08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í D-deild Alþingistíðinda. (3366)

117. mál, brúargerð á Hvítá í Borgarfirði

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vil, út af þessari þáltill. staðfesta það, að hv. þm. Borgf. (PO) talaði um það við mig, hvort stjórnin mundi ekki taka vel í það að byggja brú á Hvítá, ef hjeraðsbúum tækist að leggja að einhverju leyti fram lánsfje til þess. Jeg svaraði því, að jeg væri auðvitað ekki mótfallinn því, að leitað væri fjárframlaga af hjeraðsbúum til brúargerðarinnar, og taldi, að það mundi ýta undir, að verkið yrði framkvæmt. Hinsvegar sagðist jeg ekki geta fullyrt neitt um það, hvort tilboðið yrði notað eða ekki, þar sem það mundi fara eftir því m. a., hvort þörf væri á lánsfje eða ekki í þessum tilgangi, þegar þar að kæmi.

Þeim hluta þáltill., sem sneri að kaupum á ríkisskuldabrjefum til þessa, hefir stjórnin af sinni hálfu svarað þegar.