08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í D-deild Alþingistíðinda. (3363)

117. mál, brúargerð á Hvítá í Borgarfirði

Þórarinn Jónsson:

Jeg vildi aðeins gera stutta fyrirspurn til hæstv. atvrh. (MG).

Það væri ofureinfalt mál að fá brýr gerðar, ef ekki þyrfti annað til þess en að fá samþykta þáltill., og gætu sjálfsagt orðið dágóð hrossakaup um slíkt. Þessa leið hefi jeg þó ekki viljað fara og tel það ekki rjetta leið, og þó hygg jeg, að jeg hafi einna mesta ástæðu allra þm. til þess að fara þess á leit að fá svör hjá hæstv. stjórn eða samþykki Alþingis um það, hvenær eigi að hefjast handa að brúa öll þau vötn, sem enn eru óbrúuð á póstleiðinni um Húnavatnssýslu. Jeg skal aðeins nefna Hrútarfjarðará, sem er skaðræðisvatnsfall og ekki langt síðan þar varð mannskaði. Jeg hefi svo að segja á hverju þingi leitað fyrir mjer um það, hvenær ætti að byrja á þessu verki. Og jeg hefi komist það lengst í samtali við vegamálastjóra, að hægt mundi verða að brúa eina þessa á 1926, og vil jeg nú fá staðfestingu á þessu hjá hæstv. atvrh.

Jeg skal geta þess, í sambandi við þá till., sem hjer er fram komin, að það er að sjálfsögðu gott til þess að flýta fyrir framkvæmd slíkra verka, ef hjeraðsmenn leggja fram allmikið fje. En það er engan veginn rjettur mælikvarði á nauðsynina, því kaupgeta og þörf fara alls ekki ætíð saman. En þörfin verður altaf að sitja fyrir. Með þessu vildi jeg fá skýr svör frá hæstv. atvrh. þessu viðvíkjandi. Og jeg veit, af því sem hann sagði um till., að það mál væri í undirbúningi, að þá muni hitt líka vera í undirbúningi.