21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í D-deild Alþingistíðinda. (3353)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Atvinnumálaráðherra (MG):

Því miður heyrði jeg ekki síðustu ræðu hv. 2. þm. S.-M. (IP), því að jeg þurfti að svara í máli í Nd., en mjer er sagt, að hann hafi sagt, að jeg mundi hafa lítið vit á þessum málum. (IP: það sagði jeg ekki). Við sjáum nú til, hvað skrifararnir segja um það.

Um sýsluvegasjóðsgjaldið vil jeg aðeins leiða athygli hv. þm. (IP) að því, að jeg tel ekki líklegt, að þingið vilji breyta gerðum sínum um það efni í fyrra. Og jeg man ekki betur en að hv. samþm. hans (SvÓ) væri í fyrra á öfugri skoðun við hv. 2. þm. S.-M., og ætti þetta að sýna, að erfitt er að gera svo að öllum líki, er jafnvel samþingismenn, sem þó hafa sömu hagsmuna að gæta, eru alveg ósammála. Annars vil jeg benda hv. þm. (IP) á, að hann ræðir hjer um breytingu á vegalögunum, en ekki það mál, sem hjer er til umræðu.