstaðanna hefir ár frá ári líka verið að fjarlægjast hver aðra. Löggjöf Ísafjarðar- og Akureyrarkaupstaða frá 1883 var upphaflega miðuð við löggjöf Reykjavíkur, og löggjöf Seyðisfjarðarkaupstaðar sniðin eftir Akureyrar, nema hvað breyttir staðhættir heimtuðu á annan veg. En þótt löggjöf hvers kaupstaðar væri sniðin eftir eldri fyrirmyndum, þá var farið að breyta þeim áður langt leið, svo að hjer kom sama ósamræmið inn. Þetta þarf að laga, og það er ekki svo erfitt, að jeg get vel búist við því, að hæstv. stjórn muni treysta sjer til að gera það án milliþinganefndar. Jeg tel ekki heldur til of mikils mælst, að stjórnin geri till. um lagfæring á fátækralögunum án þess að milliþinganefnd komi til.

En hvað snertir sveitarstjórnarlögin, þá efast jeg um, að stjórnin treysti sjer til þess að lagfæra þau eftir þeim kröfum, sem fram hafa komið. Vildi jeg gjarnan heyra yfirlýsingu hæstv. stjórnar um þetta, hvort hún treystist til þess sjálf eða hvort hún kýs fremur, að til þess verði skipuð milliþinganefnd.

Hv. 2. þm. Skagf. (JS) gat um kostnað við slíka milliþinganefnd sem þessa og bjóst við því, að hann yrði talsvert mikill. Nefndi hv. þm. 20 þús. kr., og þótt hann tiltæki þá upphæð nokkuð af handahófi, þá mun mig ekkert undra, þótt kostnaðurinn nálgist þetta. Þó fer það nokkuð eftir því, hvort nefndarmenn verða teknir utan Reykjavíkur eða ekki. Ef nokkrir þeirra verða teknir utan Reykjavíkur og þurfa að ferðast þangað, því jeg tel sjálfsagt, að nefndin starfi hjer, þá mun kostnaður sjálfsagt komast hátt upp í 20 þús. kr. En jeg skal játa það, að jeg geri ekki svo mikið úr þessum kostnaði, ef svo mætti til takast, að nefndin gæti lokið svo störfum sínum, að viðunandi væri, og menn gætu losnað við þann glundroða, sem nú ríkir, um nokkuð langan tíma. Það er æskilegt og mikið til þess vinnandi að fá góða skipun á þessi mál, svo að þingið þurfi ekki að fjalla um þau aftur og aftur. Líka má geta þess, að þótt stjórnin vildi undirbúa málið sjálf, þá mun hún þurfa á aðstoð að halda, og hún kostar eitthvað. Stjórnarráðsskrifstofumar hafa nóg að starfa að undirbúningi ýmsra mála, þegar ekki líða nema 9 mánuðir milli þinga. Enda mun það nú vera siður að leita út fyrir stjórnarráðið um aðstoð lögfræðinga við samning lagabálka, svo að kostnaðarlaus yrði þessi undirbúningur aldrei. Sem sagt, aðalatriði málsins er það, hvort hæstv. stjórn treystist til þess að undirbúa málið á eigin spýtur, eða óskar, að sett sje milliþinganefnd til þess. Eftir undirtektum hæstv. stjórnar í þessu atriði fer það, hvernig jeg greiði atkvæði um málið. Ef stjórnin óskar eftir milliþinganefnd, þá mun jeg greiða henni atkvæði. En ef hún álítur sjer fullkomlega fært að undirbúa málið sjálf, þá mun jeg greiða atkvæði með dagskrá hv. 2. þm. Skagf. (JS).