01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í D-deild Alþingistíðinda. (3314)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Jeg var svo óheppinn að vera kvaddur í síma meðan hv. 2. þm. Skagf. (JS) hjelt ræðu sína, svo að jeg heyrði hana ekki alla. En eftir því, sem mjer virtist, þá var hún að miklu leyti bygð á einum höfuðmisskilningi á orðum mínum. Jeg get ekki betur heyrt en að hv. 2. þm. Skagf. áliti, að jeg hefði verið í minni ræðu að tala fyrir öllum þessum málum, sem fyrir nefndinni lágu, að undanskildu máli hans sjálfs. Jeg drap aðeins á það, að þessi mál þyrfti að athuga. Jeg gaf ekki upp neitt álit um það, hvað jeg teldi eiga fram að ganga af þessum frv. og hvað ekki. Nefndin hefir ekki tekið neina ákvörðun um það nje bundið sig á neinn hátt. Hv. þm. (JS) var meðal annars að furða sig á því, að fram skyldi koma hjá mjer sú skoðun, að meina sveitunum að krefja heim þurfalinga sína. Jeg lýsti þessu ekki sem minni skoðun. Jeg skýrði aðeins frá því sem uppástungu, sem fram hefði komið í þinginu og rjett væri að athuga. Og ef horfið væri að því ráði, þá yrði að athuga vel, hverjar afleiðingar það kynni að hafa. Jeg var ekki að halda því fram, að þetta bæri að gera. Sama er að segja um þá uppástungu að gera fátækraframfærið sameiginlegt fyrir alt landið. Jeg gat þess, að í eðli sínu væri fátækraframfærið alþjóðarmál, en af praktiskum ástæðum vœri því skift milli einstakra sveita. Jeg benti á það misrjetti, sem af þessu leiddi milli sveitanna, en jeg hjelt því ekki fram, að ríkið ætti að taka fátækraframfærið í sínar hendur, heldur hinu, að vert væri að taka til athugunar, hvort ekki mætti finna heppilega leið til að draga úr þessu misrjetti. Þá hjelt hv. þm. því fram, að ef allshn. hefði athugað þessi mál með fullri alvöru, þá mundi hún hafa getað afgreitt þau. Mátti skilja á honum, og eins hv. þm. Barð. (HK), að þeir álíti, að það stafaði af leti allshn., að till. þessi er fram komin. Það má nú vera, að allshn. hefði getað afgreitt þessi mál, ef hún hefði ekki haft neitt annað að gera. En eins og jeg tók fram, hefir hún mörg önnur mál með höndum. Og þessi mál öll taka svo mikið til þjóðarinnar, hjer er svo margvíslegra hagsmuna að gæta, að það þarf áreiðanlega mjög víðtæka þekkingu á þjóðarhag og atvinnurekstri til þess að skipa þeim svo að vel sje. Það sæti ekki á mjer að neita því, er hv.2. þm. Skagf. sagði um allshn., að hún væri skipuð mjög góðum mönnum. En þótt svo sje, þá er hún hlaðin öðrum störfum og hefir svo lítinn tíma í samanburði við þau störf, sem hún þarf að vinna, að engin von er til þess, að hún geti á svo stuttum tíma aflað sjer allra þeirra upplýsinga, sem nauðsynlegar eru í þessu efni. Jeg get hugsað mjer, að til þess þurfi að fá skýrslur víðsvegar utan af landi.

Þá vildi hv. 2. þm. Skagf. (JS) halda því fram, að fátækralöggjöfin, a. m. k. það, hvað kallast ætti sveitarstyrkur, væri svo þrautrætt atriði og hugsað, að það mundi ekki breyta neinu, þótt milliþinganefnd athugaði það. Þingmenn hefðu í því efni sínar ákveðnu skoðanir, og þeim mundu þeir ekki breyta, þótt álit milliþinganefndar kæmi til. Þetta kann að vera. En jeg efast þó um það, að þingmenn hafi yfirleitt getað gert sjer ljóst, hvaða afleiðingar breytt skipulag í þessu efni kynni að hafa í ýmsar áttir. Hann hjelt því fram, að þessum málum bæri að vísa til stjórnarinnar. Með þessu finst mjer hv. þm. (JS) viðurkenna það, að ekki sje á færi þingnefndar, sem auk þess er hlaðin öðrum störfum, að athuga málið svo að vel sje.

Hv. þm. (JS) talaði um reynslu undanfarinna ára viðvíkjandi milliþinganefndum og hjelt því fram, að starf þeirra væri dýrt og ekki mikils virði. Þetta getur verið rjett hvað sumar þessar nefndir snertir. En í þessu máli tel jeg sanngjarnast og rjettast að miða við þá reynslu, sem áður er fengin á þessu sviði. Þegar þessum málum var síðast skipað, 1905, þá var til þess valin milliþinganefnd, og öll löggjöf í þessu efni hefir verið bygð á starfi þeirrar nefndar. Jeg verð því að líta svo á, að það, sem í þessu efni hefir áður gefist vel, ætti að gera það enn.

Hv. þm. Barð. (HK) þarf jeg ekki að svara miklu, því það komu fram hjá honum sömu skoðanir í þessu efni og hjá hv. 2. þm. Skagf. (JS), og hefi jeg svarað þeim með því, er jeg hefi nú tekið fram. Hann talaði um þann mikla kostnað, sem leiða mundi af skipun milliþinganefndar. Jeg játa, að af því mundi að sjálfsögðu leiða kostnað, hjá því er ekki hægt að komast. En jeg býst við því, að það hafi líka kostnað í för með sjer að taka þessi frv., sem hv. þm. talaði um, og láta ræða þau hjer, eins illa og þau eru undirbúin. En kæmu hjer fram ákveðnar till., bygðar á ákveðinni stefnu í þessu máli og með fullu samræmi, þá mundi kostnaðurinn við undirbúning málsins vinnast upp á því, að þingið þyrfti miklu minni tíma til þess að afgreiða það. Og eins og hv. 2. þm. Rang. (KIJ) tók fram, þá er ekki hægt að komast hjá aukakostnaði heldur, þótt hæstv. stjórn taki málið til rannsóknar og undirbúnings. Sú aðstoð, sem stjórnin þarf að fá, kostar eitthvað líka.

Hv. þm. (HK) áleit, að nefndin hefði með till. vísað frá sjer ákveðnum tillögum, sem fyrir henni lágu. Vildi hann, að nefndin hefði tekið afstöðu til þeirra, annaðhvort með eða móti. Það er nú talsvert langur tími síðan þessari till. til þál. frá nefndinni var útbýtt hjer í deildinni, og gerði nefndin ráð fyrir því, að hún yrði tekin nokkuð fljótt á dagskrá. Og ef hv. deild sýnist það að fella till., þá er ekki víst nema nefndin geti sagt álit um eitthvað af þeim till. í þessu máli, sem fyrir henni liggja. Hv. þm. sló því reyndar fram, að nefndin hefði ekki viljað neitt um málið hugsa. Því vil jeg algerlega mótmæla. Hún hefir einmitt talsvert um það hugsað og tekið hverja einstaka till. til meðferðar, þótt þessi hafi orðið niðurstaðan.

Jeg skal ekki gera það að neinu kappsmáli, hvort þáltill. verður samþ. eða dagskráin. Báðar fara fram á það sama, að mál þetta verði undirbúið og rannsakað frekar en kostur er á nú á þessu þingi. En eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, þá tel jeg samt heppilegra að skipa nefnd. Jeg býst við því, að hæstv. atvrh. (MG), sem þetta mál heyrir undir, hafi ekki mikinn tíma til þess að rannsaka málið sjálfur til hlítar. Og yrði því vísað til stjórnarinnar, þá mundi aðferðin verða sú, að hlutaðeigandi skrifstofa mundi vinna að því og svo keypt aukaaðstoð. En eins og eðlilegt er, þegar skrifstofur eiga að vinna að slíkum málum, þá eru þær auðvitað vel kunnugar þeirri löggjöf, sem fyrir er, og framkvæmd hennar, það skal jeg játa. En jeg býst við, að nefnd yrði kunnugri lífi þjóðarinnar og geti því gert sjer ljósara heldur en skrifstofa, hvaða breytingar er nauðsynlegt að gera vegna breyttra atvinnuhátta o. s. frv. Og þess vegna mundi það vera betra fyrir stjórnina að fá nefnd sjer til aðstoðar. Jeg vil í því sambandi benda á það, að með till. þessari er hæstv. stjórn ekki sýnd nein óvirðing. Hún ber ekki með sjer neitt vantraust, enda er hæstv. atvrh. eftir henni œtlað að skipa formann nefndarinnar.

Það er aðeins með það fyrir augum, að málið verði sem best athugað, að allshn. ber fram þessa till.

Hv. þm. Barð. (HK) furðaði sig á því, að jeg teldi æskilegt, að hv. þm. gœfu þessari fyrirhuguðu nefnd bendingar um þessi mál í umræðunum. Og virtist hann skilja þetta sem kröfu frá mjer til hv. þm. En jeg gerði enga slíka kröfu. Hv. þm. ráða því auðvitað sjálfir, hvort þeir tala fleira eða færra um þessi mál. En hitt taldi jeg æskilegt, að það, sem hv. þm. segðu um þessi mál í umr. um þessa till., gæti orðið til leiðbeiningar fyrir nefnd þá, sem ráðgert er að skipa. Jeg sný ekki aftur með þetta, en hitt var alls ekki meining mín, að skylda hv. þm. til að standa upp og segja frá því, hvaða skoðun þeir hefðu á sveitarstjórnar- og fátækralöggjöf yfirleitt.

Hv. 2. þm. Rang. (KIJ) ætla jeg ekki að svara miklu. Hann tók yfirleitt vel í málið, þótt hann væri hinsvegar ekki alveg ákveðinn í því að greiða till. atkvæði sitt. Hann tók það rjettilega fram, að þessi lög, sem á sínum tíma voru samin af milliþinganefnd, hefðu reynst vel. En eins og jeg hefi áður talað um, þá hefir svo margt í okkar þjóðlífi breyst svo mjög frá því, er þau voru sett, að engin furða er, að þörf sje orðin á að endurskoða þau. Skal jeg láta mjer nægja að geta um eitt atriði.

Í núgildandi sveitarstjórnarlögum er nálega alt miðað við sveitirnar, en svo eru aftur sjerstök lög fyrir kaupstaðina. En nú hafa kauptúnin vaxið mjög ört á síðari tímum, og sum þeirra orðin talsverðir bæir, þótt ekki hafi þau kaupstaðarrjettindi. En það liggur í augum uppi, að það sama getur ekki átt við í þeim og í sveitum. Nú veit jeg ekki til, að það hafi verið rannsakað til neinnar hlítar, hvernig best sje hægt að gera greinarmun á þeim og sveitunum, eða m. ö. o. hvað eigi að vera sjerstakt fyrir sveitir og hvað fyrirkauptún. Mjer er það ljóst, að þar þarf ýmisleg sjerákvæði og full þörf á, að það sje athugað. T. d. eiga ekki við sömu starfshættir í stjórn sveita og kauptúna. Vil jeg í því efni benda á, að vel getur verið, að í kauptúnum sje heppilegt, að reikningsár þeirra sje almanaksárið, í stað fardagaárs, eins og frv. til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögunum, er hjer lá fyrir, gerði ráð fyrir, en í sveitum tel jeg vafasamt, að slík breyting á reikningsárinu sje til bóta. Og þannig er margt, sem betur þarf að athuga.