22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í D-deild Alþingistíðinda. (3326)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Það er orðinn siður sumra hv. þm., að þegar þeir ætla ekki sjálfir að tala, þá hrópa þeir á atkvæðagreiðslu og heimta, að umræðurnar sjeu skornar niður, eins og hv. þm. Ak. (BL) gerir nú. Og það eru ekki altaf þeir, sem minst tala, sem hæst hrópa um þetta. Jeg ætla að láta háttv. deild vita það, að jeg bið engrar afsökunar á því, þó að jeg kveddi mjer hljóðs, til þess að leiðrjetta ummæli, sem rangt voru eftir mjer höfð. Jeg þykist ekki hafa tafið deildina úr hófi fram og mun ekki gera. Það voru ummæli hv. 2. þm. Skagf. (JS), sem komu mjer til þess að segja fáein orð. En jeg fer fljótt yfir og vík ekki að öllu, sem ástæða væri þó til að minnast á.

Hv. þm. (JS) tók fram, að sjer hefði fundist ræða mín í dag að mestu leyti endurtekning þess, sem jeg sagði hjer við fyrri umræðu þessa máls. Jeg verð að segja, að mjer fanst það sama um hans ræðu. Hann talaði um, að hann hefði ekki búist við umræðum nú, en svo hefði tveimur mönnum úr allshn. þótt liggja svo mikið við, að þeir hefðu staðið upp til þess að verja tillögu nefndarinnar. Jeg skal benda á, að jeg bað ekki um orðið, þegar málið var tekið á dagskrá, og enginn úr nefndinni, fyr en andmæli gegn till. nefndarinnar voru komin fram. Hv. 2. þm. Skagf. vildi skilja orð mín svo, að jeg væri, að halda fram till. um að banna fátækraflutning o. s. frv. Það getur verið, að hv. þm. (JS) hafi skilið orð mín svo. En jeg var aðeins að skýra frá þeim uppástungum og kröfum, sem komið hefðu fram og athuga þyrfti, án þess að jeg dæmdi nokkuð um rjettmæti þeirra Jeg sagði aðeins, hvað nefndin hefði haft til meðferðar og hvað það væri, sem hún ætlaðist til að milliþinganefnd tæki til meðferðar. Annars veit hv. 2. þm. Skagf. það vel, að jeg hefi aldrei haldið þeim skoðunum fram, sem hann gat um. Hv. 2. þm. Skagf. hjelt því fram, að reynsla sú, sem fengin væri um milliþinganefndir, væri ekki góð; þingið hefði sjaldan getað bygt á starfi þeirra. Jeg hefi heyrt þessu haldið fram fyr, og jeg veit, að starf sumra milliþinganefnda hefir lítinn árangur borið, en þó býst jeg við, eins og hv. 2. þm. Rang. (KlJ) vjek að, að árangurinn af starfi milliþinganefnda sje meiri en alment er álitið og að mörg mál hafi grætt ómetanlega á rannsókn slíkra nefnda, jafnvel þótt till. þeirra hafi ekki verið samþyktar. Hv. 2. þm. Skagf. hjelt því fram, að sú aðstoð, sem stjórnin þyrfti að kaupa við rannsókn málsins, yrði ekki dýr, en gat þess, að kostnaðaráætlun sín um, að milliþinganefnd kostaði 20 þús. kr., hefði ekki verið vjefengd.

Jeg hygg, að hann viti ekki, hvað þessi keypta aðstoð mundi kosta. Það er svo að sjá, sem hann geri sjer hugmynd um, hvað milliþinganefnd mundi kosta, en hitt hefir ekki verið nefnt.

Þá ætla jeg að drepa á það atriði, sem snertir kosningu í nefndina, ef til kæmi. Það var talað um, hvort Framsóknarflokkurinn ætlaði að víkja úr sæti, til þess að jafnaðarmenn gætu komið manni að í nefndina. Jeg tók fram í framsöguræðu minni við fyrri umræðu þessa máls, að það, sem jeg sagði um þetta atriði, væri sagt fyrir minn eigin reikning, sem sje að jeg teldi æskilegt, að allir flokkar þingsins hefðu sinn manninn hver í nefndinni, án tillits til stærðar flokkanna. Þetta ber því ekki að skilja sem talað fyrir hönd neins sjerstaks flokks, nje heldur þeirrar nefndar, sem flytur málið, heldur er það bara eigin skoðun. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) færði áðan skýr rök að því, að þetta væri æskilegt, til þess að allar hliðar yrðu athugaðar sem best. Jeg álít, að ef nefndin væri þannig skipuð, að í henni ættu sæti aðeins fulltrúar ákveðinna stjetta, en aðrar stjettir væru útilokaðar, mundi starf hennar ekki bera eins mikinn árangur og ella. Jeg vænti þess, að bæði minn flokkur og hv. Íhaldsflokkur sýni þá sanngirni að hafa þessa aðferð.

Þá talaði hv. þm. (JS) eins og jeg álíti, að ef málið kæmi frá milliþinganefnd, þyrfti ekki um það að ræða í þinginu. En skoðun mín er sú, að þá þurfi minna um það að ræða og gæti því orðið lokið á einu þingi. (JS: En tillaga mentamálanefndar?). Það er ekki sjeð fyrir endann á því enn.

Jeg skal gera það hv. þm. til geðs að tala ekki meira, enda þótt fleiri atriði væru í ræðu hv. 2. þm. Skagf., sem vert væri að víkja að.