26.03.1925
Neðri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

1. mál, fjárlög 1926

Ágúst Flygenring:

Það eru aðeins tvær brtt., sem jeg hefi leyft mjer að flytja við þetta fjárlagafrv., og hafa þó borist margar fjárbeiðnir úr hjeraði mínu. Ætlaði jeg að reyna að komast hjá því að flytja nokkra. En þær fjárbeiðnir eru til, sem ekki er hægt að neita, og um þessar er það að segja, að þær eru svo sjálfsagðar, að jeg hefði flutt þær fyrir hvern sem væri, og eins þótt þær hefðu ekki komið úr mínu kjördæmi. Jeg veit ekki betur en að hvað sem fjárhagnum líður, þá eigi þjóðfjelagið heimting á, að intar sjeu af hendi hinar lögbundnu skyldur við það. En hjer stendur svo á, í mínu kjördæmi, að rjett við höfuðstaðinn eru sveitir, sem hvorki hefir verið sjeð fyrir presti nje lækni nje vegum. Prestur kvað nú að vísu nýlega vera kominn í Mosfellssveitina, en enginn er þar læknir, þó að þetta sje læknishjerað, nje heldur er þar vegur, þótt lögin hafi svo fyrir mælt í mörg ár, að þar skyldi þjóðvegur liggja. Er þetta ástand óþolandi og óverjandi. Á sama tíma, sem menn keppast við að leggja vegi og brúa ár í öðrum hjeruðum og vilja kosta hundruðum þúsunda til að ryðja brautir um fjöll og fyrnindi, þá gleyma menn þessum sveitum, sem næst liggja þingstaðnum og höfuðborginni, algerlega. Þetta er að fara yfir ána til að sækja vatn í öllum skilningi. Þessar sveitir, sem jeg hjer á við, — Mosfellssveit, Kjalarnes og Kjós — byggja líf sitt á sambandinu við höfuðstaðinn, og svo er það nauðsynlega samband ekki til. Og höfuðstaðurinn leggur jafnframt í ærinn kostnað til að ná langt að þeim afurðum, sem þessar sveitir framleiða. Það hefir gengið svo langt, að sótt hefir verið mjólk hjeðan austur í Árnessýslu með ærnum kostnaði, í stað þess að fá hana ofan af Kjalarnesi. Jeg hefi það frá bændum þar efra, að þeir verði að borga nú 6 þús. kr. á ári til flutninga á afurðum sínum fram yfir það, sem þeir yrðu að greiða, ef vegurinn væri lagður til þeirra. Vegurinn upp í Mosfellssveit er nú oftast illfær, en svo illfær sem hann er, þá þyrftu bændurnir á Kjalarnesi þó að borga 6 þús. kr. minna fyrir flutning á mjólkinni sinni, ef hann næði til þeirra. Sjá nú allir, hvílík nauðsyn er á þessari vegarlagningu, því að hreppurinn lifir aðallega á mjólkursölu hingað til Reykjavíkur.

Það hefir að vísu um mörg undanfarin fjárhagstímabil „figurerað“ í fjárlögunum talsverð upphæð til lagningar þessa vegar, nefnilega framhalds vegarins frá Kollafirði, en ekki verið notað, ekkert verið gert. Vitanlegt er þó, að þessi vegagerð var sjálfsögð fyrir mörgum árum, og er sjálfsögð. Nú er boðin fram 6 þús. króna fjárhæð frá hjeraðinu, gegn jafnmiklu auknu fjárframlagi úr ríkissjóði, til þess að vegurinn geti sem fyrst komið Kjalnesingum að notum. Jeg vona, að hv. þm. skilji, að þetta er nauðsynjamál.

Um læknisstyrkinn þarf jeg ekki að tala. Þar er ekki farið lengra í sakirnar en að læknir sje hjer í Reykjavík, sem sje skyldur til að gegna sjúkravitjunum, þegar mikið liggur við. Það er alt og sumt. Mjer finst þurfa feiknamikla nægjusemi til þess að taka á móti því, þó að það sje boðið, og má þá nærri geta, að menn taka út með því að þurfa að biðja um slíkt, þar sem þetta hjerað var áður sjerstakt læknishjerað. Nýlega var það talið sjálfsagt að borga aukalækni í Ísafjarðarkaupstað 2 þús. kr. Það virðist þó miklu minni ástæða til þess en að hafa lækni í Kjós, Kjalarnesi og Mosfellssveit, þar sem oft þarf að sækja lækni til Reykjavíkur, en ekki er hægt að fá hann fyr en eftir langa mæðu og mikla fyrirhöfn, sem heldur ekki er von, þar sem enginn er skyldur til að gegna. Alt, sem farið er fram á með þessari styrkveiting, er það, að einhver maður sje skyldur til að gegna, ef sóttur er, og ekki þurfi að sækja hann lengra en til Reykjavíkur. Er gert ráð fyrir, að slíkur læknir fáist fyrir 1500 krónur.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en vona, að hv. þm. skilji, að þetta er sjálfsagt, og óforsvaranlegt að hafa þetta hjerað afskift allri læknishjálp, eins og verið hefir.