27.02.1925
Sameinað þing: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í D-deild Alþingistíðinda. (3403)

68. mál, strandferðir

Flm. (Jónas Jónsson):

Það má vel segja, að það sje dálítið óvenjuleg aðferð, sem við flm. þessarar till. höfum viðhaft til þess að hrinda af stað þessu máli, sem þó heyrir í sjálfu sjer undir tvær nefndir í þinginu. En ástæðan er sú, að það hefir viljað brenna við á undanförnum þingum við afgreiðslu þeirra mála, sem till. fjallar um, að togstreita hefir átt sjer stað milli einstakra þm. um þessi mál, vegna hagsmuna einstakra kjördæma, og starfsfyrirkomulag þingsins hefir verið það, að þessu máli hefir verið ráðið til lykta í kyrþey, og samgöngumálanefndir þingsins hafa ekki tekið fult tillit til heildarþarfa landsmanna allra. Þessi tillaga á að miða til þess að marka skýrari línur í strandferðamálinu. Í stuttu máli, eins og till. ber með sjer, viljum við fá strandferðirnar bættar frá því sem nú er. Skal stjórn og þing þar njóta aðstoðar sjerfróðra manna, eins og t. d. forstjóra Eimskipafjelags Íslands. Þessar umbætur á strandferðunum, sem till. miðar að, eiga að nást sumpart með því að nota betur þann skipakost, sem nú er til umráða, og sumpart með því að fá sjer fleiri skip. Skal jeg nú víkja að einstökum liðum tillögunnar.

Fyrsti liðurinn, að fjölga strandferðum „Esju“, einkum haust og vor, styðst við þörf fólksins að komast fljótt milli hjeraða, vegna atvinnuleitar og vegna skólagöngu. Þá mælir með þessum lið þörf ríkissjóðs að láta skipin vinna betur fyrir sjer en gert hefir verið áður, til þess að sem mestar tekjur fáist af útgerð ríkissjóðs, með sem minstum tilkostnaði,

Í greinargerð þessarar till. okkar sjest á skýrslu þeirri, sem þar fylgir um strandferðirnar, að vöruflutningaþörfin er einna mest á haustin. Í öðru lagi sjest þetta enn betur á skýrslu samgöngumálanefndar frá því í fyrra. Þá hafði strandferðaskipið verið látið fara tvær hraðferðir kringum land. Að vísu var það um mitt sumar, þegar minst var þörf fólksflutninga; hraðferðir þessar tóku ca. 8–9 daga hvor, og varð tekjuhalli útgerðarinnar fyrir þessar ferðir aðeins eitthvað um 2–3 þús. kr. En tekjuhalli hinna venjulegu 20–23 daga ferða er að jafnaði milli 15 og 20 þús. kr. þetta er auðskilið mál og hlýtur að vera svo, að kostnaðurinn sje meiri við hægfara ferðirnar með mörgu viðkomustöðunum. Jeg vil aftur minnast á þessar tvær hraðferðir, sem farnar voru í ágúst 1923 og nálega borguðu sig; hefðu þær verið farnar að vori eða hausti, mundu þær að líkindum alveg hafa borgað sig. Jeg verð að miða við þessar eldri skýrslur (frá 1923), því þœr sanna ljóslega, að hraðferðir, sem farnar eru á lakasta flutningatíma ársins, borga sig betur en löngu ferðirnar um mesta annatíma ársins, á haustin. Á haustin streymir fólkið í útlendu skipin, sem fara þessar ferðir á styttri tíma en þau innlendu, og verða það því útlendir menn og fjelög, sem fleyta rjómann ofan af í þessum efnum. Allur hagnaður fer út úr landinu, til þess „Sameinaða“ og „Bergenska“. Jafnvel lítt hœft mannflutningaskip, eins og t. d. „Diana“, hefir verið mjög mikið notað, vegna þess, að með því hafa fengist fljótar ferðir milli Norðurlands og Reykjavíkur. Það er því sjálfsagt í baráttunni milli íslensku útgerðarinnar annarsvegar og erlendu skipanna að nota „Esju“ betur en gert hefir verið, láta hana fara fleiri hraðferðir. Þá renna ekki fargjöldin og flutningsgjöldin eins ört til erlendu útgerðarfjelaganna. Sú eina mótbára, sem enn hefir heyrst gegn þessu, er sú, að þótt þetta sje alt rjett, sje ekki hægt að breyta þessu. „Esjan“ þurfi að koma sem víðast við, því ekki sje í önnur hús að venda með flutningaskip, vegna smáhafnanna.

Viðvíkjandi C-lið till. getur vel verið, að á því finnist einhverjir meinbugir í svipinn, að „Suðurland“ fari einu sinni á mánuði til Breiðafjarðar, t. d. ef nú væri þegar búið að semja um Borgarnesferðirnar við eigendur skipsins, og gæti þetta hvorttveggja því rekist á. En þá viljum við flm. þessarar till., að skipalaginu verði breytt að ári, því það er alveg óviðunandi, að stór hjeruð, stórir hlutar af landinu, eins og Breiðafjarðarhjeruðin öll, sjeu látin vera svo að segja samgöngulaus. Það hefir verið reynt að bæta úr þessu samgagnaleysi á Breiðafirði með Svansútgerðinni, en hún svaraði ekki kostnaði. Líklega hefir þetta stafað af því, að „Svanur“ var aðeins flóabátur, ætlaður aðallega til ferða innan Breiðafjarðar. Enn fremur var þessi bátur mjög illa lagaður fyrir og laklega útbúinn til fólksflutninga, og hefir það atriði einnig valdið nokkru um, að tekjuhalli varð á þessari útgerð. En það allra mesta, sem gert hefir verið til þess að bæta úr þessu samgönguleysi Breiðafjarðarhjeraðanna, hefir verið það, að „Esja“ hefir verið látin fara eina ferð inn á Hvammsfjörð, alla leið inn að Búðardal Er það þó hálfgert óyndisúrræði að láta skipið, sem máske hefir 150–200 farþega innanborðs, flest langferðamenn, sem þurfa að flýta sjer, fara þennan langa krók. Ferðir um Breiðafjörð eru tafsamar mjög strandferðaskipum, og þarf að sæta sjávarföllum; verður þetta því allmikil töf skipum og bagaleg farþegum, sem lengra þurfa að fara. Og svo kemur þetta hjeruðum umhverfis Breiðafjörð að sáralitlu gagni. Þetta fullnægir hvergi nærri samgöngu- og flutningaþörf Dalasýslu, þó að dálítið betra sje en ekki, og Barðastrandarsýsla hefir alls engin not þessara ferða „Esju“ um Hvammsfjörð. Hið eina, sem gert hefir verið til að greiða fyrir samgöngum við Barðastrandarsýslu, hefir verið það, að skip eru nokkrum sinnum látin koma við í Flatey, en það er auðvitað alveg ófullnægjandi. Í greinargerð okkar flm. fyrir þessari till. höfum við bent á þá staðreynd, að sum hjeruð Borgarfjarðar- og Mýrasýslna, sem hafa einna bestar samgöngur við nágrenni sitt (um 30 ferðir til og frá Rvík á ári), bera augljós merki vaxandi velmegunar og aukinnar menningar, og er það gleðilegur vottur um hin heillavænlegu áhrif bættra samgangna við og um Faxaflóa. En því á þá að láta næsta stóra flóann, Breiðafjörðinn, 3–4 stórar sýslur, fjölbygðar sveitir, verða svo herfilega út undan? það er á engan hátt forsvaranleg meðferð á íbúum þessara hjeraða. Úr þessu verður alls ekki bætt með einni eða tveim ferðum „Esju“ eða skips af því tæi. En aftur á móti má fullyrða það, að þó að „Suðurland“ fari þessar ákveðnu 30 árlegu ferðir til Borgarness, er það alls ekki fullnotað eins og hægt væri. Jeg sje því ekki annað en að Suðurlandsútgerðin gæti vel bætt við sig þessum Breiðafjarðarferðum líka. Og þó að við höfum áætlað 12 ferðir árlega til Breiðafjarðar, getur verið, að menn verði að sætta sig við eitthvað færri ferðir; en þrátt fyrir það yrðu þessar auknu Suðurlandsferðir til Breiðafjarðar til stórhagnaðar bœði fyrir Breiðafjarðarhjeruðin og Reykjavík.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að B-lið tillögu okkar, sem er um það að halda úti hæfilegu skipi til strand- og flutningaferða milli Hornafjarðar og Langaness. Jeg hefi átt tal um þetta við framkvæmdarstjóra Eimskipafjelags Íslands, hr. Nielsen, og er hann þessu fremur hlyntur, og þó að hann hafi ekki fallist á alt það, sem till. fer fram á, munar ekki miklu frá skoðunum hans, og sumt í till. er sett þar óbeinlínis samkvæmt bendingu hans. Hans álit er það, að nota skyldi til þessara ferða skip ca. 100 smálestir að stærð. Hann nefndi mjer í þessu sambandi norskan bát af líkri stærð og „Brimnes“, sem um aldamótin hefði verið notaður þar eystra til slíkra flutninga, með mjög góðum árangri. Jeg skal fúslega játa, að það eru meiri örðugleikar á því að taka nýtt skip á leigu en nota „Suðurland“ betur en gert hefir verið. En jeg hygg, að ef þetta yrði þó samþ., mundi hr. Nielsen hafa einhverjar upplýsingar handbærar um kostnaðinn við þetta leiguskip, og gæti það flýtt mjög fyrir og ljett undir störf samgöngumálanefnda þingsins, þegar þetta mál kæmi fyrir þær. Jeg hygg, að það verði heppilegast að taka lítið norskt skip á leigu til þessara ferða. Norsku skipin eru að ýmsu leyti ódýrari en önnur skip og hentugri okkar þörfum. Við höfum í till. tilnefnt þessa staði, Hornafjörð og Skálar, sem endastöðvar þessara ferða. Það er vegna þess, að þetta eru mjög stórir útgerðarstaðir austur þar, en samgönguleysi er vitanlega stórbagalegt allri útgerð, þótt minni væri en er á þessum stöðum. Þannig veit jeg til þess, að Þórhallur kaupmaður Daníelsson á Hornafirði hefir orðið að leigja skip til flutningaferða, milli Hornafjarðar og Austfjarða, og er ekki hægt að bera á móti því, að þar hefir hann í raun rjettri tekið á sig skyldu ríkisins að bæta úr samgönguþörfinni. En það má alls ekki búast við því, að einstakir menn muni framvegis halda uppi slíkum ferðum fyrir ríkið með tapi fyrir sjálfan sig. Þýðir ekki að benda á hinn óbeina hagnað í þessu sambandi, sem þessir menn auðvitað hafa haft af því fyrir sig og útgerðina, að þessar ferðir voru farnar, þótt þær bæru sig ekki að öðru leyti. Reynslan er löngu búin að sýna það, að „Esjan“ fullnægir ekki samgönguþörf Hornafjarðar; til þess er það skip of stórt. Á Hornafirði eru sömu annmarkarnir og á Hvammsfirði á Breiðafirði, að sæta verður sjávarföllum, og tefur það strandferðaskipin 6–12 stundir í sumum ferðunum. Þá ber og á það að líta, að mikill hluti Austfjarða, þ.e. Suður-Múlasýsla, hefir sama og ekkert fje fengið úr ríkissjóði til vegagerða eða annara samgöngubóta á landi. Stafar þetta af því, að landslagi er þar þannig háttað, að samgöngur allar verða greiðastar á sjó, ef þeirra væri kostur. Mælir því öll sanngirni með því, að í þessar samgöngubætur verði ráðist, ekki eingöngu vegna Hornafjarðar og Skála, heldur og vegna brýnna nauðsynja þessara hjeraða allra.

Suður-Múlasýsla er í þessu efni ekki óáþekt sett og sum hjeruð í Noregi, þar sem allar samgöngur eru á sjó. Þar eru notuð lítil gufuskip til þessara ferða, og sumstaðar eru þar farnar 3–4 ferðir á dag milli hafna. En við þurfum nú ekki að hugsa okkur svo hátt að jafnast við Norðmenn í þessu; veldur því fámennið og stærð landsins.

Þá er aðeins eftir að geta um D-lið till. Hr. Þórólfur Beck hefir látið í ljós þá skoðun, að mikið mætti bæta Esjuferðirnar fyrir farþega, ef landið hefði á leigu dálítið vöruflutningaskip á mesta annatímanum, einkum á haustin og fyrri hluta vetrar. Það mundi langhentugast að leigja fremur lítið skip til þessara vöruflutninga milli aukahafna og minni kauptúna. Ef skipið væri tekið á leigu frá því snemma á hausti til áramóta, mesta annatíma ársins, er enginn vafi á því, að það mundi borga sig. Á þessum tíma árs er mikil þörf vöruflutninga; sláturafurðir þurfa að komast í burt frá smærri höfnunum, og ýmsar vörur og vetrarbirgðir verða að fást fluttar frá smærri kauptúnunum til smáhafnanna víðsvegar um land. Jeg tel það sjálfsagt, að skip þetta hafi sama vöruflutningataxta og Eimskipafjelag Íslands, og að þar verði „gennemgaaende Takst“, svo að landsmenn þurfi ekki að greiða margsinnis flutningsgjald fyrir sömu vörusendingu. Jeg er hæstv. forseta (JóhJóh) þakklátur fyrir, hversu hann hefir vikist greiðlega undir að flýta fyrir meðferð þessa máls, og jeg vænti þess, að þessi tillaga okkar verði samþykt og komið í framkvæmd sem fyrst. Jeg er fullviss um, að það verður þjóðinni til mikilla hagsbóta að taka flutningana með ströndum landsins algerlega í sínar hendur.

Jeg skal játa, að kostnaðurinn við þetta fyrirkomulag verður meiri en nú er. En svo er og um vegi og viðhald vega. Það er beinn kostnaður, en þó nauðsyn. Líkt er og um strandferðir. Tilætlunin er ekki, að útgerðin beri sig reikningslega. Ávinningurinn er hinn óbeini hagnaður, sem fólginn er í því, að fólkið og vörurnar kemst á ákvörðunarstað fyr og á ódýrari hátt en annars.