17.04.1925
Neðri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í D-deild Alþingistíðinda. (3419)

53. mál, utanríkismál

Fyrirspyrjandi (Bjarni Jónsson):

Jeg vil biðja menn að taka eftir því, að jeg hefi beint fyrirspurn minni til utanríkisráðherra Íslands, og hefi nú þegar fengið svar. Virðist þá sú einfalda og rjetta ályktun verða af því dregin, að hjer sje til utanríkisráðherra. Jeg býst ekki við, að neinn annar hefði farið að svara henni en sá, sem var utanríkisráðherra.

Hæstv. ráðh. (JM) sagði, að við værum ósammála um nafnið, hvort það hefði nokkra þýðingu; en jeg hefi altaf lagt áherslu á, að það hefði mjög mikla þýðingu. Það þýðir það, að stjórnir annara ríkja, sem viðskifti hafa við Ísland á einhvern hátt, fá með hverju brjefi, sem kemur frá utanríkisstjórninni, að sjá það, að á Íslandi er utanríkisstjórn, sem hægt er að semja við. En ef þær sjá ekkert nema mannanöfn, vita þær ekkert, hvort þessir menn hafa heimild til að fara með þessi mál. Jeg held, að hæstv. forsrh. (JM) ætti að halda áfram þessari venju, að vera utanríkisráðherra, eins og hann hefir tekið á móti fyrirspurninni sem slíkur. Hann ætti að setja á hvert brjef, sem hann skrifar, efst í horninu: Utanríkisráðherra Íslands. Þá er það víst, að þjóðirnar sjá, að hjer er ríki, sem hefir utanríkisviðskifti við aðrar þjóðir.

Hinsvegar get jeg verið ánægður með svar hæstv. forsrh. við 4. spurningunni, því að þar er hann mjer sammála að öllu leyti. Aftur get jeg ekki látið mjer lynda, að sú venja haldi áfram, sem tíðkast hefir hingað til, að danskir umboðsmenn Íslands í ýmsum löndum sjeu ekki handfaldir þjóðhöfðingjum eða stjórnum þar, sem embættismenn Íslands, til þess að menn viti, að Ísland hefir þarna fulltrúa. Þetta atriði hefir tvær hliðar. Önnur snýr að þeim Íslendingum, sem þurfa að njóta aðstoðar þeirra, eða það er íslenska stjórnin, sem þarf að nota þá, og hin snýr að útlendingum úti í frá.

En það, sem er aðalatriðið fyrir Ísland, er það, að hver þjóð viti, að hjer er um ríki að ræða, sem fer sjálft með sín eigin utanríkismál. Annars skal jeg fara fljótt yfir sögu. Jeg sje, að þetta er að líkindum ekki mjög mikið íslensku stjórninni að kenna, hversu óljóst og illa hefir verið gengið frá ýmsum þeim skjölum, sem danskir ræðismenn hafa látið öðrum þjóðum í tje og snerta íslensk mál. Jeg hefi sjeð ýms eintök, þar sem eiginlega alt vantar, nema þar er stimpill, sem segir, að skjalið sje frá dönsku „konsulati“.

En hinsvegar vil jeg nota tækifærið að skora á hæstv. stjórn að láta líta eftir þessu og heimta af umboðsmönnum, að þeir hafi þetta alt í lagi alstaðar. Ímynda jeg mjer, að ekki sje of mikið heimtað, þótt hafður væri sjerstakur stimpill, þar sem stæði: Fyrir Ísland.

Það, sem mjer líkaði best í svari hæstv. utanríkisráðherra (JM), var svar hans við 9. spurningunni, því að það er höfuðspurningin. Þóttist jeg skilja hann svo, að hann ætlaði að láta verða fulla framkvæmd á því, að allir samningar yrðu gerðir af konungi og staðfestir af honum. Hitt skiftir ekki máli, hvort samningarnir væru gerðir með „nótum“ eða orðsendingaskiftum eða ekki, aðeins að sá siður væri tekinn upp að staðfesta þá með konungsúrskurði á eftir. Með þessu væri stjórnarskránni fullnægt, en þar stendur, að konungur geri samninga við önnur lönd. En stjórnarskráin gerir ekki ráð fyrir neinum öðrum samningum en þeim, sem konungur gerir.

Hún var eiginlega ekki rjett sett fram hjá mjer, 10. spurningin; en í ummælum mínum kom það þó í ljós, hvað var aðalástæðan fyrir mjer, að jeg get vel fengið norskan, sænskan eða enskan mann til að fara með mín mál í Danmörku eða Frakklandi, en ekki enskan mann til að fara með þau á Englandi, sænskan í Svíþjóð, danskan í Danmörku. Á þetta lagði jeg áherslu. En það er einmitt danskur þegn, sem fer með mál Íslands í Danmörku. Jeg hefði ekki á móti því, þótt stjórnin fengi norskan sendiherra til að fara með íslensk mál í Danmörku um stundarsakir. Það er ekkert hneyksli. En hitt er í sjálfu sjer hneyksli, án þess að jeg vilji neitt sveigja að þessum manni, því að hann á alt gott skilið af mjer. En hann hefir þennan eina galla, sem gerir hann óhæfan til þessa, sem sje að hann er danskur þegn og auk þess fulltrúi utanríkisráðuneytisins danska og undirmaður þess manns, sem hann á að semja við.

Hæstv. utanríkisráðherra (JM) sagði, að stjórnin vildi gjarnan senda sendimann til Danmerkur. Álítur hann nauðsyn á þessu, en sagði, að aðeins vantaði fjárveitingu. Mjer skilst eftir því, að stjórnin ætti að leggja hnefann á borðið og segja við þingmenn: Hversu líst þjer hnefi sjá? Ef þið viljið ekki leyfa mjer að gera það, sem er alveg nauðsynlegt að gera, ef þið leyfið mjer ekki að leggja út í sjálfsagt gróðafyrirtæki fyrir þjóðina, þá vil jeg ekki vera þjónn þessa þings. Þetta skilst mjer að hæstv. stjórn ætti að gera, og jeg hygg, að hv. þm. myndu þá þegar láta sjer segjast. Það hlýtur að vera af því, að málið er þeim ekki ljóst, að þeir feldu niður borgun til sendiherrans. Þeim þarf að skiljast, að þetta er sannarlegt gróðafyrirtæki fyrir Ísland, fyrir ríkissjóðinn meira að segja, ef ekki beint, þá óbeint. Jeg nefndi í ræðu minni um sendiherrann á dögunum allálitlegar upphæðir, sem okkur hafa græðst við það að hafa góðan sendiherra. Um einar 45 þús. munar ekkert í samanburði við þær.

En jeg segi eins og Flosi frændi minn mælti forðum, er hann var ilt verk að vinna, en nú er jeg að vinna gott verk: „Meguð þér nú vel bíða þess, er eldrinn vinnr þá“. Því að af þessu máli mun upp koma sá eldur, að jeg bíð óhræddur þess, að yfir ljúki.