17.02.1925
Neðri deild: 9. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

31. mál, sektir

Forsætisráðherra (JM):

Jeg held ekki, að jeg þurfi mikið um frv. þetta að segja, því að það liggur ljóst fyrir, hvað það fer fram á, og að nokkru leyti stendur það í sambandi við annað frv., sem kemur til umræðu hjer í dag. Það mun öllum orðið ljóst, að hinum gömlu ákvæðum um afplánun fjesekta þurfi að breyta, því að ekki getur komið til mála að halda mönnum í æfilöngu fangelsi fyrir brot, sem ekki heyra undir hegningarlögin, en það getur vel komið fyrir eftir núgildandi lögum, þegar ekki er hægt að afplána nema 5 kr. á dag. Við refsingar verður jafnan að gæta þess, að hegningin, hvort er aðalhegning eða varahegning, sje ákveðin í hlutfalli við brotið, samsvari brotinu.

Jeg þykist vita, að ekki verði um það deilt, að umræddum ákvæðum þurfi að breyta, að afplánun sekta verði ákveðin öðruvísi nú, er ekki er ótítt, að fjársekt nemi mörgum tugum — jafnvel hundruðum — þúsunda króna, þegar þess er gætt, að ákvæðin voru sett á þeim tímum, er sektir námu sjaldan meiru en 12–20 kr.