09.03.1925
Neðri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

86. mál, Landhelgissjóður

Forsætisráðherra (JM); Eins og búast mátti við, hafa engin mótmæli komið fram gegn frv. þessu. En út af ummælum háttv. þm. Str. (TrÞ) vil jeg taka það fram, að um ný framlög frá ríkissjóði til byggingar þessa skips er ekkert að tala hjer, heldur aðeins um greiðslu á skuldum frá ríkissjóði til landhelgissjóðs. Um framlög frá ríkissjóði er því hjer ekkert að tala, nema til rekstrar skipsins að nokkrum eða miklum hluta.

Út af ummælum háttv. þm. Dala. (BJ) skal það tekið fram, að slíka heimild, sem hjer er farið fram á að fá, varð stjórnin að hafa til þess að mega nota landhelgissjóðinn, því að þó heimild sje til fyrir stjórnina að láta byggja skip til strandvarna, þá hefir hún ekki heimild til að nota fje úr landhelgissjóði til þess.

Leyfi jeg mjer svo að leggja til, að málinu verði vísað til sjávarútvegsnefndar.