04.05.1925
Neðri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í C-deild Alþingistíðinda. (3455)

47. mál, laxa og silungaklak

Pjetur Ottesen:

Eins og komið er, þýðir líklega ekki að fjölyrða um frv., því að það hefir verið dregið á langinn í nefndinni og dregið á langinn að taka það á dagskrá. Kemst það því ekki fram á þessu þingi, enda þótt það hefði fylgi til þess. 19. febrúar kom málið til 1. umr. Svo var það í mánuð hjá nefndinni, og síðan nál. kom eru nú liðnar 6 vikur. Þetta er því alllangur tími. Landbúnaðarnefnd hefir farið með þetta mál eins og fleiri landbúnaðarmál, að hún vísar þeim frá sjer og treystist ekki til þess að gera ákveðnar till. um þau. Það er þá fyrst og fremst þetta mál og svo frv. um innflutningsbann á heyi. Má og minna á tvö önnur mál. Hið fyrra um kynbætur hesta. Nál. í því máli kom fyrst í dag, en 7 vikur eru síðan nefndin tók við því. Hitt málið er um sölu á tilbúnum áburði. Því var vísað til nefndarinnar fyrir löngu, en ekkert farið að bóla á því enn.

Í nál., er hjer liggur fyrir, er viðurkent, að tilgangur frv. sje rjettmætur, að koma upp sameiginlegum klakstöðvum fyrir lax og silung. Í framsöguræðu sinni dró hv. þm. Mýra. (PÞ) úr þessu og sagði, að af því að kostnaður við slíkar klakstöðvar væri svo hverfandi lítill, þyrfti ekki slík heimildarlög. Nefndi hann þar sem dæmi klakhús á Mýrum. Kostnaðinn við það taldi hann 400 kr. og rekstrarkostnað í hlutfalli við það. Mýramenn þyrftu ekki að gera samþyktir, þeir væru svo fjelagslyndir. Út frá þessum forsendum dró svo hv. frsm. (PÞ) þá ályktun, að óþarft væri að skipa þessum málum með lögum.

En nú er einmitt því til að svara, að þó að dæmi það, er hann tók, sje í alla staði rjett, þá er vitanlegt, að annarsstaðar hefir laxa- og silungaklak verið rekið í svo miklu stærri stíl og með miklu meiri kostnaði, að full nauðsyn er á, að reglur sjeu settar um slíka starfsemi sem allra fyrst. Mjer er líka kunnugt um, að sumstaðar hefir komið til tals að byggja steinsteypt klakhús og vanda sem best til þeirra. Þau mundu kosta frá eitt til tvö þúsund krónur, og þegar t. d. margir búendur úr ýmsum hreppum stæðu að byggingu slíkra klakhúsa og starfrækslu þeirra, þá leiðir af sjálfu sjer, að þörf er á að geta með samþyktum trygt það, að allir þeir, sem hafa aðstöðu til að geta notið hagsmuna af klakinu, sjeu einnig skyldir að leggja nokkuð af mörkum til þess. Mönnum á ekki að geta haldist uppi að skerast úr leik og hliðra sjer hjá að greiða kostnað við slíka framkvæmd í rjettu hlutfalli við aðra.

Það væri vitanlega æskilegast, að allur fjelagsskapur væri svo góður, að ekki þyrfti neinar samþyktir eða reglur til þess að tryggja jafna hagsmuni fjöldans, en reynslan hefir nú sýnt annað. Og þessvegna eru mörg hliðstæð dæmi, þar sem ýmiskonar samþyktir og reglur hafa verið settar til tryggingar þessu.

Þar sem samkomulag næst um þetta, þarf vitanlega ekki að grípa til samþyktanna, og samkomulag mun að sjálfsögðu nást um þetta í mörgum tilfellum, og þá sjerstaklega þegar um er að ræða klakstöðvar, sem lítið kosta, eins og þá, sem hv. frsm. nefndi þarna vestur á Mýrum.

Jeg vil aðeins taka það fram, að hjer er um svo stórmerkilegt velferðarmál að ræða — laxa- og silungaklak komið á svo góðan rekspöl viða um land — að sjálfsagt er að draga ekki úr hófi fram að setja þá löggjöf, er vernda megi og tryggja sem best allar framkvæmdir þess. En á meðan slík löggjöf verður ekki sett, er ekki fyrirbygt, að hlaupið geti snurða á framkvæmdirnar og valdið misklíð og drætti á framkvæmd verksins, til tjóns fyrir alla hlutaðeigendur.

Jeg gat þess við 1. umr. þessa máls, að okkur flm. hefði yfirsjest að taka upp í frv. ákvæði um það, hvernig haga skyldi framkvæmdum samþyktarinnar um veiðiá, sem skifti tveimur sýslum, og skaut þá jafnhliða til hv. landbn. að samrýma þetta og skera af agnúana. Þessu hefir hv. frsm. (PÞ) ekki svarað nema með tómum útúrsnúningum. Jeg sje ekki annað en auðveldast hefði verið að ráða fram úr þessu með því að ákveða, að sameiginlegur sýslufundur hefði fjallað um málið. Og hefðum við flm. búist við, að þessi agnúi frv. yrði þess valdandi, að nefndin sæi sjer ekki fært að sinna því, hefðum við komið með brtt. En við treystum því, að hv. landbn. gæti ráðið fram úr jafnvandalausu máli og vorum því grandalausir.

Þá mintist hv. frsm. (PÞ) á ádráttarveiði og virðist lítið fróðari um, hvernig henni hagar til á ýmsum stöðum, heldur en um annað í sambandi við þetta mál. Jeg hefi fyrir mjer dæmi af laxveiðiá, þar sem svo hagar til, að af ádráttarveiðinni getur meginið af öllum laxi, sem í ána leitar, fallið til einstakra manna. Með bættum tækjum mun venjulega hægt að taka meginið af þeim laxi, sem í þessa á gengur, strax niður undir sjó og stöðva þannig göngu hans lengra upp eftir. Og þetta er auðvelt í þurkasumrum, eða hvenær sem ekki er flug í ánni. Nú hagar svo til, að ofarlega í ánni er foss, sem ekki hefir verið laxgengur fyr en í fyrra, að hafist var handa með að sprengja hann. En það verk vanst svo seint, að menn vita ekki með vissu um árangur þess. Þó er talið víst, að laxinn geti nú óhindrað komist leiðar sinnar upp eftir ánni og alla leið í vötn þau, sem áin rennur úr, en þar hefir ennfremur verið komið upp klaki, og var fyrsta tilraunin með að klekja þar út gerð á síðastliðnu hausti. Er mjer sagt, að tilraunin hafi tekist vel.

Nú leiðir það af sjálfu sjer, að þar sem svona hagar til, að einn veiðieigandi hefir aðstöðu til þess með ádráttarveiði að ná meginhluta laxins, sem í ána gengur, að það er hart fyrir þá, sem ofar búa og hafa lagt í mikinn kostnað við að auka laxgengd í ána, að þeir beri lítið eða ekkert úr býtum fyrir sína fyrirhöfn. Allir hljóta að sjá og viðurkenna, að annað eins og þetta er mjög óeðlilegt.

Fleiri dæmi þessu lík munu sjálfsagt vera til víðsvegar um landið, en hinsvegar hagar vitanlega mjög misjafnlega til með veiði í ánum eða aðstöðu einstakra manna til veiða. Þessvegna fórum við þá leiðina, flm., að hafa þetta í samþyktarformi, svo að heimildin um takmörkun veiðinnar yrði aðeins notuð þar sem full þörf væri hennar. Því er mjer óskiljanlegt með öllu, hvað því getur valdið, að hv. landbn. vill ekki fallast á að veita hjeraðsstjórnum heimild til slíkra samþykta.

Síðan laxveiðalögin voru sett, en þau eru nú orðin nær 40 ára gömul, hefir útbúnaði við veiðarnar farið mikið fram, og það er ekkert undarlegt, þó af slíkum framförum leiddi það, að breyta þyrfti ýmsum ákvæðum þessara laga, svo sá jöfnuður á veiðinni, sem lögin stuðluðu að, miðað við þær kringumstæður, er þá voru, hjeldist framvegis, þrátt fyrir breytinguna, sem á er orðin nú.

Þá var það misskilningur hjá hv. frsm., sem hann að vísu leiðrjetti, er jeg skaut fram í ræðu hans, að ádráttarveiði væri aðeins stunduð neðarlega í ánum. En það hagar nú einmitt víða svo til, og svo er það um alt Borgarfjarðarhjerað, að það má engu síður koma við ádráttarveiði framarlega í ánum eins og við árósana, nema fremur sje. Svo er það t. d. með Laxá, Grímsá, Reykjadalsá, Flókadalsá og sjerstaklega þó Þverá, í hans eigin kjördæmi, að þar er einkum hægt um ádráttarveiði eftir því sem ofar dregur, og jafnvel best fyrir ofan alla mannabygð.

Viðvíkjandi hömlum þeim, er hv. frsm. benti á, að setja þyrfti um laxveiði til klaks, þá gæti verið athugavert, að þær hömlur yrðu svo víðtækar, að bannað yrði að veiða laxinn á haustin, þegar hann er í þann veginn að hrygna, því það gæti verið sama sem að banna alla klakhúsastarfsemi.

Annars sje jeg ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta. Það er þegar komið sem komið er, og örlög þessa frv. fyrirsjáanleg á þessu þingi. En hefði málið verið fyr á ferðinni frá hv. landbn., þá mundum við flm. hafa reynt að koma þessari dagskrártill. hennar fyrir kattarnef og fá frv. samþykt. En eins og nú er áliðið þingtímans, er vitanlega óhugsanlegt, að hægt sje að koma málinu fram.