25.04.1925
Efri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í C-deild Alþingistíðinda. (3450)

26. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minnihl. (Jóhann Jósefsson):

Háttv. frsm. meirihl. (SE) hefir nú að nokkru leyti tekið það fram, sem fjhn. greindi á um. Á þskj. 367 hafa þeir fjórir nefndarmenn, sem leggja til, að málinu sje frestað, gert grein fyrir afstöðu sinni, en eins og þar kemur fram, sjest það ljóslega, að það er af ólíkum ástæðum hjá þeim, sem mynda meirihl., hverjum fyrir sig, að þeir vilja fresta því.

Eins og sakir standa, hefi jeg ekki sjeð mjer fært að fylgja tillögu um frestun málsins nú, og fyrir þeirri afstöðu minni hefi jeg gert grein á þskj. 300.

Þó vil jeg með nokkrum orðum minnast á sögu þessa máls, síðan jeg kom á þing.

Á síðasta þingi klofnaði fjhn. þessarar hv. deildar í þrent á þessu máli. Var jeg þá, ásamt hv. frsm. meirihl. (SE) í einum hlutanum. Eins og sjá má í nál. okkar, komumst við að þeirri niðurstöðu, að nauðsyn bæri til, að þetta mál yrði leitt til lykta eins fljótt og hægt væri, helst ekki síðar en á þessu þingi.

Hv. 2. þm. G.-K. (BK) hafði þá, eins og nú, sjerstöðu í málinu. Og ætti öllum að vera skiljanlegt, þegar það er athugað, að hann einn af öllum þdm. er að kalla má sjerfræðingur í bankamálum. Gerði hann þá eins og nú sjerstaka grein fyrir sinni afstöðu.

Tveir nefndarmenn, þeir hv. 5. landsk. (JJ) og hv. 2. þm. S.-M. (IP), lögðu þá til, að frv. yrði samþ. með litlum breytingum. En nú leggjast þeir aftur á móti þessu frv., sem þó í meginatriðum er samhljóða frv. frá í fyrra. Þetta er þeim mun óskiljanlegra, er þeir í áliti sínu nú drepa á, að það hafi frá í fyrra tekið ýmsum breytingum til bóta. (JJ: Og til spillingar líka). Þetta ásamt öðru sýnir, að ástæðurnar fyrir frestuninni eru ólíkar hjá hv. meirihl.

Jeg gat nú ekki sannfærst af þeim rökum, sem hv. frsm. meirihl. færði fram, að nauðsyn bæri til að fresta þessu máli nú. Því jeg lít svo á, að bráðabirgðafyrirkomulag um seðlaútgáfuna, samkvæmt lögum frá 1922, sje alveg óforsvaranlegt ástand og megi ekki eiga sjer stað til lengdar. Enda er fullkomlega ljóst, að þingið 1922 ætlaðist ekki til, að þessu máli væri skotið á frest ár eftir ár, sem er ofur-skiljanlegt, þar sem, eins og nú standa sakir, að seðlaútgáfan er komin til Landsbankans, án þess að hann hafi seðlana gulltrygða, og yfir höfuð án þess að hann hafi þær skyldur, sem seðlabanka ber að hafa.

Háttv. frsm. meirihl. talaði langt mál um nauðsyn á rannsókn í þessu máli. Jeg get að sumu leyti tekið undir það, sem hann sagði, því að altaf eru í slíkum málum nægar ástæður til að óska rannsóknar, sem færa má skynsamleg rök fyrir. En aftur ber þess að gæta, hvað fram fer meðan slík rannsókn stendur yfir. Eftir þeim verkefnum, sem til mun ætlast, að væntanleg milliþinganefnd í þessu máli hafi með höndum, verð jeg að láta í ljós efa um, að hún geti á einu ári gert svo ítarlega rannsókn á málinu, að þeir, sem nú vilja fresta því, vildu þá óska, að það kæmist í framkvæmd.

Þá mintist hv. frsm. meirihl. á, að ekki væri víst, að frv. um Ræktunarsjóðinn næði fram að ganga á þessu þingi. Væri það því eitt atriði, sem væntanleg nefnd þyrfti að rannsaka. Sömuleiðis þyrfti að rannsaka, hvort ekki gæti komið til greina, að láta veðbankann hafa seðlaútgáfuna. Ennfremur átti nefndin að rannsaka, hvort ekki gæti verið skynsamlegt að veita nýjum banka einkaleyfi.

Jafnframt vildi hann, að tekin yrði til greina uppástunga A. Nielsens, að athuga alla bankalöggjöf landsins í heild. Það ætti því öllum að vera fyllilega ljóst, að slíkt starf fyrir eina þingnefnd hlyti að vera svo mikið, að það væri of mikil bjartsýni að ætlast til, að hún gæti komið með úrlausn á öllum þessum málum fyrir næsta þing.

Eins og jeg hefi bent á, tel jeg þá skipun, sem nú er á um seðlaútgáfuna, ekki hættulausa. En jeg tel stjfrv. sæmilega og verjandi lausn á málinu. Sama telja þeir A. Nielsen og Jón Krabbe, sem leitað hefir verið álits til í þessu máli. Sá síðarnefndi telur sparisjóðsfjeð vera til styrktar bankanum, sein seðlabanka. Í sama sambandi nefnir hann veðdeildina, og fer þeim orðum um hvorttveggja, að það sje áhættulaust fyrir bankann, en gefi honum vald til þess að tryggja peningamál landsins í heild sinni.

Jeg held því vitanlega ekki fram, að hjer sje nema um álit eins manns að ræða. En hv. frsm. meirihl. hefir ekki komið fram með svo sterk rök gegn þessu, að jeg geti ekki fallist á, að fela megi Landsbankanum seðlaútgáfuna, þó að hann hafi sparisjóðsfje.

Þá mintist hv. frsm. meirihl. á, að því betur sem nefndin hefði grafið sig niður í þetta mál, því ljósara hefði henni orðið, að hjer þyrfti mikið að gera, og þetta væri þýðingarmikið mál. Jeg er honum sammála um þetta. En einmitt af því að málið er þýðingarmikið, þá vil jeg láta ráða því til lykta á viðunandi hátt, án þess að láta það dragast alt of lengi.

Þá mintist hann á deilur þær, er voru milli bankanna áður, en taldi samkomulagið nú orðið gott. Annars skildist mjer á ræðu, hans, að það, sem ylli frestunartillögunni, væri aðallega tvent. Annarsvegar uggur vissra manna við það, að Landsbankinn fari með seðlaútgáfuna. Hinsvegar þörfina á því, að rannsaka möguleikana fyrir stofnun ríkisseðlabanka. Þetta tvent virtist einkum vaka fyrir hv. 1. landsk. (SE) og valda því, að hann vill, að málinu verði frestað og athugað betur.

Jeg vjek að því áðan, að aðrir tveir nefndarmenn væru nokkuð annarar skoðunar í þessu máli nú en í fyrra, og nægir því til sönnunar að benda á nál. þeirra hv. 5. landsk. (JJ) og hv. 2. þm. S.-M. (IP) frá síðasta þingi, og nál. það, sem nú er samferða nál. meirihl. á þskj. 367. Jeg fæ ekki vel skilið, hvernig þeir hv. þm., sem voru reiðubúnir að samþykkja Landsbankafrv. í fyrra óbreytt, eða töluðu a. m. k. ekki um breytingar á því, nema helst á æðstu stjórn bankans, fara að því, að halda því fram nú, að þetta frv. sje stórhættulegt fyrir þjóðina, nema þeim hafi stórkostlega snúist hugur.

Þeir tveir hv. þm. (JJ og IP), sem jeg nefndi áðan, leggjast nú einkum á móti því, að bankinn verði hlutabanki og taki á móti fje frá einstökum mönnum. En jeg vil benda hv. þdm. á það, að þetta ákvæði stendur nú í frv. alveg eins og í fyrra, og virðist ekki vera sjerstök ástæða fyrir þá, sem vildu samþykkja bankann með hlutafje frá einstökum mönnum í fyrra, að álíta það svo stórkostlega hættulegt nú. Þetta neyðarbrauð, sem þeir kalla nú, voru þeir reiðubúnir að rjetta þjóðinni á síðasta þingi. Jeg tel annars rjett, að útiloka hlutafje frá einstökum mönnum, og hefi jeg gert grein fyrir því í nál., hversvegna jeg álít það ekki æskilegt, að einstakir menn eigi hluti í bankanum. Sú skoðun, að slíkt geti haft óheppileg áhrif á stjórn bankans, liggur alveg opin fyrir.

Nú er vitanlegt, að seðlabankar víðsvegar um heim eru aðallega taldir fjögurra tegunda: Bankar, sem eru ríkiseign, einkaeign, og bæði ríkiseign og einkaeign á mismunandi stigi. Ef banki er ríkiseign, þá leggur ríkið til alt stofnfjeð og á bankann að öllu leyti og ræður stjórn hans. Þannig eru rússneski bankinn, sænski þjóðbankinn og Búlgaríu-þjóðbankinn. Privatbankinn er t. d. hreinn hlutabanki, en ríkið skipar bara fyrir um gulltryggingu seðla og innlausn, en skiftir sjer að öðru leyti ekki af því, hvernig bankinn „disponerar“ yfir sínu fje. Má hjer og nefna til dæmis Englandsbanka. Þriðja tegund banka hefir fje frá einstaklingum, en ríkið skipar stjórn og bankaráð. Loks er 4. tegundin þar sem ríkið tekur hluti í bankanum ásamt einstaklingum, eins og upphaflega var til ætlast með þessu Landsbankafrv. Ef nú„privat“-fje erlagt í bankann, þá er hætta á því, að bankanum kunni að verða stjórnað eftir öðrum reglum en telja verður heppilegt fyrir þjóðbanka, sem hefir seðlaútgáfu með höndum, og eins rennur þá nokkuð af arðinum af seðlaútgáfunni til einstakra manna, í stað þess að lenda hjá ríkinu. Jeg hefi því leyft mjer að gera þá breytingu hjer, að „privat“-fje skuli ekki eiga aðgang að bankanum sem hlutafje, en ríkið eitt og opinberir sjóðir og stofnanir geti orðið hluthafar.

Þá vil jeg geta þess, að bæði jeg og fleiri í fjhn. lítum svo á, að 9. gr. frv. ætti að falla burtu. Í fyrsta lagi af því, að hún væri óþörf og jafnvel skaðleg. Það er heimild fyrir stjórnina, að hún megi veita bankanum undanþágu frá gulltryggingu seðla. Jeg tel óheppilegt, að þetta ákvæði standi hjer. Því þó það sje víst, að slíkt geti komið fyrir, að stjórnin verði að heimila slíka undanþágu, til bráðabirgða, þá er slíkt svo sjaldgæft, að rjettara er að veita hann með bráðabirgðalögum, þegar nauðsyn krefur.

Sem sagt, jeg get ekki fallist á nýjan frest í málinu, þrátt fyrir þær ástæður, sem fram hafa komið frá hv. meirihl. fjhn. Jeg þykist þess fullviss, að ekki muni koma fram till., sem öllum þætti viðunandi lausn á málum þessum, þó beðið væri til næsta þings, svo drátturinn mundi verða ennþá lengri. Sjálfur álít jeg, að ástandið leyfi ekki frest um óákveðinn tíma, en það er fullkomin ástæða til þess að efast um það, að nefndin fengi lokið störfum fyrir næsta þing, og enn meiri ástæða til þess að ætla, að hún yrði ekki sammála, og er þá málinu í raun og veru ekkert betur komið en nú er. Og meðan á þessu stendur, heldur þetta bráðabirgðaástand áfram. Jeg get ekki skilið, að stjórnin sjái sjer fært að halda áfram í það óendanlega að auka seðlaútgáfuna samkvæmt lögunum frá 1922, heldur yrði Íslandsbanki að stöðva inndrátt sinn. Enda heyrðist mjer á hv. frsm. meirihl. (SE), að hann áliti það líklegustu lausn málsins í bráð. Það er því, eins og jeg hefi nú leitast við að leiða rök að, alveg undir atvikum komið, hvort sú nýja rannsókn, sem hjer er farið fram á, reynist heppileg eða ekki.

En á hinn bóginn verð jeg að halda því fram, að það sje fær leið, sem þetta frv. bendir á, og ættu hv. þdm. að geta fallist á það, að afgreiða málið eins og frv. nú liggur fyrir, með þeim breytingum, sem jeg hefi leyft mjer að leggja til, að gerðar yrðu, og fleirum, t. d. þeirri breytingu á æðstu stjórn bankans, sem hv. 5. landsk. (JJ) vill gera. En vitanlega þýðir ekkert að tala um breytingar á frv., sem meirihl. þm. vill ekki leiða til lykta.

En ef horfið er að því, að fresta málinu, með það fyrir augum, að frv. um það mál, er nú liggur fyrir, nái fram að ganga á næsta þingi, þannig, að seðlaútgáfan komist í viðunandi horf, þá verður vafalaust að slá eitthvað af kröfum hv. 1. landsk. þm. (SE), sem hann vildi gera til væntanlegrar nefndar um rannsókn í málinu. Ef hún á að leysa af hendi alt, sem hann ætlast til, þá geng jeg þess ekki dulinn, að fresturinn verður að vera miklu lengri en eitt ár. Þessvegna hefi jeg ekki viljað aðhyllast frestinn, en legg til, að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem jeg hefi leyft mjer að gera og standa á þskj. 300.