08.05.1925
Efri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í D-deild Alþingistíðinda. (3440)

122. mál, útsalaá Spánarvínum í Vestmannaeyjum

Forsætisrásherra (JM):

Það er rjett hjá hv. þm. Vestm. (JJós), að Siglfirðingar hafa óskað eftir því að losna við útsöluna hjá sjer, og það mál var athugað hjer á þinginu í fyrra. Í sumar komu áskoranir frá þeim og mörgum þar í grend, og eins frá stórstúkunni, um það að losa Siglufjörð við vínsölu, um síldveiðitímann að minsta kosti. Í sjálfu sjer gæti verið mjög mikil ástæða til þess að verða við því á þeim stað.

Fyrir skemstu kom og sendinefnd frá Hafnfirðingum með þá beiðni, að útsalan þar yrði lögð niður.

Eftir því, sem mig minnir, var það í óþökk kaupstaðanna, að útsala vína var sett í hverjum þeirra. Þó hygg jeg, að engin mótmæli hafi komið frá Vestmannaeyjum í upphafi. Jeg get vel skilið ósk eyjabúa nú, eftir að reynsla er fengin, um að verða lausir við vínsöluna þar.

Í samningunum við Spánverja, sem prentaðir eru í Stjórnartíðindunum fyrir nokkru, er ekkert tekið beint fram um það, að vínverslunin hafi útsölur úti um land. Fyrverandi stjórn tók það ráð að setja útsölur í kaupstaðina alla, en hvergi annarsstaðar. Hygg jeg, að þetta hafi verið skynsamlegt, og þess er jeg fullviss, að fyrv. stjórn hefir ekki viljað fara lengra í þessu efni en hún taldi nauðsynlegt.

En öllum málaleitunum, sem komið hafa til mín um það að leggja niður útsölur, hefi jeg svarað á þann hátt, að jeg treysti mjer ekki til þess.

Svar mitt verður því hjer hið sama sem áður, að jeg treysti mjer ekki til að leggja niður vínsöluna í Vestmannaeyjum. Hitt er annað mál, að ekki er það nema gott, ef hægt væri að finna ráð til að hindra þar sem unt er misbrúkun við söluna, og vil jeg skjóta því til bæjarstjórnarinnar þar. Í það vildi jeg vel taka.