01.04.1925
Efri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

86. mál, Landhelgissjóður

Halldór Steinsson:

Mjer er það gleðiefni, að þetta mál fór ekki umræðulaust í gegnum hv. deild, því að jeg álít það með þýðingarmeiri málum, sem liggja fyrir þessu þingi. Jeg er hv. þm. Vestm. (JJós) þakklátur fyrir það, að hann hóf umr., en þó ætla jeg að andmæla 1–2 atriðum í ræðu hans. Hann hjelt því fram, að skipið ætti fyrst og fremst að varna botnvörpungum að komast inn í landhelgi, frekar en að ná í sökudólga. Jeg er sömu skoðunar og hæstv. forsrh. (JM), að þetta sje ekki hægt með einu skipi. Hitt atriðið, sem jeg get ekki verið hv. þm. Vestm. samdóma um, er, að þetta landvarnaskip eigi líka að hafa á hendi björgunarstarfsemi. Meðan skipið er aðeins eitt, er ómögulegt, að þessi tvenskonar starfsemi fylgist að. Skipið verður að vera á þönum í kringum alt Ísland. Jeg er ekki að andmæla því, að æskilegt væri að hafa einhver björgunartæki, en aðaltilgangurinn í þessu máli á að vera sá, að verja landhelgina. En við eigum auðvitað að keppa að því að koma landhelgisvörninni í sem fullkomnast horf, en til þess þurfum við að hafa nægan flota til varna. Og þá gæti björgunarstarfsemin orðið þessu samfara, en eins og jeg hefi tekið fram, er það ekki hægt, meðan skipið er aðeins eitt.