21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í D-deild Alþingistíðinda. (3350)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer skilst, að hv. 2. þm. S.-M. (IP) gœti ekki búist við því, að jeg kæmi með frv. um þetta einstaka atriði, sem hann hreyfði hjer í fyrra, þegar fyrir liggur og tilætlunin er að undirbúa endurskoðun á allri þessari löggjöf í heild sinni. (IP: Hefir það verið tekið til meðferðar?).

Já. Jeg sagði hv. þm. (IP) það þegar í þingbyrjun, að stjórnin hefði tekið málið til meðferðar. Annars var ræða hv. þm. (IP) lítið vinsamleg, og kæri jeg mig ekki um að svara honum í sama tón að sinni; má vera, að tækifæri gefist til þess síðar. Hann hjelt, að jeg hefði lítið vit á því, hvernig til hagaði í stærri þorpum í Suður-Múlasýslu, og nefndi til ákveðið þorp, þar sem jeg væri lítið kunnugur. En það held jeg, að hann geti lítið vitað um, og víst er um það, að varla verður ný löggjöf eingöngu sniðin eftir þörfum Nesþorps í Suður-Múlasýslu, en jeg skil, að það sje kannske eini staðurinn, sem þessi hv. þm. (IP) þekkir vel til.

Þá var hv. þm. (IP) að tala um það, að stjórnin ætti að leita til rjettra hlutaðeigenda um upplýsingar í þessum málum. En við það er þá fyrst að athuga, að jeg talaði einmitt um það í hv. Nd. að fara þessa leið, en flokksmenn hv. þm. (IP) töldu; að lítið mundi á því að græða. Jeg held nú samt, að það mundi koma að nokkru gagni. Jeg hefi að vísu gengið út frá því, að ekki kæmu svör frá öllum, en að þó nokkrir mundu senda svör, og mætti talsvert byggja á því. Jeg er svo kunnugur í sveitum, að jeg veit, að þar eru menn, sem langa hríð hafa gegnt sveitarstjórn og mundu ekki horfa í það að verja nokkurra klukkustunda vinnu til þess að gefa stjórninni upplýsingar um þau atriði, er þeir telja að þurfi að breyta. Hv. 2. þm. S.-M. er einn þeirra manna, og er jeg viss um það, að hann mundi t. d. ekki láta þetta leggjast undir höfuð.

Hv. þm. (IP) sagði, að Neskauptún væri nú látið greiða 1/4 sýslusjóðsgjalds í Suður-Múlasýslu. Þar með er ekkert sagt, hvort þetta sje rjett eða rangt. Það má vel vera, að þetta kauptún sje svo vel statt, að það sje ekki nema sanngjarnt hlutfall. Mjer finst líka grundvöllurinn fyrir niðurjöfnun sýslusjóðsgjalda vera svo góður og tryggur sem yfirleitt er hægt að ætlast til, þar sem 1/3 er greiddur af verkfærum mönnum, 1/3 af fasteignum eftir fasteignamati og 1/3 af skattskyldum eignum og tekjum. Það er víst, að betri grundvöll er ekki auðið að finna, enda er hann nýr, frá 1921, og jeg hefi ekki heyrt því fyr andmælt, að hann væri sanngjarn. Það væri gott að heyra, á hvaða grundvelli hv. þm. (IP) vill þá byggja þetta. Um sýsluvegasjóðsgjaldið er það að segja, að ákvæðunum um það var breytt í fyrra hjer á þingi gegn andmælum mínum, og jeg skil ekki, að það hafi að þýða að koma með frv. í mótsetta átt við það, sem síðasta þing samþykti.

Hv. 2. þm. S.-M. (IP) talaði um það, að till. fjelli burt, ef málinu yrði vísað til stjórnarinnar, en jeg hafi lýst því yfir, að jeg skoði það svo, að málinu verði vísað til stjórnarinnar á sama grundvelli og till. er. Og nú vill hv. þm. (IP) leggja meira í till. en rjett er. Jeg hefi lýst því yfir skýrt og greinilega, að í þáltill. og till. að vísa málinu til stjórnarinnar fælist hið sama, og að það væri ekki ætlast til þess af stjórninni, að hún hefði til fyrir næsta þing nema þau tvö atriði, sem greinargerðin tekur fram. Og ef stjórnin gerir það, þá stendur hún fyllilega við það, sem krafist er af henni.

Hv. þm. gaf það í skyn, að þetta væri orðið pólitískt mál. Jeg fyrir mitt leyti viðurkenni það ekki. En ef svo er, þá hefir eitthvað kvarnast út úr flokki hv. þm. í Nd. Jeg veit ekki, hvort hann hefir umboð frá þeim mönnum úr hans flokki, sem greiddu atkvæði móti milliþinganefnd, til þess að lýsa því yfir, að þeir hafi gengið í Íhaldsflokkinn.