21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í D-deild Alþingistíðinda. (3343)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Eggert Pálsson:

Hv. meðnefndarmenn mínir hafa nú gefið skýringu á gangi og undirbúningi þessarar þáltill. í allshn. Ed. og að nokkru leyti allshn. hv. Nd. Jeg finn ekki betur en að báðir skýri fyllilega rjett frá því, sem gerðist í nefndinni, en þess ber að gæta, að þeir líta misjöfnum augum á málið, og er það ekki nema eðlilegt.

Hvað mig snertir, þá var jeg samnefndarmönnum mínum alveg samdóma um það, að ekki gæti komið til mála að afgreiða sem lög á þessu þingi öll þessi mörgu frv. um breytingar á sveitarstjórnar- og fátækralöggjöfinni, sem fyrir liggja, því að það hefði ekki getað orðið nema með handahófsafgreiðslu.

Var því ekki nema um þrjár leiðir að velja. Fyrst að leggjast á málin og láta þau ekki koma fram úr nefnd. En sú leið fanst mjer ekki þinginu samboðin. Í öðru lagi var um þá leið að ræða að vísa þeim til stjórnarinnar með dagskrá. En það var líka vandræðaleið. Þá var þriðja leiðin sú að vísa þeim frá með þingsályktun, sem næði til þeirra allra. Þetta fanst mjer óneitanlega besta leiðin. En þá var spurningin, hvernig sú þál. ætti að vera. Og sáum við ekki aðra leið fullkomnari en að bera fram tillögu þá, sem hjer liggur fyrir.

Jeg neita ekki, að hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) hafi komið fram með tillögu um að vísa þessum málum til stjórnarinnar. En sú tillaga kom aldrei fram í skriflegu formi og því síður til atkvæða og kom þar af leiðandi í nefndinni ekki til greina.

Fyrir mjer var það aðalatriðið að komast sómasamlega fram úr öllum þessum málum. Ef sú leið hefði verið valin í nefndinni eða nefndunum að vísa öllum þessum málum til stjórnarinnar, þá hefði vitanlega verið talað áður um það við hæstv. atvrh. (MG). En nú lá það ekki fyrir, og var því óvissa um, hvort stjórnin vildi taka þetta að sjer eða ekki.

Af því nú að ekkert vilyrði frá stjórninni lá fyrir um það, hvort hún vildi taka þetta að sjer, gekk jeg inn á að skipa milliþinganefnd til þess að undirbúa þessi mál. Hinsvegar duldist mjer ekki, að þessi leið gæti orðið dýr, og því mundi jeg hafa talið rjettara að taka þann kostinn, sem ódýrari var, ef líks árangurs mætti vænta. Og nú er einmitt svo komið, að hæstv. atvrh. hefir lýst yfir því, að hann vilji taka málið að sjer og afgreiða það eins fljótt og mögulegt er. Horfir alt þetta mál því óneitanlega öðruvísi við heldur en meðan hvorki jeg nje aðrir vissu neitt um, hvort stjórnin vildi taka það að sjer eða ekki.

Það er vitanlega satt, sem hv. 5. landsk. (JJ) sagði, að oft hefir ekki til þeirra mála spurst aftur, sem vísað hefir verið til stjórnarinnar. En það hefir einatt ekki verið nema eðlilegt, þegar stjórnin hefir engu um þau lofað. Er því alt öðru máli að gegna, þegar stjórnin lofar að gera það, sem hún getur, eins og hún hefir lofað í þessu efni nú.

Þótt dýrt sje nú að skipa milliþinganefnd, hefði jeg þó heldur tekið þann kostinn, ef vissa hefði þá verið fyrir góðri lausn á málinu. En þar um er engin vissa og getur ekki verið. Hinsvegar er vissa um það, að kostnaður við slíka nefnd yrði æðimikill. Þegar því þannig er ástatt, að engin vissa er fyrir góðum árangri af milliþinganefndinni, en stjórnin hefir hinsvegar lofað að taka málið til gaumgæfilegrar meðferðar, þá get jeg fallið frá þáltill. og verið með því að vísa málinu til stjórnarinnar, og þykist jeg með því ekki koma neitt óheiðarlega fram, eftir að hafa skýrt frá gangi málsins og hvað fyrir mjer hefir vakað.