27.02.1925
Sameinað þing: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í D-deild Alþingistíðinda. (3409)

68. mál, strandferðir

Hákon Kristófersson:

Við flm. þessa máls komum okkur þegar í þingbyrjun saman um að flytja það hjer. Jeg get þrátt fyrir það fallist á þá skoðun hæstv. atvrh. (MG), að sama tilgangi hefði mátt ná með brjefi til stjórnarinnar eða samgöngumálanefnda. En þó hygg jeg, að sú leið, sem farin hefir verið, verði þó eins happadrjúg, til að vekja athygli á málinu.

Þátttaka mín í þessu máli nær aðeins til C-liðsins, og mun jeg því ekki víkja að hinum liðunum. Það munu flutningsmenn þeirra sjálfir gera. Það er ekki svo að skilja, að jeg sje mótfallinn hinum liðunum, en mig brestur kunnugleika til þess að dæma um þá. En hv. aðalflm. (JJ) hefir nú sýnt, hvílík nauðsyn er á þeim, og þarf jeg því ekki að fara út í það. En jeg vil þakka honum mjög hlýleg ummæli um þann lið till., sem jeg á hlut í.

Hæstv. atvrh. sagði, að á þessu svæði, sem C-liðurinn ræðir um, hefði mb. „Svanur“ haldið uppi strandferðum Þetta er að vísu satt, að Svanur hefir að nokkru leyti annast ferðirnar á þessu svæði, þ. e. a. s. að sunnanverðu á Breiðafirði, en mjög hafa menn verið óánægðir yfir því, hvernig þær hafa verið ræktar, þótt þær hafi kostað ríkissjóð mikið fje. Og jeg held, að mjer sje óhætt að segja, að nú sje á daginn komið, að betra hefði verið, að sá farkostur hefði aldrei verið tekinn. Er þetta ekki út í bláinn sagt, heldur get jeg sannað það skjallega með erindum, sem nú liggja fyrir Alþingi. Þess ber og að gæta, að mb. „Svanur“ hefir aðeins haldið uppi ferðum við sunnanverðan Breiðafjörð og svo innanfjarðar, en ekki að norðanverðu. Þar hefir að vísu verið mótorbátur, sem fengið hefir landssjóðsstyrk, en altaf hefir verið dregið úr þeim styrk, og var hann minstur síðastliðið ár eða rjettara sagt sama sem enginn. Það, sem mjer gekk til þess að vekja menn til umhugsunar um þetta mál, var það, að jeg vildi, að athugað yrði, hvort ekki mundi hægt að láta „Suðurlandið“, sem nú gengur aðeins til Borgarfjarðar, annast einnig ferðir við Breiðafjörð, bæði að norðan og sunnan. Bjóst jeg við, að í rauninni gæti skipið int þessar ferðir af hendi, en mig skorti þekking á, hve mikinn tíma það mætti missa frá Borgarfjarðarferðunum. Eftir nánari yfirvegun á því máli býst jeg þó við, að þetta geti ekki verið samrýmanlegt.

Við, sem búum við þennan hluta fjarðarins, höfum fundið mjög til þess, hve samgöngur eru þar erfiðar, enda hygg jeg, að sú sýsla verði verst úti að því er þau mál snertir, að Skaftafellssýslu undantekinni. Og skal jeg taka það hjer fram gagnvart því, sem hv. þm. V.-Sk. (JK) sagði, að jeg skal verða manna seinastur til að hindra það, sem orðið gæti til samgöngubóta fyrir kjördæmi hans, enda hygg jeg og, að jeg hafi sýnt það bæði nú og á fyrri þingum.

En jeg vildi mega hjer minna á, að fyrir nokkrum árum flutti jeg ásamt þáverandi þm. Str. (MP) till. um, að mæld yrði leiðin frá Flatey til Hagabótar. Er þetta örstutt leið, en svo hefir viljað til, að hæstv. landsstjórn hefir aldrei fundið hvöt hjá sjer til þess að verða við þeirri beiðni. Hefir sennilega fjárhagurinn ráðið því, en ekki aðrar hvatir, að úr því hefir ekki orðið til þessa. Eins og gefur að skilja, eru það lífsskilyrði fyrir hvert hjerað, að samgöngur og sambönd við önnur hjeruð sjeu í góðu lagi, því óhætt mun að slá því föstu, að góðar samgöngur á sjó og landi sjeu mjög sterkur þáttur í afkomuskilyrðum hvers hjeraðs.

Komið hefir til mála, að „Suðurlandið“ færi ferðir til Breiðafjarðar, en jeg ætla, að það muni ekki útrætt mál, og hefi jeg meira að segja heyrt, að eigendur þess hafi hvikað frá sínum upphaflegu tilboðum.

Hvað viðkemur 1. lið till., þá verð jeg að segja, að jeg fyrir mitt leyti hefi ætíð verið dálítið óviss um, hve hagkvæmar þessar hraðferðir væru fyrir landið yfirleitt, og þær mundu aðeins geta átt sjer stað, eins og hv. aðalflm. (JJ) sagði, um hásumarið.

Um B-lið till. hefir ætíð verið allmikill meiningarmunur í samgmn., bœði fyr og síðar, en hv. aðalflm. (JJ) hefir gert mjög ljósa grein fyrir, hve mikil nauðsyn ber til þessa, og vil jeg síst gera lítið úr því.

Jeg skal viðurkenna, að framkoma þessarar þáltill. hefir orðið til annars en jeg ætlaði. Jeg bjóst við, að flutningur hennar yrði ekki þannig, að hann lengdi þingtímann, en nú hefir sýnt sig, að miklar en ástæðulausar umr. hafa spunnist um þetta mál, sem að sumra dómi er harla lítilfjörlegt. Að svo sje, get jeg nú ekki sjeð, enda hefir mest verið rætt um það í pukri, hve málið væri ómerkilegt, fánýtt og vanhugsað, og að við flm. höfum eigi rent huga til annara hjeraða en okkar eigin, en slíkir sleggjudómar eru algerlega ómaklegir, a. m. k. hvað mig snertir. En því vil jeg lýsa yfir, að mjer kom síst til hugar að ganga á rjettindi nokkurs hjeraðs nje hv. þm. með flutningi þessarar till. Og í annan stað ætla jeg, að hún hafi verið rækilega yfirveguð, og vona, að hún verði til meiri bóta þessu máli en þótt brjef líks efnis hefðu verið rituð samgmn. þingsins.

Jeg vil og geta þess, að þeir samningar, sem nú eru á leiðinni milli hæstv. landsstjórnar og eigenda „Suðurlands“, snúast að mestu um ferðir við Breiðafjörð sunnanverðan og svo innanfjarða, og því sýnist svo, sem sá hluti, sem norðan er fjarðarins og tekur yfir fjórar sveitir, verði eins samgöngulaus og verið hefir. Nú gefur að skilja, að þessi þáltill. getur vakið mann til alvarlegrar íhugunar um, hversu úr þessu megi bæta, og væri þá mínum tilgangi náð, ef á einhvern hátt rættist úr því í framtíðinni, þótt ekki yrði það nema að litlu leyti nú í ár.

Jeg vil og skjóta því til hæstv. stjórnar, hvort hún sjái sjer ekki fært að framkvæma nú þá till., sem jeg gat um áðan, að við hv. þáverandi þm. Str. (MP) hefðum flutt hjer fyrir nokkrum árum. Hefði það mjög mikla þýðingu að því er snertir skipaferðir til þessara hjeraða, sjerstaklega hvað sambandið við Reykjavík snertir, og mundi ekki lítið greiða fyrir kjötflutningnum einkanlega.

Jeg mun svo ekki tefja þessar umr. lengur, en jeg vænti þess, að ef þessi þáltill. verður samþ., þá muni hún leiða til mjög mikilla bóta á strandferðunum hjer við land.