08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í D-deild Alþingistíðinda. (3375)

117. mál, brúargerð á Hvítá í Borgarfirði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. þm. Str. (TrÞ) er hvergi hræddur að snúa sannleikanum við, þegar jeg á í hlut. Jeg tel hann því ekki vitnisgengan gegn mjer og met hans orð um þetta að engu. En viðvíkjandi hv. þm. V.-Sk. (JK) vildi jeg mega spyrja, hvort hann haldi því fram, að ekki megi taka lán til þess að gera brýr. Þótt hæstv. fjrh. (JÞ) tæki fram, að það gæti ýtt undir framkvæmdir í ákveðnu hjeraði, ef fje væri lagt fram, þá er það svo sem auðvitað, að slíkt lán mundi boðið út til allra landsmanna. Það voru því orð hæstv. fjrh. (JÞ), er hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) veittist að, en ekki mín. Jeg tók það aftur á móti fram, að það væru ekki fjárframlög einstakra hjeraða, sem taka ætti tillit til eingöngu, heldur einnig þörfin og eldri ákvarðanir, og veit jeg ekki, hvort hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) hefir tekið eftir þessum orðum mínum. Mig furðar því satt að segja stórum, að því skuli haldið fram, að jeg hafi gert samning við einhvern einstakan þingmann um þetta efni. Það er hin mesta fjarstæða og lá alls ekki í orðum mínum.