21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í D-deild Alþingistíðinda. (3346)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Jóhannes Jóhannesson:

Hv. 5. landsk. (JJ) mintist á aðstöðu flokkanna til þessarar tillögu. Að jeg hafi borið hana undir flokkinn, er hinn mesti misskilningur, því að jeg lít svo á, að þetta eigi ekki að vera flokksmál.

En eins og jeg tók strax fram, lít jeg svo á, að það megi ekki lengi dragast að endurskoða þau atriði sveitarstjórnarlaganna, sem tillagan leggur mesta áherslu á. Af því að jeg leit svo á, að kröfur þær, sem fram hafa komið um breytingar á sveitarstjórnarlöggjöfinni, væru rjettmætar, og að jafnframt væri þörf á að samræma þessa löggjöf, þá var jeg með skipun milliþinganefndar til þess að undirbúa þessi mál, og hefði verið með henni áfram, svo framarlega sem hæstv. atvrh. (MG) hefði ekki lýst því yfir, að hann ætlaði að taka tillöguna til greina, ef henni væri vísað til stjórnarinnar, og reyna að afgreiða málið eins fljótt og milliþinganefnd mundi gera. Þar sem nú stjórnin sjálf er mjög fær um að vinna að þessum undirbúningi og á líka kost á að afla sjer mjög ódýrrar aðstoðar, sje jeg mjer ekki annað fært en snúa mjer að því að vísa málinu til stjórnarinnar og tel því þar að sumu leyti betur borgið en hjá milliþinganefnd.