09.03.1925
Neðri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

6. mál, póstlög

Frsm. (Jón Kjartansson):

Það eru aðeins örfá orð, er jeg vildi láta fylgja til árjettingar nál. Frv. þetta er komið frá hv. Ed., eins og kunnugt er, og þangað komið frá póststjórninni. Aðalbreytingarnar, sem hv. Ed. gerði á frv., eru í því fólgnar að lækka gjald af minstu póstávísunum úr 30 aurum niður í 15 aura. Er þetta aðallega gert vegna blaðanna, sem alment mun vera orðið, að borguð sjeu með póstávísun. Raunar virðist þetta dálítið óeðlilegt að hafa þetta gjald svona lítið, þegar miðað er við það, að undir almenn brjefspjöld eru einnig greiddir 15 aurar. En sem sagt, almenningi kemur þetta vel, einkum hvað borgun blaða og tímarita snertir.

Frekar þarf jeg ekki um mál þetta að ræða, en leyfi mjer að leggja til, að hv. deild samþykki frv. eins og það er á þskj. 104.