01.04.1925
Efri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

86. mál, Landhelgissjóður

Jóhann Jósefsson:

Jeg vildi segja örfá orð um þetta merka mál við 3. umr., vegna þess, að nú stendur Alþingi á þröskuldinum að koma í framkvæmd þeirri hugmynd, sem hefir vakað fyrir þinginu 1913 og sjerstaklega fyrir flm. frv. um landhelgissjóð Íslands.

Á þessum fáu árum, sem síðan eru liðin, hefir sjóður þessi vaxið svo ört, að nú þykir fært að láta hann taka til starfa á þann hátt, sem til var ætlast í upphafi, þ. e. a. s. að verja honum til kaupa á strandvarnaskipi.

Þetta er mjög þýðingarmikið spor, sem nú er stigið, þýðingarmikið fyrir sjávarútveginn og jafnvel fyrir alt landið í heild. Um mörg ár hefir eftirlitið með landhelginni verið framkvæmt af annari þjóð, sambandsþjóð vorri, Dönum, og mjer finst rjett að taka það fram einmitt um leið og við sjálfir treystum okkur til að kaupa okkar eigið strandvarnaskip, treystum okkur til að taka hluta af eftirlitinu, eða ef til vill mest af því, í okkar hendur, þá finst mjer rjett að geta þess, að landhelgisgæslan af Dana hálfu hefir að mínum dómi oft verið miður þökkuð en skyldi. Að oft hefir hinum dönsku varðskipsforingjum, sem yfirleitt hafa lagt sig mjög í framkróka að því er strandgæsluna snertir — þó þeir hafi ekki allir gert það jafnt — verið álasað að óþörfu. Yfir höfuð að tala hefir mönnum hjer á landi oftlega hætt við því að taka aðeins eftir því, sem aflaga hefir þótt fara að því er snertir landhelgisgæsluna í höndum Dana. Þar með er ekki sagt, að jeg álíti, að sú landhelgisgæsla hafi verið svo fullkomin sem skyldi, en hún hefir oftlega verið framkvæmd með miklum dugnaði. Þar hafa tíðum verið við skipstjórn ágætir menn og duglegir, sem hafa viljað vanda sig í öllu sínu starfi og lagt sig í líma við að rækja það. Það má því ekki minna vera en að þessum mönnum sje nú þakkað og viðleitni þeirra viðurkend, einmitt á þessu stigi málsins, er vjer höfum hug á því að taka sjálfir meiri þátt í starfinu en vjer höfum gert til þessa. Þá er og rjett að geta þess, að vjer höfum fundið hjá sambandsþjóð vorri glöggan skilning á þeirri litlu viðleitni, er vjer þegar höfum viðhaft til að auka landhelgiseftirlitið. Þeir hafa sýnt oss velvild í þeim efnum og stutt oss í framkvæmd hins íslenska eftirlits, einkum hinir dönsku yfirmenn varðskipanna hver fram af öðrum. Þegar á það er litið, hvernig landhelgisgæslan hefir verið framkvæmd á umliðnum árum, þá verða menn að gera sjer þetta ljóst, að það eru ekki innlendir menn, ekki menn, sem hafa verið svo kunnugir staðháttum eins og menn hjer uppaldir, er hafa framkvæmt verkið, heldur útlendingar. En það er einmitt þetta atriði, sem oft hefir gleymst að taka með í reikninginn, að mennirnir, sem verkið intu af hendi, voru ókunnir staðháttum, útveginum og öðru því, sem má að haldi koma til þess að eftirlitið með landhelginni komi að sem bestum notum. Jeg á hjer við það, sem komið hefir fram í landhelgisgæslumálinu á öllum tímum, og eðlilegt var að kæmi fram, af því að verkið var framkvæmt af útlendri þjóð, sem sagt það, að meiri áhersla hefir verið á það lögð að ná í sökudólgana og draga þá fyrir lög og dóm heldur en hitt, að varna lögbrjótunum þess að fara inn á landhelgissvæðið. Jeg hygg, að þeir, sem landhelgisgæsluna hafa haft á hendi, hafi lagt mesta áherslu á fyrra atriðið, en minni og ef til vill ekki nóga áherslu lagt á hið síðara atriði.

Þegar nú ríkið ætlar að fara að halda úti strandvarnaskipi, finst mjer rjett að benda á þetta, einmitt af því að jeg hefi þann heiður að vera staddur hjer fyrir það kjördæmi, sem jeg verð að segja, að með nokkrum rjetti getur kallað sig brautryðjanda í þessu máli. Því vil jeg vekja athygli hv. þd. og hæstv. landsstjórnar á þessu, að það er mjög nauðsynlegt, að landhelginnar sje gætt þannig, að lögbrjótarnir náist sem flestir, en það er einkum nauðsynlegt og mest áríðandi, að landhelginnar sje svo gætt, að lögbrjótarnir nái sem minst til þess að brjóta lögin. M. ö. o. það sem hefir hagnýtasta þýðingu í þessu máli, er hin stöðuga gæsla, sem bægir frá landhelginni, jafnvel þó að með því móti sje spilað úr höndum sjer mörgum tækifærum til þess að standa sökudólgana að verki og grípa þá. Því að vitanlega hljóta allir að sjá það og skilja, að landhelgiseftirlitsskip, sem siglir aftur og fram um veiðisvæðið, hefir minni tækifæri til þess að grípa sökudólgana en það skip, sem hverfur burt með löngum millibilum og skeytir ekki um, þó að farið sje inn fyrir línuna, heldur liggur bara á því lúalagi að geta við og við náð í skipin, sem veiða á hinu forboðna svæði.

Hugsunarháttur manna, og það jafnvel þeirra manna; þ. e. fiskimannanna meðal þjóðarinnar, sem maður gæti eiginlega ímyndað sjer, að væri á móti landhelgisgæslu, jeg á við botnvörpuskipaeigendur, hugsunarháttur þessara manna hefir breyst merkilega mikið á síðari árum. Nú er ekki ótítt, að maður heyri einmitt þessa menn leggja áherslu á það, að landhelginnar verði að gæta, en um leið setja þeir fram þá rjettmætu og sjálfsögðu kröfu, að landhelginnar verði gætt á þann hátt, að einstökum mönnum, jeg vil segja ósvífnum lögbrjótum, líðist ekki að haldast við innan landhelginnar og fiska þar óáreittir í skjóli ljelegrar gæslu. Frá sjónarmiði þeirra manna, sem eru vandir að virðingu sinni í þessu efni og vilja halda lög landsins, og láta skip sín því ekki fiska í landhelgi, frá þeirra sjónarmiði er það vel skiljanlegt, að þeir einmitt vilji láta gæta landhelginnar á þann hátt, að mönnum sje varnað að fara inn fyrir línuna, en ekki að mestu, eins og tíðkast hefir, með því að grípa hina og þessa sökudólga sem helst næst í.

Síðan þetta merkilega frv. um landhelgisgæsluna var fyrst flutt 1913 af þáv. þm. Ísaf., Sigurði Stefánssyni, hafa kröfur manna víðsvegar um land ávalt verið sterkar um, að alvarlega væri hafist handa í þessu máli. Hefir verið reynt að sinna þeim kröfum eftir megni, bæði að því leyti, að Danir hafa lagt sitt lið til landhelgisgæslunnar, og eins að hinu leytinu, að Íslendingar hafa gert það, sem þeir gátu, til þess að láta sín eigin skip hafa gæsluna á hendi. Hvergi hafa samt kröfur manna í þessa átt borið þann árangur í verki eins og í Vestmannaeyjum, því að þar hefir samfara björgunarstarfi verið unnið þrekvirki í þessu máli, þrekvirki, sem önnur sjávarþorp, ef unt hefði verið, hefðu átt að taka sjer til fyrirmyndar. Síðan Vestmannaeyingar hófust handa og keyptu skip til þessa, sem nú hefir starfað í liðug 5 ár, hefir reynslan leitt það berlega í ljós, að það er beinlínis hagsmunamál, að landhelginnar sje gætt sem allra best. Og fyrir land, sem flytur út eins mikið verðmæti af sjávarafurðum og okkar land, fyrir því getur það ekki verið neitt atriði, sem í á að horfa, hvort varið er 1/4 eða 1/2 miljón árlega til landhelgisgæslu. Það er ekki aðalatriðið, hver kostnaðurinn er, heldur hitt, að landhelgin sje varin. Það hefir sýnt sig, að sú gæsla ber þann ávöxt, að veiðin á bátana og skipin vex, og okkar eigin sjómenn fá þannig endurgoldinn þann kostnað, sem landið leggur í landhelgisgæsluna, enda eru þeir best að þeim gróða komnir.

Jeg mintist áðan á það, að Vestmannaeyingar mættu kallast brautryðjendur í þessu máli, og það er framtakssemi þeirra að þakka, að nú eru til æfðir menn innlendir til þess að starfa á því skipi, sem haft er í hyggju að byggja til landvarnanna. Þetta starf er eins og að líkindum ræður talsvert annað en vanalegar siglingar, og ekki lítilsvert, að vel æfðir menn sjeu yfirmenn á slíkum eftirlitsskipum, og því gleðilegt, að til skuli vera færir menn til þess að taka við hinu nýja strandvarnaskipi, þegar það kemur.

Reynsla okkar, sem höfum staðið næst starfsemi björgunar- og eftirlitsskipsins þessi 5 ár, sem það hefir starfað, er sú, að minsta kosti að því er snertir Vestmannaeyjar, að þá er öldin nú önnur fyrir sjávaratvinnureksturinn en áður var. Og slík yrði og reynslan annarsstaðar, ef gæslan yrði þar aukin. Nú stendur svo á í Vestmannaeyjum, og mikið hefir verið um það talað í hinum miklu umr. um strandvarnamálið, að menn vilja gjarnan samræma björgunarskip og strandvarnaskipið. Þessu hefir oft verið svo óljóst blandað við aðalmálið, að ekki hefir verið hægt að sjá, hvort menn hafi átt við björgunarskip samskonar og Danir kalla „Bjærgningsskib“, eða menn hafa átt við björgunarskip, sem aðallega bjargaði lífi manna í sjávarháska, eða það, sem Danir nefna „Redningsfartöj“. En jeg hygg, að flestir muni samt hafa átt við þetta síðarnefnda, að strandvarnaskipið væri útbúið með tæki til þess að frelsa líf manna, ef svo ber undir. Sje um það að ræða, vil jeg lýsa því yfir sem minni skoðun og sem reynslu okkar í Vestmannaeyjum þessi 5 ár, sem e/s Þór hefir starfað, að björgunarskip af því tægi, þ. e. til þess að bjarga mönnum, og eftirlitsskip með landhelginni geti mjög vel farið saman. Jeg skal benda stuttlega á eitt atriði, sem skýrir þetta vel. Skip, sem er á sveimi um fiskimiðin og lítur eftir innl. og útl. skipum og bátum, það skip getur vel, þegar veðrið er orðið svo vont, að bátunum er hætta búin, slegið slöku við landhelgisgæsluna, því þá geta botnvörpuskipin lítið haldist við veiðar. Þar sem því hagar þess vegna svo, að bátaútvegur er mikill og bátarnir fiska á líkum slóðum og botnvörpuskipin, þar getur eftirlitsskipið vel, sjer að skaðlausu, unnið að björgunarstarfsemi. Því tel jeg alveg sjálfsagt mál, að hæstv. stjórn sjái svo um, þegar ísl. eftirlitsskipið verður bygt, að það verði útbúið með þeim nauðsynlegustu tækjum, sem með þarf til þess að veita nauðstöddum skipum og bátum hjálp. Það hefir komið til orða milli mín og reynds sjómanns, sem jeg hefi oft átt tal við um þetta mál, hvort ekki mundi heppilegt, að svona skip hefði líka björgunartæki af öðru tægi, t. d. mótordælur o. s. frv., svo að það gæti, ef svo ber undir að nauðsyn krefur, veitt hjálp skipum, sem strandað hafa eða því um líkt. Skal jeg ekkert um það segja, hvað kosta myndi að kaupa slík tæki og hafa þau á skipinu; auðvitað yrði kostnaður talsverður, ef nokkurt gagn ætti að verða af. T. d. þarf dælur til að geta tæmt skip, sem (hefir strandað og orðið lekt. En yfir höfuð legg jeg ekki líkt því eins mikla áherslu á þetta atriði eins og hitt, að skipið hafi nauðsynleg tæki til þess að geta liðsint skipum og bátum í sjávarháska. Það er eins og jeg sagði, mjög mikilsvert atriði, og jeg vona, þegar farið verður að hugsa um útbúnað skipsins, þá taki hæstv. stjórn til athugunar þær óskir, sem jeg hefi fram borið í þá átt við þessa 3. umr. málsins.