22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í D-deild Alþingistíðinda. (3330)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Árni Jónsson:

Það er aðeins af því að jeg er í þessari nefnd, að jeg vildi segja örfá orð áður en atkvgr. fer fram. Hv. frsm. allshn. (BSt) hefir lýst yfir því, að ef hæstv. stjórn vildi lofa því að vinna að þessu máli jafnvel og ef það hefði farið til milliþinganefndar, sæi hann ekki ástæðu til að vera á móti því, að því yrði vísað til hennar. En það er dálítið einkennilegt að fara fram á þetta við stjórnina, því að hún getur ekkert um það sagt. Það fer auðvitað eftir því, hvernig skipað verður í nefndina, og þess vegna væri það ofmetnaður af stjórninni að segja sem svo: Jeg skal treysta mjer til að koma með till. í þessu máli, sem verða samþyktar. Mjer skilst því, að atkvgr. okkar hljóti að fara eftir því, hve vel við treystum stjórninni í þessu máli, og því má ekki furða sig á því, að við hv. þm. V.-Sk. (JK) og jeg, sem báðir eigum sæti í allsherjarnefnd, viljum vísa málinu til stjórnarinnar. En annars skal jeg taka undir það, sem hv. form. nefndarinnar (MT) ljet í ljós í fyrri ræðu sinni, að eins og þessi mál öll lágu fyrir í nefndinni, var ekki um annað að gera en að vísa þeim til stjórnarinnar eða að skipa milliþinganefnd í þau, því að hættan var í því fólgin, að þau næðu ekki fram að ganga, og þó að sum málin hefðu gengið fram, þá hefði sami glundroðinn verið á löggjöfinni allri, en það var einmitt það, sem þessi nefnd átti að undirbúa, að samræma alla þessa löggjöf.