08.05.1925
Efri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í D-deild Alþingistíðinda. (3441)

122. mál, útsalaá Spánarvínum í Vestmannaeyjum

Sigurður Eggerz:

Jeg þakka hæstv. forsrh. (JM) fyrir ummæli hans um aðgerðir fyrri stjórnar í þessu máli. Jeg ætlaði fyrst að hafa aðeins eina útsölu á vínunum, en eftir að hafa ráðgast um það við samningamenn Íslands og aðra, sem best vit höfðu á því máli, sá jeg mjer ekki fært að fara skemra en þetta, að hafa útsölu í hverjum kaupstað. Og með því áleit jeg að settar væru þær takmarkanir, sem framast væri unt að setja, til þess að engu væri stofnað í hættu um fisksöluna.

En síðan hafa bannmenn verið með sífeldar árásir á mig fyrir þetta og síðast blað á Ísafirði, sem segir, að jeg verði íklæddur skömm til dauðadags fyrir afskifti mín af þessu máli. Jeg vil segja það hjer á Alþingi, að jeg álít þessar sífeldu hnippingar bannmanna í mig hinn mesta ódrengskap. Það er nú svo að segja enginn ágreiningur um, að hjá því varð ekki komist að gera samninginn við Spánverja, en þar sem nú ekki varð komist hjá því, þá varð ekki heldur hjá því komist að framkvæma samninginn á þann hátt, að í framkvæmdinni yrðu ekki búnir til nýir ásteytingarsteinar fyrir fisksöluna.

Áreiðanlega verður það aldrei til neinnar gæfu fyrir bannmálið að skjóta örvum sínum að þeim, sem fastast og trúlegast hafa staðið með því máli. Og sannfærður er jeg um það, að þeir, sem nú skjóta örvunum, mundu hafa gert alveg það sama og jeg, ef þeir hefðu farið með ábyrgðina.