21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í D-deild Alþingistíðinda. (3347)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Jónas Jónsson:

Það kom ljóst fram í ræðu hv. þm. A.-Húnv. (GÓ), að frumvörpum um breytingu á sveitarstjórnarlöggjöfinni hefir á tveimur síðustu þingum verið vísað til stjórnarinnar með því fororði, að stjórnin legði fram heildarfrv. um þessi mál. En slíkt heildarfrv. er ekki komið enn þá, og víst, að það kemur ekki á þessu þingi. Er það því ekki að ástæðulausu, að allsherjarnefndir þingsins hafa farið þá leið að bera fram þáltill. um skipun milliþinganefndar til þess að athuga þessi mál. Þau sveitarstjórnarlög, sem við búum nú við, eru samin að mestu af milliþinganefnd. En eins og öllum er kunnugt, hafa þau reynst vel, þar til lifnaðarhættir og atvinnuvegir breyttust. Þetta hvorttveggja er því mikil meðmæli með tillögunni.

Snúningur sá, sem kominn er á allsherjarnefndarmenn stjórnarflokksins í þessu máli, virðist stafa af því, að hæstv. atvrh. vill fá málið í sínar hendur. Þykist hann með því geta afgreitt það á ódýrari hátt en með nefndarskipuninni. Það má vel vera, að svo verði, en þá er ekki trygging fyrir, að það verði eins vel af hendi leyst.

Við höfðum hugsað okkur, að milliþinganefnd gæti komist yfir það, sem felst í tillögunni, á fyrri hlutum tveggja vetra. En eftir því, sem hæstv. forsrh. (JM) hefir sagt mjer, mun það óvíst, því að nefnd sú, er undirbjó núgildandi sveitarstjórnarlög, mun hafa setið töluvert lengur.

Mjer líkaði margt vel í ræðu hv. 1. þm. Rang. (EP). Hann sagði rjett frá tildrögum málsins og miklu skýrara en hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), að það var samkomulag nefndanna að bera fram þessa tillögu. En svo kemur þetta fyrir, að strax þegar till. kemur til umræðu í Nd., þá snúast þeir á móti henni hv. þm. V.-Sk. (JK) og 2. þm. N.-M. (ÁJ), og hið sama skeður hjer. Fylgismenn stjórnarinnar í nefndinni snúast gegn till. Þetta höfuðstökk sitt hefir hv. 1. þm. Rang. (EP) skýrt svo vel, að jeg tel hann hafa vaxið við það. En það get jeg sagt bæði honum og öðrum, að þó að jeg hefði verið stuðningsmaður stjórnarinnar, þá hefði jeg undir engum kringumstæðum treyst mjer til að gera slíka kúvendingu.

Loks vil jeg skjóta þeirri fyrirspurn til hæstv. atvrh., hvort hann vilji taka þetta mál til athugunar þannig, að það af því, sem hann ber fram á næsta þingi, geti verið sjálfstæður hluti í allsherjarkerfi. Því að ef hann aðeins tekur til athugunar þá liði sveitarstjórnarlaganna, sem nefndin telur þurfa að flýta mest, þá tel jeg það kák eitt.

Annars tel jeg mig bundinn við mína fyrri afstöðu og get því ekki greitt atkvæði á móti till. En jeg kann betur við að fá að vita, hvort stjórnin ætli að taka málið til alvarlegrar meðferðar eða ekki.