21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í D-deild Alþingistíðinda. (3338)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal taka það fram út af því, sem hv. 5. landsk. (JJ) sagði, að mjer dettur ekki í hug að sækja þetta mál með kappi. Ef nefnd verður skipuð, losar það mig við persónulega vinnu, en hinsvegar er það mitt álit, að engin stjórn geti skorast undan því að undirbúa löggjöf landsins, og að því er þetta mál snertir, þá álít jeg henni ekki ofætlun að búa það sæmilega undir næsta þing.

Jeg vil benda á, að það eru ekki mjög mörg atriði, sem farið hefir verið fram á að breyta í þessari löggjöf, enda var hún upphaflega einhver hin best undirbúna, sem jeg þekki. Þess vegna er enn þá í lögunum fjöldi ákvæða, er ekki hefir verið talað um að breyta. Það er þegar búið að breyta ákvæðinu um sveitfesti. Þá er útsvarsskyldan mál, sem altaf er deilt um. Einhverjar brtt. um það efni hafa komið fram svo að segja á hverju þingi síðan 1911. Sjest af því, að það atriðið er mikið deiluefni, og er hætt við, að þar verði aldrei allir á eitt sáttir. Jeg tel ekki sjerlega mikið verk að undirbúa þessi lög um útsvarsskyldu, en jeg játa, að það er vandaverk, og má búast við, að menn verði aldrei ánægðir til lengdar, hvernig sem þau verða úr garði gerð. Sterkar raddir hafa komið fram um, að breyta þyrfti reikningsárinu, og sennilega er mikil þörf á því. Þá er og mikið deilt um, hvað teljast skuli fátækrastyrkur og afleiðingar hans. Þetta eru helstu atriðin, sem talað hefir verið um að breyta þyrfti. Jeg get sagt hv. 5. landsk. (JJ), að jeg tel það alls ekki kasta neinum skugga á mig, þó að samþykt verði að skipa milliþinganefnd, svo að þess vegna geri jeg þetta ekki að neinu kappsmáli. En mjer sýnist, eins og málið horfir við, að ekki sje þörf á að leggja í þann kostnað, sem slík nefnd hlyti að hafa í för með sjer. Milliþinganefndir eru venjulega nokkuð dýrar. Mikill kostnaður fer í prentun og pappír, og yfirleitt er ekki gætt eins mikils sparnaðar og stjórnin sjálf mundi gera.

Ef stjórninni væri falið að undirbúa málið, býst jeg við, að hún mundi leita álits bæjar- og sveitarstjórna um, á hvaða atriðum óskað væri breytinga. Ætti þá fremur að vera hægt að taka afstöðu til þess á næsta þingi, hvort skipuð skyldi nefnd til þess að athuga lögin í heild. Það er auðvitað, að þegar samin eru lög um útsvarsskyldu og slíkt, verður að taka tillit til allra stjetta.

Jeg staðhæfi ekkert um það, hvort þetta mundi verða betur af hendi leyst hjá nefnd heldur en einstökum manni. En jeg hygg, að ráðh., með þeirri hjálp, sem hann gæti aflað sjer, mundi slaga hátt upp í nefnd. Jeg efast um, eins og till. er orðuð, að kosning nefndar tækist svo, að hún yrði „repræsentant“ fyrir alla flokka og stjettir. Það yrði að minsta kosti vandi að finna slíka menn. Svo gæti nefndin hæglega klofnað. Mjer þótti leitt að heyra hjá hv. 5. landsk. (JJ), að hann virtist telja víst, að ef stjórnin undirbyggi málið, mundi það ekki komast gegnum þingið. Jeg vil þó ekki taka þetta svo, að hv. þm. (JJ) sje fyrirfram ákveðinn í því að vera á móti öllu, sem stjórnin gerir. En jeg vil benda honum á, að það liggur mjög beint við, að nefndin geti klofnað, og þá væri málinu ekki betur borgið. Hv. þm. (JJ) mintist á, að fá af frv. stjórnarinnar næðu fram að ganga. Jeg fyrir mitt leyti þarf ekki að kvarta yfir því enn þá. Mín frv. hafa hingað til gengið greiðlega í þinginu og sum þegar orðin að lögum, jafnvel alveg breytingalaust. Reyndar er eitt frv. hjá hv. allsherjarnefnd þessarar deildar, sem hún hefir ekki hreyft við og ætlar víst ekki að gera. En það er ef til vill af því, að það er skylt þessu máli. Út af því, sem hv. þm. (JJ) sagði um þessa miklu slátran stjórnarfrumvarpa, skal jeg benda á, að 2 eða 3 þeirra voru frá nefnd, sem skipuð var, og flutti stjórnin þau óbreytt frá þeirri nefnd. Bendir það á, að ekki sje einhlítt fyrir framgang mála, að þau sjeu undirbúin af nefndum. Jeg er ekki að gefa í skyn, að þessi frv. hafi verið illa undirbúin. Jeg bendi aðeins á þau til dæmis um það, að frv. geta fallið engu að síður, þó að nefnd hafi um þau fjallað.