16.02.1925
Neðri deild: 8. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

5. mál, skiptimynt

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg leyfi mjer að þakka hv. allshn., hversu fljótt hún hefir afgreitt mál þetta, og get jeg fyrir mitt leyti vel fallist á aðalbrtt. nefndarinnar. Ástæðan til þess, að í frv. var ekki þegar fastákveðið, að slegnir skyldu eineyringar samtímis hinum mynttegundunum, er sú, að meðan gildi peninga er eins lágt og það núer, þá eru 2 aurar jafnlítil verðeining og 1 eyrir var áður, og þótti því ekki jafnmikil ástæða til, frá sjónarmiði verslunar og viðskifta, að halda eineyringunum áfram. Þó get jeg fallist á, að fólk muni kunna betur við, að slegnar verði allar sömu tegundir mynta, sem áður voru hjer í umferð, og hefi jeg því ekkert á móti þessari brtt. hv. allshn. Hin brtt., sem eingöngu er orðabreyting, virðist mjer vera til bóta, og get því einnig fallist á hana.

Viðvíkjandi stafsetningarvillu þeirri, sem er á sumum uppdráttunum og háttv. frsm. (ÁJ) gat um, skal jeg geta þess, að uppdrættirnir voru samþyktir með þeim sjálfsagða fyrirvara, að villan yrði leiðrjett.