08.05.1925
Efri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í D-deild Alþingistíðinda. (3443)

122. mál, útsalaá Spánarvínum í Vestmannaeyjum

Ingvar Pálmason:

Hv. 1. landsk. (SE) taldi ráðstafanirnar með útsölu Spánarvínanna hafa verið gerðar á besta hátt, og þóttist hafa fengið staðfestingu á því hjá eftirmanni sínum, hæstv. forsrh. (JM). En hann vildi láta það koma fram hjer á Alþingi, að hann hefði orðið fyrir árásum af bannmönnum fyrir framkomu sína í málinu. Jeg skal nú ekki fara mörgum orðum um þetta atriði, en vegna þess, að þessum ásökunum er beint að bannmönnum, þá get jeg ekki setið þegjandi hjá.

Jeg skal þá fyrst skýra frá því, hvernig jeg sem bannmaður lít á þessa ráðstöfun fyrverandi ráðherra (SE). En það, sem jeg segi um málið, er mín eigin skoðun og sagt á eigin ábyrgð. Hv. 1. landsk. sagði, að ekki hefði komið til mála að semja við Spánverja um útsölustaði, enda er ekkert tekið fram um það, hvort útsölustaðirnir skuli vera 1 eða 100. Það er aðeins tekið fram, að stjórnin megi ekki leggja neinar hömlur á sölu vínanna.

Jeg lít óhikað svo á, að nóg hefði verið að hafa einn útsölustað og að þáverandi stjórn hafi verið heimilt að ákveða það. Í samningnum er hvergi bent til hins gagnstæða. Á Íslandi eru nú um 100 þúsundir manna, og þótt samgöngur sjeu ekki góðar, þá ætti þó að vera nóg að hafa hjer eina áfengisútsölu. Þótt jeg viti, að hv. fyrv. ráðh. hafi breytt eftir bestu sannfæringu, þá hefir hann þó farið alt of langt, er hann ákvað fleiri útsölustaði. Og nú verður ekki úr því dregið lengur. Jeg byggi ekkert á orðum hæstv. forsrh. (JM) áðan, um að setja hömlur á vínsöluna í kaupstöðunum, því að það væri einmitt brot á samningunum, þar sem það er tekið fram, að stjórnin megi ekki hindra sölu á neinn hátt. Og eftir því, sem bæirnir stækka, má því frekar búast við, að útsölustöðum fjölgi, og geta þeir eftir nokkur ár verið orðnir 10–20.

Jeg hefi viljað láta þessa skoðun mína koma hjer fram á Alþingi. Jeg held því ekki fram, að hv. fyrv. ráðherra (SE) hafi viljað draga úr krafti bannlaganna, heldur að hann hafi ekki farið rjett að. Og flestir bannmenn munu líta á þetta mál eins og jeg.

Jeg er nú svo sinnaður, að mjer finst, að af þessum 100 dögum, sem Alþingi situr, þá sje ekki svo mörgum dögum, varið til þess að ræða bindindi, að jeg geti ekki haft góða samvisku fyrir það, þótt jeg kunni að eyða svo sem einum tíma til að tala um það mál, því að afleiðingin af Spánarvínunum hefir orðið ill fyrir alt landið og fyrir bannmálið. Jeg skal nú samt ekki orðlengja meira um þetta.