16.02.1925
Neðri deild: 8. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

13. mál, smjörlíki

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Það var svo að heyra á hv. þdm. við 1. umr. þessa frv., sem hjer væri um fremur einfalt mál að ræða, þar sem ýmsum þeirra þótti ekki taka því að vísa frv. til nefndar. Og það er nú að vísu svo, að hjer er ekkert stórmál á ferðinni, þó að veita eigi stjórninni heimild til að undanþiggja það eða þau rjómabú, sem framleiddu bæði smjör og smjörlíki sumarið 1923, banni því, sem sett er í 5. gr. laga nr. 38, 1923, gegn slíkri framleiðslu.

Ástæður fyrir þessu frv. eru greinilega skýrðar í greinargerð þess. Hefir landbn. fallist á þær og leggur til, að frv. verði samþykt. Það væri kannske helst athugandi í sambandi við frv. þetta, að það kunni að raska öryggi því, sem nefnd lög eiga að veita fyrir því, að rjómabússmjör sje ekki svikið vegna þess að smjörlíkisgerð sje leyfð í rjómabúunum jafnhliða smjörgerðinni. En það er hvorttveggja, að allar aðrar öryggisráðstafanir laganna frá 1923 standa eftir sem áður, þó að frv. þetta verði samþykt, og auk þess er hjer aðeins um heimild að ræða, er stjórnin þarf ekki að nota, ef henni þykir það varhugavert.

Loks er þess að geta, að í frv. felst atriði, sem hefir dálitla fjárhagsþýðingu fyrir ríkissjóð, eins og tekið er fram í greinargerðinni. Er vel skiljanlegt, að varla verður fært að neita hlutaðeigandi rjómabúi, Áslækjarbúinu, um uppgjöf á láni því, sem það hefir fengið úr viðlagasjóði til kaupa á smjörlíkisgerðartækjum, ef því verður synjað um undanþágu þá, sem í frv. þessu felst.