21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í D-deild Alþingistíðinda. (3348)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Atvinnumálaráðherra (MG):

þáltill. þessi ber það með sjer, að allsherjarnefnd telur endurskoðun sveitarstjórnarlaganna og fátækralaganna svo mikið starf, að ekki sje hægt að ætlast til, að milliþinganefnd geti lokið því á einu ári. þess vegna er ekki með sanngirni hægt að álasa mjer, þó að jeg sje ekki búinn að endurskoða þá löggjöf síðan í fyrra, því að jeg sje ekki, að rjett sje að gera hærri kröfur til stjórnarinnar en milliþinganefndar.

Þá spurði hv. 5. landsk. (JJ), hvort jeg vildi taka málið til athugunar í heild. Þar til er honum því að svara, að jeg mun gera undirbúning undir það á svipaðan hátt og þáltill. gerir ráð fyrir, en jeg býst ekki við, að hann vilji heita mjer svo löngum lífdögum í þessum stóli, að jeg geti lofað að leiða málið til lykta. (JJ: Við erum vitanlega allir dauðlegir). Satt er það, en ekki allir eins bráðfeigir eins og þeir, sem sitja í ráðherrastólum.

Jeg lít svo á, að það megi vel setja sjerstakan lagabálk um útsvarsskyldu, sem gildi fyrir alt landið. En ef til vill yrði þá að hafa einhver sjerákvæði fyrir ýmsa kaupstaði. Eins hygg jeg, að best mundi vera að hafa kaupstaðalöggjöfina sameiginlega, að því leyti sem unt er, og þá sjerstök ákvæði þar sem nauðsyn krefur. Aftur sveitarstjórnarlögin sjer, eins og nú, og fátækralögin líka sjer. Annars kemur þetta alt til athugunar síðar, og ekki vert að slá neinu föstu að sinni. En jeg álít, að ekkert geri til, þó að sjerstök lög sjeu sett um útsvarsskylduna.

Jeg gleymdi að minnast á sveitfestistímann, sem hv. 5. landsk. drap á. Jeg álít, að það sje hæpið fyrir stjórnina að fyrrabragði að fara að brjóta upp á breytingum á ákvæðum, sem þingið er nýbúið að samþykkja. (JJ: En Alexander!). Jeg sje ekki, hvað hann kemur þessu máli við. Það verður að ganga út frá því, að þingið breyti ekki strax því, sem það hefir samþykt. Hv. þm. (JJ) mintist á hrepp einn, sem hefði orðið illa úti vegna þessara sveitfestisákvæða, en jeg held, að þar liggi aðrar ástæður eigi síður til grundvallar, enda er það álit kunnugra manna, að ef þessi hreppur fær að njóta einhverrar hjálpar nokkur ár, þá sje honum borgið. Og jeg tel alls ekki ólíklegt, að hann geti notið góðs af frv., sem jeg hefi borið fram á þessu þingi, um breyting á fyrirkomulagi bjargráðasjóðsins.