26.03.1925
Neðri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Úr því að hv. frsm. minni hl. (BJ) óskar ekki að taka til máls nú þegar, þá skal jeg leyfa mjer að segja fáein orð. Jeg get þá fyrst þakkað hv. fjvn. fyrir það, að hún tjáði sig geta algerlega fallist á þá stefnu, sem jeg lýsti hjer fyrir stjórnarinnar hönd við 1. umr. fjárlaganna, sem sje að greiða lausaskuldir ríkissjóðs á næstu þrem árum, og takmarka heldur framkvæmdir ríkissjóðs, eftir því sem nauðsyn krefur, þennan sama tíma. Nefndin hefir skilið það alveg rjett, að í þessu er einmitt fólginn sá mesti og besti stuðningur, sem löggjafarvaldið að svo stöddu getur látið atvinnuvegunum í tje. Það er sem sje að skila aftur því lánsfje, sem ríkissjóður hefir undir sig lagt á undanförnum árum, til þess að það geti runnið þangað, sem það fyrst og fremst á að renna, til eflingar atvinnuvegunum. En jeg vil bæta því við, að eitt af því lakara, sem þetta löggjafarvald gæti aðhafst gagnvart atvinnuvegunum á þessu sama tímabili, sem er uppgangstímabil fyrir atvinnuvegina, er það, ef nú væri farið svo freklega í aukning opinberra framkvæmda, að stofnað yrði til kapphlaups við atvinnuvegina um vinnukraft þau árin, sem hagur atvinnuveganna er góður og þeir geta dregið til sín miklu meiri vinnukraft en þeir eru færir um, þegar erfiðir tímar koma. í þessu efni er það sú rjetta stefna fyrir löggjafarvaldið að hyllast til þess, að opinberar framkvæmdir falli meira á mögur ár fyrir atvinnuvegina heldur en uppgangsárin; með þessu er bæði atvinnurekendum og verkafólki betur borgið, með því að ríkisframkvæmdir komi sem nokkurskonar uppbót, þegar atvinna rýrnar, heldur en að ríkisframkvæmdum sje hleypt í algleyming á þeim tíma, sem atvinnuvegirnir geta notað mestallan þann vinnukraft, sem til er í landinu. Jeg verð að álíta, að frá hvorri hliðinni, sem litið er á málið, frá skuldagreiðslu eða að fara sjer fremur hægt um opinberar framkvæmdir, sje hvorttveggja rjett gagnvart atvinnuvegum landsins.

Að öðru leyti vil jeg svo bæta því við um till. nefndarinnar, að mjer þykir hún að vísu fara fulllangt í till. sínum um hækkun á útgjöldum, frá því sem stungið er upp á í stjfrv. Það mun vera full 300000 kr., sem nefndin gerir ráð fyrir, að útgjöldin hækki, og verð jeg þó að viðurkenna, að niðurstaðan væri viðunandi, ef ekki yrði meira úr þessu en nefndin leggur til. Það er gamalt orðtæki hjá okkur, að það þarf sterk bein til að þola góða daga. Þetta sannaðist átakanlega á íslenska löggjafarvaldinu eftir að stríðinu ljetti, árin 1919 og 1920. Árið 1919 var gott ár, en menn þoldu það ekki betur en svo, að nú sýnist eftir á, sem allri gætni hafi verið varpað fyrir borð á eftir þessu góða ári, og undir þeim afleiðingum búum vjer ennþá. Vil jeg ekki gera ráð fyrir, að svo takist til annað sinn, svo skömmu eftir að vjer höfum fengið þessa viðvörunarreynslu, en þó get jeg ekki varist þeirri hugsun, að það eru orðin of mikil umskifti á hugsunarhætti hv. þm. yfirleitt, að því er mjer finst, frá því á síðasta þingi, en það mun vonandi ekki vera annað en þeir góðu dagar, sem síðastliðið ár leiddi yfir landið, sem hafa valdið þessari breytingu á hugsunarhættinum. Jeg vil samt fastlega vona, að gætnin verði að öllu leyti yfirsterkari á þessu þingi, þegar til kastanna kemur, og til þess að reyna ennþá að gæta fullrar nákvæmni, vil jeg minna á það, sem jeg hefi sagt áður, að til tekjuafgangs síðasta árs, sem búist er við að hafi orðið um 11/2%milj. kr., má finna tvær skýringar. Önnur er sú, að útgjöldunum var þrýst niður um 11/2 milj. kr. frá því, sem þau höfðu verið árið 1923, og þetta varð auðvitað ekki gert nema með því að fella niður hjer um bil allar verklegar framkvæmdir ríkissjóðs. Ef þetta hefði ekki verið gert, hefði enginn tekjuafgangur orðið, þrátt fyrir gott ár og nýja tolla. Þetta bið jeg háttv. þm. að hafa hugfast, þegar þeir eru að gera upp við sig, hvort fært sje að leggja út í samskonar framkvæmdir og þær, sem feldar voru niður síðastliðið ár. Hin ástæðan, sem segja má að hafi skapað þennan tekjuafgang, var góðæri. Þegar menn draga frá tekjurnar af þeim nýju lögum, sem sett voru á síðasta þingi, svo samviskusamlega sem unt er, þá sjest, að árið 1924 eru þær 11/2 milj. kr. hærri en þessar sömu tekjur voru 1923, og þessi munur getur ekki stafað af öðru en mismun á árferði, og getur því horfið aftur hvenær sem því hallar, svo að það verði ekki betra en árið 1923. Jeg vona því, að hv. þm., þrátt fyrir þessa stundarvelgengni, hafi það hugfast, að það eru engin rök fyrir því, að hverfa megi frá þeirri gætni, sem var viðhöfð síðastliðið ár.

Þá vil jeg enn minna hv. þm. á það, að það er gömul reynsla í okkar fjármálastjórn, að til þess að tekjur og gjöld ríkissjóðs standist á í landsreikningunum, þurfa tekjurnar að reynast um 15% hærri en þær eru áætlaðar í fjárlögum, sem þingið afgreiðir tekjuhallalaus, sem kallað er.

Þannig hefir þetta gengið undanfarin ár, og ef við lítum á skýrslu um afkomu ársins 1924, þá sjáum við fljótt, að það ár er engin undantekning frá þessari venju, því að útgjöld ársins eru í heild um 15% hærri en áætlun fjárlaganna sýndi.

Þess vegna er hætt við því, ef tekjuáætlanir fjárlaganna verða ekki svo varlegar sem skyldi, þá fari ver í framkvæmdinni.

Nú hefir hv. fjvn. hækkað tekjuáætlun fjárlagafrv. um 930 þús. kr., og get jeg ekki staðhæft, að þetta sje óforsvaranleg hækkun, sjerstaklega ef þess er gætt, að á móti verði settur nýr gjaldaliður, afborganir lausaskulda ríkissjóðs, eins og hv. nefnd líka gerir till. um.

Í þetta sinn var gengið svo gætilega frá tekjuáætluninni til þess fyrst og fremst, að orðið gæti afgangur til greiðslu einhvers hluta lausaskuldanna, og auk þess má búast við, að nokkurt fje þurfi til þess að standast umframgreiðslur á útgjaldaliðunum, sem reynslan hefir sýnt, að ekki verður hjá komist.

Eins og hv. þm. er kunnugt, lá skýrsla um afkomu ársins 1924 ekki fyrir, þegar fjárlagafrv. var samið, en jeg get hugsað mjer, að nokkrir tekjuliðir hefðu verið áætlaðir hærri í frv., ef sú skýrsla hefði verið fyrir hendi.

Jeg get þess vegna ekki beinlínis lagst á móti þessari hækkun tekjuliðanna, sem hv. nefnd stingur upp á.

Um einstaka tekjuliði get jeg verið fáorður.

Hv. nefnd leggur til, að áætlunin um útflutningsgjald verði hækkuð úr 700 þús. kr. upp í 800 þús. kr. Hvort þessi hækkun reynist forsvaranleg, veltur á því, hvað gerist um gengi ísl. krónunnar frá þessum tíma til ársloka 1926, því að þessi liður, að undanteknu útflutningsgjaldi af síld, hækkar með lækkandi gengi krónunnar. Í tvem síðustu hækkunartill. sínum, tekjum af víneinkasölu og tóbakseinkasölu, finst mjer hv. nefnd einnig hafa farið fram úr því, sem eftir almennum reglum getur talist gætileg áætlun, að óbreyttri löggjöfinni að öðru leyti. Hv. nefnd vill áætla báða þessa tekjuliði talsvert hærri en þeir reyndust árið 1923, eða sem næst meðaltali áranna 1923—24, en þess ber að gæta, að síðasta ár gáfu þessi fyrirtæki alveg óvenjulega góðar tekjur. Áætlun stjfrv. var jafnhá tekjunum, sem þau gáfu árið 1923. Að vísu runnu ekki allar tekjur víneinkasölunnar það ár í ríkissjóð, heldur var nokkrum hluta þeirra bætt við rekstrarfje verslunarinnar sjálfrar.

Annars nema þessar tvær hækkanir ekki svo mikilli upphæð, að jeg telji þær skifta verulega miklu máli að því er snertir áætlun tekna samkv. 2. gr. fjárlaganna í heild. Hv. þm. verða fyrst og fremst að hafa í huga og vinna að því, að 2. gr. gefi nægilegar tekjur umfram áætlun til þess að ríkissjóður fái staðist þær umframgreiðslur, sem við vitum af reynslunni, að hann verður að inna af hendi. Og jeg hygg, að greinin í heild sje, samkvæmt till. hv. nefndar, forsvaranlega áætluð að þessu leyti.

Þó vil jeg þar við gera þá aths., að þegar hv. nefnd færir áætlaðar tekjur af verðtolli úr 450 þús. kr. upp í 800 þús. kr., þá er annað ekki forsvaranlegt en að þetta þing gangi svo frá verðtollslögunum, að trygt sje, að þau gildi til ársloka 1926.

Að stjórnin áætlaði verðtollinn ekki hærri en 450 þús. kr., stóð í sambandi við það, að hún hefir ekki lagt til, að verðtollslögin yrðu framlengd lengur en til loka 1. ársfjórðungs 1926, og gat því ekki vitað nema næsta þing breytti þeim svo, að tekjur ríkissjóðs rýrðust að mun.

En í samræmi við þessa till. hv. fjvn. verður þetta þing óhjákvæmilega að ganga svo frá lögunum, að þau haldi gildi alt næsta ár, og í því formi, að þau gefi ríkissjóði hinar áætluðu tekjur.

Um till. hv. nefndar, sem snerta þann hluta gjaldabálksins, sem nú er til umr., skal jeg vera stuttorður.

Gjaldatill. samkv. stjfrv. hefir hv. nefnd aðeins farið fram á að lækka um 5500 kr. samtals.

Jeg verð að segja, að jeg hefi ekki fundið rök fyrir neinni niðurfærslu hv. nefndar, og hefði jeg talið rjettast, að hún hefði látið alla þessa liði standa óbreytta, úr því að hún fann ekki ástæðu til fleiri slíkra breytinga.

Jeg hefi áður lýst yfir því, að jeg er samþykkur till. hv. nefndar um að verja 600 þús. kr. til afborgunar lausaskulda, og tel jeg það í fullu samræmi við brtt. hennar við tekjuáætlunina; og þó að jeg ætli ekki að gera brtt. háttv. milli hl. (BJ) eða einstakra hv. þm. að umræðuefni í þetta sinn, þá skal jeg samt gera undantekningu að því er snertir till. hv. minni hl. fjvn. (BJ) um að ákveða þessa fjárhæð ekki hærri en 300 þús. kr.

Eftir að búið er að hækka tekjuáœtlunina eins og háttv. nefnd vill gera, þá er með engu móti forsvaranlegt að áætla þennan lið lægri en 600 þús. kr., ef nokkur von á að vera til þess, að takmarkinu verði náð og tiltölulegur hluti lausaskuldanna verði greiddur á næsta ári af þremur.

Þá hefir háttv. nefnd lagt til, að ríkisráðskostnaður verði lækkaður úr 8 þús. kr. niður í 4 þús. kr.

Það er ekki auðvelt að gera þetta mál mikið að umtalsefni hjer í háttv. deild, en mjer þykir leitt, að háttv. nefnd hefir ekki getað fallist á ástæður þær, sem fyrir henni voru fram bornar í þessu efni, og hefði mjer þótt eðlilegast, eftir því hversu vel hún að öðru leyti hefir fallist á till. stjórnarinnar, að hún hefði einnig í þessu atriði trúað stjórninni til að hafa ekki farið lengra en þörf landsins krefði. Jeg verð því að leyfa mjer að fara þess á leit við háttv. þdm., að þeir láti upphæð stjfrv. standa óbreytta.

Þá þarf jeg að gera dálitla grein fyrir till. stjórnarinnar um greiðslu til aðstoðarlœknisins á Ísafirði, sjerstaklega út af ummælum hv. nefndar um þessa fjárveitingu, sem hún leggur til að færð verði niður um 500 kr., og byggir þá till. sína á því, að ríkissjóði beri engin lagaskylda til að launa þennan lækni.

Jeg skal fúslega viðurkenna, að áður en stjfrv. var samið hafði jeg ekki rannsakað þetta mál sem skyldi. En þegar jeg sá þessi ummæli hv. nefndar, taldi jeg mjer skylt að rannsaka málið eftir föngum, og nú skal jeg skýra hv. deild frá niðurstöðunni, sem jeg komst að.

Þá er þess fyrst að geta, að sýslan þessi var stofnuð samkv. 2. gr. laga nr. 34, 16. nóv. 1907, um skipun læknishjeraða, og voru launin ákveðin í 3. gr. sömu laga 800 kr., en þá höfðu hjeraðslæknar yfirleitt 1500 kr. árslaun. Hvorug þessi lagagrein hefir verið úr gildi numin, svo að jeg viti til.

Þessi sýslan var síðan auglýst laus með umsóknarfresti til 5. apríl 1908 og var veitt 30. maí s. á. þeim manni, sem enn situr í embættinu samkv. þessari veitingu.

Árið 1919 var launamál embœttis- og sýslunarmanna alt til meðferðar hjer í þinginu. Nefndin, sem hafði málið til meðferðar, lagði til, að aðstoðarlæknirinn fengi 2500 kr. byrjunarlaun, hækkandi upp í 3500 kr. Þetta var samþykt við 2. umr. hjer í háttv. deild, án mótatkvæða, að því er jeg best veit, og stóð ákvæðið í frv. gegnum þessa hv. deild og við 1. og 2. umr. í hv. Ed. En við 3. umr. í hv. Ed. var borin fram brtt. um að fella þetta ákvæði burt úr frv. af þeim ástæðum, að þá var enginn aðstoðarlæknir lengur á Akureyri, en samkv. áður nefndum lögum frá 1907 var aðstoðarlæknissýslan stofnsett bæði á Akureyri og Ísafirði.

Þessi brtt. var flutt af þáverandi þm. Ak., Magnúsi Kristjánssyni, og bygð á því, að ekki vœri rjett að setja ákvœði um þennan aðstoðarlœkni á Ísafirði í launalögin, þar sem enginu slíkur læknir vœri lengur á Akureyri, en hinsvegar var alment samkomulag um það, að núverandi aðstoðarlæknir á Ísafirði œtti ekki að bíða tjón við þessa ráðstöfun.

Um þessa brtt. segir frsm. launamálanefndarinnar í hv. Ed., Kristinn Daníelsson:

„Þá er brtt. á þskj. 765. Getum við fallist á hana, enda fer hún í raun rjettri ekki fram á annað en það, sem til er ætlast í frv. sjálfu, að þessi staða falli niður með þeim manni, sem nú gegnir henni. En þó er þetta með því skilyrði, að honum sje bætt upp í fjárlögunum, svo að hann bíði ekki halla“.

Flm. till., Magnús Kristjánsson, segir svo, eftir að hafa fært fram ástæður sínar fyrir henni;

„Hinsvegar er það ekki ætlun okkar að baka þessum manni óþægindi eða fjártjón, og er því gert ráð fyrir, að honum verði í fjárlögunum veitt hæfileg upphæð þangað til hann á kost á viðunanlegu embætti annarsstaðar“

Þessi brtt. var síðan samþykt með 8 shlj. atkv., og þannig kom málið til hv. Nd. Þegar frsm. frv. í þessari hv. deild skýrði frá breytingum þeim, sem orðnar væru á frv., gat hann ekki um þessa, og var þar í samræmi við það, sem sagt hafði verið í háttv. Ed., að þetta væri í raun og veru engin breyting.

Síðan kom mál þetta á dagskrá við umr. fjárlaganna fyrir árin 1920–’21, sem voru afgreidd á þessu sama þingi. Við 3. umr. fjárlagafrv. í hv. Ed. bar fjvn. fram till. um að veita aðstoðarlækninum 2000 kr. hvort árið, í viðbót við 800 kr. lögmœlt laun hans. Hv. þm. Snœf. (HSteins) flutti brtt. um að hækka þessa fjárveitingu upp í 4000 kr., eða samtals 4800 kr. hvort árið, og út af þeirri brtt. segir frsm. launamálanefndarinnar, Kr. Dan.:

„Af því að hv. þm. Snæf. (HSt) vitnaði til frsm. launanefndarinnar, þykir mjer rjett að standa upp og staðfesta skýrslu hans, því að hún var í alla staði rjett. Þegar launanefndin gekk að því, að aukalæknirinn á Ísafirði væri færður í fjárlögin, þá var það beint með því skilyrði, að læknirinn biði engan halla. Jeg treysti því þess vegna, að hv. deild samþykki þessa till. hv. þm. Snœf. (HSt), enda er hún mjög hófleg, með því að rjettu lagi átti læknirinn að fá 2500 kr. — dýrtíðaruppbót“.

Þessi till. fjell með jöfnum atkvæðum í háttv. Ed., en var tekin upp í hv. Nd. af frsm. fjvn. og samþykt þar, án mótatkvæða, með tilvísun til loforðs frsm. launamálanefndar Ed., og þannig lauk málinu í þetta sinn.

Jeg held nú, að hv. fjvn. geti illa staðið við þau orð sín, að ríkissjóði beri engin skylda til að launa þennan að aðstoðarlækni. Að minsta kosti á hann heimtingu á 800 kr. árslaunum samkv. lögunum frá 1907, og er þá lægst launaði starfsmaður ríkisins, því að talsímameyjar, sem annars munu hafa lægst laun, fá þó 900 kr. byrjunarlaun.

Og jeg verð að segja, að ef þingið á annað borð getur gefið bindandi loforð öðruvísi en í lagaformi, þá hefir það verið gert hjer.

Loforð þingsins eru hjer yfirleitt svo skýr frá öllum hliðum, að þau verða ekki gefin skýrari, nema með lögum.

Ef jeg hefði verið búinn að athuga þetta svo nákvæmlega áður en fjárlagafrv. var samið, þá hefði jeg hiklaust ákveðið þennan lið 2500 kr. + dýrtíðaruppbót, en með því fær læknirinn þó ekki rjett sinn allan, því að loforðið um aldurshækkun er ekki þar með efnt.

Nú hefir hv. frsm. minni hl. (BJ) lagt til að hækka liðinn upp í 2500 kr., og er það rjett spor, það sem það nær, en þó vantar enn dýrtíðaruppbótina, svo framarlega sem þingið vill standa við loforð, sem það hefir gefið svo skýrt sem unt er.

Af því, sem jeg nú hefi sagt, vona jeg, að hv. fjvn. skiljist, að jeg get ekki fallist á þá till. hennar að færa upphæðina í stjfrv. niður, þar sem hún er þegar langtum lægri en loforð standa til.

Aðrar till. háttv. nefndar við þennan kafla fjárlagafrv. finn jeg ekki ástæðu til að gera að umtalsefni í þetta sinn.