27.02.1925
Sameinað þing: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í D-deild Alþingistíðinda. (3410)

68. mál, strandferðir

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) sagði, að ástæðan til þessarar þáltill. væri sú, að ekki hefði bólað á, að stjórnin ætlaði að bera fram neinar brtt. í þessu máli. Jeg held nú, að hann hefði ekki getað búist við, að slíkar brtt. lægju fyrir í byrjun þings, því að venjan hefir verið sú, að stjórnin hefir fyrst ráðgast um öll slík mál við samgmn. þingsins. Jeg minnist þess ekki heldur, að hv. þm. (ÞorlJ) hafi nokkru sinni spurt mig að því, hvort jeg hygði á nokkrar breytingar, svo að hann hefir ekki getað vitað neitt um þetta. Honum þótti styrkurinn til Austfjarðabátsins lítill, og viðurkenni jeg, að svo er. En um þetta er það að segja, að það er þingið, sem ákveður fjárveitinguna til slíkra hluta, og mig má aðeins saka um það, ef hv. þm. (ÞorlJ) finst styrknum ranglega skift. (þorlJ: það geri jeg ekki). Úr því að svo er, að hv. þm. (ÞorlJ) vill ekki gera það, þá get jeg ekki tekið orð hans frekar til mín en aðrir hv. þm. Það er vitanlegt, að við verðum að skera allar fjárveitingar við nögl, og þótt jeg viti, að styrkurinn, sem hjer um ræðir, er helst til lítill, verð jeg hinsvegar að álíta, að sá styrkur, sem nú er farið fram á til þessa, 15 þús. kr., sje óþarflega hár.

Jeg skal ekki deila um gagnsemi þessarar þáltill. við hv. aðalflm. (JJ). Mjer stendur alveg á sama um hana og sýnist hún gera hvorki til nje frá í málinu. Hv. þm. (JJ) sagði, að þessar umr. væru jafngagnlegar og að málið væri skoðað í nefnd. En hjer stendur ekki svo á, að verið sje að ræða málið eftir að það kemur úr nefnd, og þingsköp vor eru á því bygð, að á þeim umr. sje mest að græða. Úr þessu mætti bæta með því að fresta nú umr. og láta athuga málið í nefnd áður en það væri tekið fyrir aftur, og teldi jeg þá aðferð langheppilegasta fyrir málið. Jeg ætla ekki að koma með neina till. í þá átt, en jeg teldi ekki óheppilegt, að stjórnin fengi nú að ráðgast um þessar till. við hv. samgmn. og Eimskipafjelagsstjórnina, og að það yrði síðan rætt. Skýt jeg þessu til hv. aðalflm. (JJ).

Hv. þm. (JJ) talaði um, að breytingar hefðu verið gerðar á áætlun „Esju“ fyrir 1924. Getur vel verið, að svo hafi verið. Jeg var ekkert við samning þeirrar áætlunar riðinn. En mjer getur ekki heldur fundist það neitt undarlegt, þótt prófað sje fyrir sjer, hvaða áætlun muni leiða til minsts tekjuhalla og komi þó landinu að jafnmiklum notum og aðrar áætlanir. Um þá áætlun, sem nú liggur fyrir, segir stjórn Eimskipafjelagsins, að hún hafi nálega verið heilt ár að semja hana, og geri jeg satt að segja ekki ráð fyrir, að hv. þm. geri betur, þótt þeir ræði nú málið hjer í 1–2 eða 3 klukkutíma. Um A-lið þáltill. segir stjórn Eimskipafjelagsins svo í brjefi til mín:

„. . . viljum vjer taka það fram, að því er A-lið tillögunnar snertir, að vjer teljum eigi fært að fjölga hraðferðum fram yfir það, sem gert er ráð fyrir í áætlunaruppkasti þessu, þar eð sú fjölgun þeirra myndi hafa það í för með sjer, að minni hafnirnar á landinu yrðu þá mjög illa settar með samgöngur alt strandferðatímabilið. Vjer höfum nú í undir það heilt ár unnið að áætlunaruppkasti þessu í aðaldráttunum, og eftir þeirri reynslu, sem vjer höfum fengið í þessu efni, virðist oss eigi vera veruleg þörf fyrir hraðferðir (ca. 8–10 daga ferðir) nema í maí og júní á vorin, og í september og október á haustin, auk hraðferðar snemma í júlí vegna fólks þess, sem komast þarf norður fyrir síldveiðitímann þar . .. . “

Samkv. þessu hefir svo áætlunaruppkastið verið búið til, ekki á meðan þessi þáltill. var á ferðinni, heldur hefir það tekið undir heilt ár. Og þess má geta, að ekki er gert ráð fyrir í uppkasti þessu, að nein ferð taki meira en 15–16 daga.

Út af því sem hv. aðalflm. (JJ) sagði viðvíkjandi hraðferðum, sem tækju 8 daga, en þó yrði komið við á 25 höfnum, þá vil jeg leyfa mjer að lesa, hvað stjórn Eimskipafjelagsins segir um það atriði:

„Að „Esja“ komi við á 25–27 höfnum á 7–8 dögum, eins og gert er ráð fyrir í greinargerðinni fyrir tillögunni, er algerlega ómögulegt, með því að siglingaleiðin ein kringum land með svo mörgum viðkomum er um 1400 sjómílur eða lengri en frá Reykjavík til Kaupmannahafnar“.

Á þessu sjer hv. aðalflm. (JJ), að það er ekki rjett, sem hann segir í greinargerðinni um þetta atriði. (JJ: Jeg byggi líka á góðum heimildum). Það veit jeg ekki. Jeg hefi fyrir mjer orð framkvæmdarstjórans, og hann sagði við mig í morgun, að ef þessar skyndiferðir ættu að takast, yrði að reka þennan skipstjóra, sem nú er, og setja annan, sem hann tilnefndi, sem sje hv. 5. landsk. (JJ).

Hv. þm. (JJ) sagði, að fólkið færi síður frá Akureyri til Reykjavíkur, ef ferðirnar væru ekki beinar. Vitaskuld, en þarf ekki um aðra að hugsa en þá, sem fara vilja frá Akureyri til Reykjavíkur? Á að sleppa öllum höfnunum á Skagafirði, Húnaflóa, Vestfjörðum? Ef þetta er ekki að snúa við hugmyndinni um strandferðir, þá veit jeg ekki, hvernig það verður gert. Í þeim hraðferðum, sem hjer er farið fram á, er aðeins talað um einn viðkomustað á Húnaflóa, sennilega Blönduós, og þá verður Strandasýsla algerlega út undan og Vestur-Húnavatnssýsla sömuleiðis, og Skagafjarðarsýsla fær aðeins einn viðkomustað. En það eru einmitt smáhafnirnar, þar sem skip sjaldan koma, sem hugsa verður fyrir að fái sambönd við aðalhafnirnar. Ekki eingöngu við Reykjavík. Strandasýsla þarf að hafa greiðar samgöngur við Ísafjörð, Skagafjarðarsýsla við Akureyri, og til þess að þetta sje, er einmitt strandferðaskipið ætlað. Vitaskuld er þá ekki hægt að ná þeim farþegum, sem hafa aðra skipsferð beina. Hugsum oss, að við hv. aðalflm. (JJ) værum staddir á Akureyri og þyrftum að komast sem fyrst til Reykjavíkur. Við gætum nú valið um „Ísland“ og „Esju“. „Ísland“ færi beint, kæmi ef til vill aðeins við á Ísafirði, en „Esja“ yrði að koma á Sauðárkrók, Blönduós, Ísafjörð og í Stykkishólm. Sjálfsagt veldum við „Ísland“. Það er nú svo, að þessi útlendu fjelög hugsa aðeins um aðalhafnirnar, sinn eigin hag, ekki gagn landsins. En við getum ekki farið svo að, við verðum að hugsa um smáhafnirnar fyrst og fremst.

Hv. þm. (JJ) tilfærði töluvert úr skýrslunni fyrir 1923. Jeg hefi hana ekki, hefi afhent hana hv. samgmn. En jeg játa, að með till. í heild muni Austfjörðum vera vel borgið, en aftur Norðurlandi og Vestfjörðum meira gleymt Vestfirðirnir eru margir, og jeg viðurkenni, að strandferðir eru þar ónógar, ekki aðeins á Breiðafirði, heldur og á öðrum fjörðum.

Mjer skildist hv. þm. (JJ) hneykslast á því, að jeg taldi það fjárhagsatriði, hvort veita ætti styrk til nýs báts á Austfjörðum. Jeg ætla það enn. En jeg get ekki fallist á, að rjett sje að taka Borgarfjarðarbátinn til samanburðar, því að hann er til mikilla póstflutninga og flytur þar að auki margt fyrir önnur hjeruð en Borgarfjörð, einkum farþega. En þegar jeg sagði, að þetta væri fjárhagsatriði, þá meinti jeg að sjálfsögðu, að það væri fjárveitingaratriði. Það er undir þinginu komið, hvort það vill veita fje til þessa báts. En framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins sagði mjer, að hann byggist við, að þessi bátur hefði sáralítið að gera, nema suma tíma á árinu.

Hv. þm. Barð. (HK) þarf jeg litlu að svara. Hann hjelt, að eigendur „Suðurlands“ hefðu tekið aftur tilboð sín. Það er ekki rjett. Þeir voru að vísu dálítið óánægðir með það tilboð, er þeir gerðu, en jeg hygg, að þeim verði haldið fast við það og að samningar takist um 8–10 ferðir. Tilboð þeirra hljóðaði upp á alt að 10 ferðum, og þeir hafa komið með áœtlunaruppkast, sem tekur yfir 9 ferðir. Hve langt vestur farið verður, er ekki afgert.

Um mæling á sjóleiðinni frá Flatey til Hagabótar man jeg ekki til að nein till. hafi komið fram, en jeg skal ekki rengja hv. þm. (HK) um það. En sannleikurinn er sá, að erfitt er að framkvæma slíkt, því að við höfum ekki önnur skip til þess en strandvarnaskipin, og þau hafa nóg annað að gera. En jeg skal hafa þetta í huga, og sje leiðin stutt, má vera, að það megi framkvæma það áður en mjög langt líður.